Tungumál deyja hraðar út en bætt er við á internetið. Nokkur af stærstu veffyrirtækjum í heiminum hafa lagt mikið kapp á að bæta við fleiri tungumálum sem hægt er að lesa vefi þeirra á. Google fer þar fremst í flokki bæði hvað varðar tungumálaskilning og fjölda tungumála, eftir að hafa bætt við tíu asískum og afrískum þýðingum á vef sinn í lok árs 2014.
Quartz tók saman gögn frá vefnum Ethnologue, þar sem finna má gögn um meira en 7.000 lifandi tungumál um allan heim, og skýrslu frá Sameinuðu þjóðunum um hnignun og útdauða tungumála. Í skýrslunni má lesa að árið 2012 hafi lifandi tungumál verið um 8.000 en í ár eru þau aðeins um 7.100.
Á sama tíma hefur fjöldi tungumála í notkunn í leitarvélum Google og á alfræðivefnum Wikipediu nærri staðið í stað. Staðfærð tungumál, þe. áætlaður fjöldi tungumála sem töluð er á veraldarvefnum, hafa staðið í stað og eru enn um 500 eins og árið 2012.
Það kann hins vegar að vera villandi að tala um fjölda tungumála án þess að átta sig á því hversu margir tala þau. 40,2 prósent alls mannkyns tala átta tungumál, eða 0,1 prósent allra tungumála í heiminum. Þessi átta tungumál eru kínverska, spænska, enska, hindí, arabíska, portúgaska, bengalska og rússneska. Í þessari upptalningu verður hins vegar að minnast á að fjölmargar mismuanndi málískur má finna af bæði kínversku og arabísku.
Samkvæmt Ethnologue eru meira en fimmtungur allra tungumála heimsins „í vandræðum“ (e. in trouble) sem þýðir að þeim sem tala tungumálin fækkar. 13 prósent allra tungumála heimsins eða 916 eru að deyja út sem þýðir að tungumálin verða vart arfleidd næstu kynslóð.
Ef fjöldi tungumála er hættur að aukast eftir að um 500 mál hafa komist á vefinn hefur spá ungverska tungumálastærðfræðingsins András Kornai ræst. Í rannsókn sinni frá 2013 spáði hann því að aðeins fimm prósent tungumála heimsins gætu lifað af á vefnum. Þessi fimm prósent tungumála tala um það bil sex milljarðar manna eða um það bil 94 prósent alls mannkyns, samkvæmt tölfræði Ethnologue.