Stjórnmálasviðið í Bandaríkjunum leikur nú á reiðiskjálfi, í kjölfar þess að alríkislögreglan FBI fékk heimild til húsleitar á heimili Donalds Trump í Flórídaríki í gær.
Lítið er vitað með vissu um ástæður þess að alríkislögreglan fór fram á og fékk húsleitarheimild hjá forsetanum fyrrverandi, en samkvæmt fréttaflutningi New York Times og fleiri fjölmiðla virðist húsleitin hafa snúist um gögn sem Trump tók með sér úr Hvíta húsinu eftir að hann lét af forsetaembættinu.
Samkvæmt fregnum ýmissa fjölmiðla höfðu alríkislögreglumenn með sér nokkra kassa á brott frá Mar-a-Lago-setrinu og staðfesti Christina Bobb, lögmaður Trumps sem var viðstödd aðgerð FBI, að alríkislögreglumenn hefðu lagt hald á einhver gögn við leitina.
Meðferð Trumps á embættisgögnum til rannsóknar
Fyrr á þessu ári fór þjóðskjalasafn Bandaríkjanna fram á það að Donald Trump yrði tekinn til rannsóknar hjá dómsmálaráðuneytinu vegna meðferðar sinnar á vinnugögnum forsetaembættisins, en öllum gögnum á borð við vinnuskjöl, bréf og tölvupósta skal halda til haga og skila til þjóðskjalasafnsins, bandarískum lögum samkvæmt.
Í febrúar opinberaði þjóðskjalasafnið að stofnunin hefði verið í samskiptum við Trump vegna gagna sem hann hefði tekið með sér úr Hvíta húsinu og á setur sitt í Flórída, en ekki skilað til stofnunarinnar eins og lög segja til um. Sagt var frá því að kassarnir hefðu verið 15 talsins og sumir innihaldið trúnaðargögn. Þessi mál hafa verið til rannsóknar.
Talar um pólitískar ofsóknir
Alríkislögreglan hefur til þessa ekkert tjáð sig um húsleitina og ekki dómsmálaráðuneytið heldur, en fregnir af henni fóru sem eldur í sinu um bandarískt þjóðfélag síðdegis í gær, eftir að Trump sjálfur sagði í yfirlýsingu að hópur FBI-manna hefði ráðist inn á heimili hans og kallaði aðgerðina algjörlega ónauðsynlega og óviðeigandi, þar sem hann hefði verið í samvinnu við viðeigandi ríkisstofnanir um lausn málsins.
„Þeir brutust meira að segja inn í öryggisskápinn minn,“ sagði Trump í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér í gærkvöldi, en þar sparaði hann ekki stóru orðin og talaði um „vopnavæðingu dómskerfisins,“ árás frá „róttækum vinstri demókrötum“ sem hann segir að vilji alls ekki að hann bjóði sig fram til forseta á ný árið 2024.
„Árás sem þessi gæti einungis átt sér stað í skemmdum þriðja heims ríkjum. Hryggilega eru Bandaríkin nú orðið eitt þeirra landa, spillingin hefur aldrei verið jafn mikil. Þeir brutust meira að segja inn í öryggisskápinn minn! Hver er munurinn á þessu og Watergate, þegar brotist var inn í höfuðstöðvar landnefndar Demókrataflokksins? Hér snýst taflið við, demókratar hafa brotist inn á heimili 45. forseta Bandaríkjanna,“ skrifaði Trump.
Þetta er í fyrsta sinn sem nokkur fyrrverandi forseti Bandaríkjanna hefur staðið frammi fyrir opinberum aðgerðum af þessu tagi, og hafa samherjar Trumps í pólitík látið að því liggja að um sé að ræða misbeitingu valds í pólitískum tilgangi, eins og Trump sjálfur vill meina.
Gæti sannað brot komið í veg fyrir framboð Trumps?
Strax í gærkvöldi var þeim kenningum fleytt fram að ef Donald Trump yrði fundinn sekur um að hafa misfarið með gögn forsetaembættisins, myndi það koma í veg fyrir að hann gæti tekið embætti forseta að nýju, en hann hyggur á framboð árið 2024. Ef lagagreinar sem þetta varða eru lesnar virðist það vera rökrétt niðurstaða, en það er þó málum blandið.
Samkvæmt umfjöllun New York Times skoðuðu lögspekingar vestanhafs þetta álitamál árið 2015, þá í tengslum við mál sem tengist Hillary Clinton, sem hafði notað sitt einkanetfang en ekki opinberan tölvupóstþjón stjórnvalda til að reka erindi er hún var utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Niðurstaðan flestra þerira varð þá sú að jafnvel þótt Clinton myndi hljóta dóm fyrir tölvupóstamálið, þá væri kveðið á um kjörgengi til embættis forseta í stjórnarskrá Bandaríkjanna. Ákvæði hegningarlaga trompuðu ekki þau ákvæði sem sett væru fram í stjórnarskrá.