Fjármálaeftirlitið (FME) og Seðlabanki Íslands (SÍ) vinna nú að nýrri sviðsmyndargreiningu vegna álits EFTA-dómstólsins frá því í gær, þar sem hann komst að því að ekki sé heimilt að miða við 0 prósent verðbólgu við útreikning á heildarlántökukostnaði ef verðbólgan er hærri eða lægri en sú tala. Dómstóllinn var beðinn um að gefa ráðgefandi álit í máli Sævars Jóns Gunnarssonar gegn Landsbankanum, sem höfðað var vegna verðtryggðs neytendaláns sem Sævar tók haustið 2008.
Í niðurstöðunni segir skýrlega að það sé landsdómstóls að meta hvaða áhrif það hafi að gefa rangar uppýsingar um heildarlántökukostnað og hvaða úrræðum sé hægt að beita til að bæta fyrir þær upplýsingar. Bjarni Benediktsson efnahags- og fjármálaráðherra, sagði í samtali við Kjarnann í gær að það væri óheppilegt að það væri óvissa uppi, en nú væri það dómstóla að eyða óvissu um málið.
Jón Þór Sturluson, aðstoðarforstjóri FME, sagði í samtali við Kjarnann að FME og Seðlabanki Íslands væru búin að vinna ítarlegar greiningar á sviðsmyndum sem gætu komið upp, þegar kemur að dómsmálum sem tengjast verðtryggingunni. Vinnu vegna þessa tiltekna álitamáls, sem varðar 0 prósent verðbólguviðmið í samningum, er ekki lokið ennþá.