Formenn allra stjórnmálaflokkanna á Alþingi hafa lagt fram sameiginlega þingsályktunartillögu um stofnun Jafnréttissjóðs Íslands í tilefni af því að 100 ár eru liðin frá því að konur fengu kosningarétt. Sjóðurinn á að njóta framlaga af fjárlögum næstu fimm árin, 100 milljónir króna á ári, eða 500 milljónir alls.
Úthlutað verður úr sjóðnum á hverju ári milli 2016 og 2020 og verða úthlutanir tilkynntar á 19. júní ár hvert. „Er með því lögð áhersla á þann sess sem kvenréttindadagurinn skipar í íslensku samfélagi,“ segir í greinargerð með þingsályktunartillögunni. Sjóðurinn mun fjármagna eða styrkja „fjölþætt verkefni sem ætlað er að stuðla að frekari framþróun á sviði jafnréttismála hérlendis og efla stöðu kvenna í þróunarlöndum.“
Meðal verkefna yrðu verkefni sem vinna gegn launamun og efla jafnrétti á vinnumarkaði og í atvinnulífi, verkefni sem hvetja konur til forystu og nýsköpunar, vinna gegn kynbundnu ofbeldi og heimilisofbeldi og verkefni sem hvetja ungt fólk til aukinnar þátttöku í stjórnmálastarfi. Þá eru tekin fram verkefni sem stuðla að sterkri og jákvæðri sjálfsmynd bæði stráka og stelpna, og verkefni sem efla stöðu kvenna í þróunarlöndum.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Bjarni Benediktsson, Árni Páll Árnason, Katrín Jakobsdóttir, Guðmundur Steingrímsson og Helgi Hrafn Gunnarsson lögðu fram tillöguna. „Almennur kosningarréttur og kjörgengi til Alþingis er forsenda þeirrar lýðræðisskipunar sem Íslendingar búa við. Þessi réttindi eru jafnframt hluti af lýðræðisvitund þjóðarinnar því að í þeim felast þau grundvallarmannréttindi að geta haft áhrif á mótun samfélagsins. Alþingi hefur því ríka ástæðu til að minnast 100 ára afmælis kosningarréttar kvenna með veglegum hætti,“ segja þau í greinargerðinni.
Í greinargerðinni segir að árangur Íslands í jafnréttismálum sé uppörvandi, en það sé óumdeilt að fjölmargt megi betur fara í jafnréttismálum, meðal annars þegar kemur að kynbundnum launamun og kynbundnu ofbeldi og heimilisofbeldi. „Nauðsynlegt er að takast á við þessi verkefni og halda þannig áfram uppbyggingu samfélags jafnréttis og lýðræðis. Rannsóknir hafa ítrekað sýnt fram á að aukið jafnrétti getur aukið lífsgæði allra því að aukið kynjajafnrétti hefur jákvæð áhrif á hagvöxt og efnahagsstöðugleika auk þess að bæta samkeppnisstöðu ríkja.“ Þá sé það rökrétt að Íslendingar leggi sitt af mörkum til að styðja við jafnréttisstarf í þróunarríkjum. „Tillagan gerir því ráð fyrir því að allt að helmingi árlegs ráðstöfunarfjár Jafnréttissjóðs Íslands skuli varið til verkefna sem ætlað er að efla stöðu kvenna í þróunarlöndum og stuðla að aukinni þekkingu hérlendis á stöðu þeirra.“