Núna á fyrstu dögum nýs þings eru þingflokkar að koma sér fyrir í vinnuaðstöðum í skrifstofuhúsnæði Alþingis, en í kosningunum í september urðu talsverðar breytingar á þingstyrk flokkanna átta sem eiga sæti á þingi. Því fylgir uppstokkun.
Ein breytinganna sem verða, vegna breytts þingstyrks, er sú að Flokkur fólksins, sem er nú með sex þingmenn, fær vinnuaðstöðu þar sem Miðflokkurinn sat áður með sína sjö og síðar níu þingmenn, eftir góða kosningu árið 2017.
„Hvað er karma, ef það er ekki þetta?“ segir Inga Sæland formaður Flokks fólksins í samtali við Kjarnann um þessi vistaskipti við Austurvöll. Á síðasta kjörtímabili rak hún tvo þingmenn, þá Karl Gauta Hjaltason og Ólaf Ísleifsson, úr flokki sínum eftir að Klausturmálið kom upp. Þeir gengu svo til liðs við Miðflokkinn.
„Báðir þessir gæjar sem við rákum úr Flokki fólksins, þeir eru ekki á þingi í dag,“ bendir Inga réttilega á.
Eftir að þeir Karl Gauti og Ólafur voru reknir úr þingflokknum stóðu Inga og Guðmundur Ingi Kristinsson ein eftir í tveggja manna þingflokki, sem er erfið staða. Það er einmitt raunveruleiki Miðflokksins í dag, eftir að Birgir Þórarinsson færði sig yfir í Sjálfstæðisflokkinn.
„Karma,“ segir Inga.
Veit ekki hvar Miðflokkurinn lendir
Flokksformaðurinn sagði við Kjarnann í morgun að þingverðir væru að vinna að því að flytja Miðflokkinn yfir á nýja skrifstofu, en hún sagðist reyndar ekki viss um hvar þeir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bergþór Ólason kæmu til með að fá starfsaðstöðu.
Hún segir að skömmu eftir kosningar hafi hún heyrt af því að Miðflokksmenn ættu að færast á skrifstofurnar við Austurvöll sem Flokkur fólksins hafði áður, en nú sé hún ekki alveg viss.
Hún segir annars að nýja vinnuaðstaða þingflokksins sé yndisleg. „Góður staður og bjartur og fagur,“ eins og hún orðar það.
„Við erum orðin svo mörg, það er svo skrítið, við erum svo mörg og við erum svo dugleg,“ segir Inga svo um þingflokk sinn.