Áætlun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (ESB) um að ríki innan sambandsins taki við alls um 160 þúsund flóttamönnum sem nú eru í Grikklandi, Ítalíu og Ungverjalandi, er aðeins „dropi í hafið“ í samanburði við stærð flóttamannakrísunnar. Þetta segir Sigmar Gabriel, varakanslari Þýskalands í dag og fréttastofa BBC fjallar um.
Gabriel segir að 450 þúsund manns hafi þegar óskað eftir hæli í Þýskalandi á þessu ári, þar af um 37 þúsund manns á fyrstu átta dögunum í september og 105 þúsund í ágústmánuði. Í ræðu sinni á þýska þinginu í dag sagði Gabriel að áætlun framkvæmdastjórnar megi kurteisislega kalla fyrsta skrefið. „Eða þú getur kallað það dropa í hafið,“ sagði hann.
Jean-Claude Junker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, kynnti í árlegri stefnuræðu sinni í gær áætlun um hvernig dreifa skyldi flóttamönnum í löndunum þremur um álfuna. Þýskaland, Frakkland og Spánn munu taka við flestum flóttamönnum, sem að stórum hluta eru Sýrlendingar. Junker hvatti stjórnvöld til að gangast við settum kvóta á hvert ríki. Hann sagði Evrópu vera í huga flóttamanna staður vonar og að það sé eitthvað sem Evrópubúar eigi að vera stoltir af en ekki óttaslegnir yfir. Þrátt fyrir mörg deilumál þá sé Evrópa stöðugasti og ríkasti staður heims. Evrópa verði að hjálpa þeim sem flýji í dag stríð.