Ef slagorð flokkana fyrir komandi kosningar eiga eitthvað sameiginlegt þá er það að vera helst til innantóm auk þess sem þau ná illa að einkenna flokkana sem flagga þeim, þó finna megi á því undantekningar. Þetta segir Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus í íslenskri málfræði en Kjarninn leitaði til Eiríks og bað hann um álit á slagorðum flokkanna.
„Eitt sem mér fannst eftirtektarvert þegar ég skoðaði þetta var að þó nokkur af þessum slagorðum gætu í sjálfu sér verið slagorð hvaða flokks sem væri,“ segir Eiríkur og nefnir til dæmis slagorð Vinstri grænna, Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Miðflokksins og Frjálslynda lýðræðisflokksins.
Slagorð þessara flokka, í sömu röð og þeir voru taldir upp, fyrir komandi kosningar eru eftirfarandi: „Það skiptir máli hver stjórnar“, „Betra líf fyrir þig, þína fjölskyldu og komandi kynslóðir“, „Gefðu framtíðinni tækifæri“, „Það sem við segjumst ætla að gera, gerum við!“ og „Gegn spillingu - Beint lýðræði - Verndum náttúruna“.
Flest slagorðin ganga fyrir alla flokka
Eiríkur segir slagorðin vekja upp spurningar um hvaða tilgangi þau þjóni. Hann segir nokkur slagorð þessarar kosningabaráttu vera þess eðlis að ekki allir flokkar myndu taka þau orðrétt upp og nefnir í því samhengi slagorð Flokks fólksins, „Fólkið fyrst, svo allt hitt“, og Framsóknarflokksins, „Framtíðin ræðst á miðjunni“. Vissulega geti slagorð Framsóknarflokksins virst vísa til Miðflokksins, bendir Eiríkur á, þó svo að Miðflokkurinn staðsetji sig ekki beint á miðjunni. Þá telur hann að ekki myndu allir flokkar flagga því orðfæri sem birtist í slagorði Sjálfstæðisflokksins en flokkurinn styðst við slagorðið „Land tækifæranna“.
Eitt slagorð í þessari kosningabaráttu stendur öðrum framar, að mati Eiríks, slagorð Sósíalistaflokksins sem er „Skilum rauðu“. „Mér finnst það alveg bera af þessum slagorðum. Að því leyti að þarna er verið að taka þennan þekkta frasa „skilum auðu“ og bæta R-inu fyrir framan. Bæði er þetta einkennandi og passar vel fyrir flokkinn og svo líka eitthvað sem maður tekur virkilega eftir sem mér finnst nú ekki hægt að segja um margt af hinu,“ segir Eiríkur.
Slagorð Pírata, „Lýðræði – ekkert kjaftæði“, er annað slagorð sem gæti kannski ekki komið frá hvaða flokki sem er að mati Eiríks. „Maður sér ekki fyrir sér að margir aðrir flokkar myndu nota orð eins og „kjaftæði“ í sínum slagorðum. Það er svolítið óhefðbundið sem á væntanlega ágætlega við Pírata.“
„Báknið burt!“ dæmi um gott slagorð
Að mati Eiríks eru slagorðin flest ekkert sérstaklega tengd stefnu flokkanna sem nota þau. „Þau eru flest ekkert sérstaklega tengd stefnu flokksins. Það er ekkert sérstaklega einkennandi og það er spurning hvernig á að leggja út af því. Einn möguleikinn er sá að stefnan er óskýr. Annar möguleikinn er að stefnan sker sig svo ekkert mjög úr stefnu annarra flokka. Þriðji möguleikinn er að segja að það er bara svo erfitt að búa til svona frasa, eitthvert svona slagorð sem er lýsandi.
Spurður að því hvort slagorðin geti virkað fyrir flokkana til að vinna kjósendur á sitt band segist Eiríkur ekki hafa trú á því. „Það eru til einhver gömul slagorð sem hafa verið notuð áður sem hafa haft kannski einhver áhrif eins og til dæmis „Báknið burt!“ sem að Sjálfstæðisflokkurinn hefur oft notað. Það er eitthvað sem er dálítið gott finnst mér að því leyti að þetta er stutt, einfalt og lýsandi,“ segir Eiríkur og spyr í kjölfarið hvort það þurfi þurfi að búa til nýtt slagorð fyrir hverjar kosningar.
Snúið að semja gott slagorð
Það getur verið vandasamt verk að semja gott og smellið slagorð fyrir kosningabaráttu. Eiríkur bendir á að flokkarnir þurfi til að mynda að passa sig á því að það sé ekki auðvelt að snúa út úr slagorði þeurra. „Það er frægt dæmi fyrir löngu, árið 1979, þegar Sjálfstæðisflokkurinn var með „Leiftursókn gegn verðbólgu“, en andstæðingarnir sneru því upp í „Leiftursókn gegn lífskjörum“. Það var eiginlega miklu betra slagorð því það stuðlar. Þannig að það eiginlega snerist gegn flokknum og það má auðvitað passa sig á því.“
Líkt áður segir getur það verið snúið að smíða gott slagorð. Að mati Eiríks myndu slagorðin ef til vill höfða meira til fólks ef þau töluðu meira inn í samtímann. Það geti hins vegar verið varasamt fyrir flokkana sem þurfa að vera tilbúnir með slagorð í tæka tíð fyrir kosningar. „Þá eru þeir kannski búnir að búa til slagorð um eitthvað sem þeir halda að verði kosningamál en verður svo ekkert kosningamál,“ segir Eiríkur.
„Í raun og veru eru þessi slagorð þeirra meira eins og eitthvað logo, þetta er bara merki, einhvern veginn hluti af merki flokksins en hefur enga sjálfstæða merkingu, bara til að einkenna flokkinn,“ segir Eiríkur og bendir á að það þurfi ekki endilega að vera slæmt frá sjónarhóli flokkanna. Þrátt fyrir að það geti virst ómögulegt við fyrstu sýn að meta hvaða flokkar eru með hvaða slagorð, þá læri fólk að tengja slagorð við viðkomandi flokk og þá fá þau kannski eitthvert gildi að mati Eiríks.