Í nýrri skýrslu ríkislögreglustjóra um skipulagða brotastarfsemi segir að peningaþvætti sé alvarlegur vandi í íslensku samfélagi og sést það ekki síst á mikilli fjölgun slíkra mála.
Skrifstofu fjármálagreininga lögreglu, sem sér um að rannsaka meint peningaþvætti, fékk alls 2.033 ábendingar í fyrra. Það er 23,5 prósent fleiri ábendingar en árið áður og 70 prósent fleiri en árið 2018. Alls var peningaþvætti rannsakað í 250 málum í fyrra, samanborið við 16 mál árið 2017. Algegnt er að peningaþvætti sé rannsakað samhliða öðrum brotum, svo sem í tengslum við þjófnað, fjársvik, fjárdrátt og fíkniefnabrot.
Fjölgun mála rakin til bætts regluverks
Peningaþvættisvarnir íslenskra fjármálafyrirtækja hafa verið hertar á undanförnum árum eftir að hafa verið í ólagi árum saman og því má rekja fjölgun mála til bætts regluverks. Ástæður þess að ráðist var í að bæta regluverkið má meðal annars rekja til ársins 2018 þegar alþjóðlegu samtökin Financial Action Task Force (FATF) gáfu peningaþvættisvörnum Íslands falleinkunn í úttekt sem skilaði Íslandi á svokallaðan gráan lista samtakanna. Umbættur voru gerðar á starfseminni og starfsfólki fjölgað til muna. Þá kom fram í áhættumati vegna peningaþvættis og fjármögnunar hryðjuverka sem gefið var út árið 2019 að vísbendingar væru um að málum vegna peningaþvættis færi fjölgandi. Þessi ábending reyndist réttmæt.
Óvíst um hversu háar upphæðir er að ræða
Heildarupphæð haldlagðra eða kyrrsettra fjármuna í tengslum við rannsóknir mála á peningaþvætti liggur ekki fyrir. Fram kemur í skýrslunni að greiningardeild ríkislögreglustjóra meti það svo að bæta þurfi skráningar lögreglu er varðar kyrrsetningu og haldlagningu fjármuna í peningaþvættismálum. Vitað er að skaðsemi peningaþvættis og skattsvika er mikil og eru skattaundanskot talin nema 4% af vergri þjóðarframleiðslu hið minnsta eða um 100 milljörðum á ári.
Í skýrslunni segir enn fremur að tengsl skipulagðrar brotastarfsemi við rekstur lögmætra fyrirtækja birtist með sífellt ljósari hætti. Ávinningur brotastarfsemi er falinn með því að þvætta hann í gegnum rekstur fyrirtækja. Þá er það mat lögreglu að skattaundanskot geti tengst svartri atvinnustarfsemi, félagslegum undirboðum og bótasvikum.