„Alþingi hefur viljað styrkja réttarstöðu fjölmiðla.“ Þetta fullyrti Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á Alþingi í morgun.
Tilefnið var rannsókn lögreglunnar á Norðurlandi eystra sem snýst um umfjöllun Kjarnans og Stundarinnar um hina svokölluðu „Skæruliðadeild Samherja“.
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata, spurði forsætisráðherra út í þögn hennar í málinu, þar sem fjórir blaðamenn hafa verið með stöðu sakbornings frá því febrúar vegna rannsóknar lögreglu á meintu broti á friðhelgi einkalífsins. Annar ráðherra ríkisstjórnarinnar, Bjarni Benediktsson, hefur í tvígang skrifað færslu á Facebook vegna málsins þar sem hann sagði meðal annars umfjöllun um rannsókn á störfum blaðamanna vera á forsendum þeirra sjálfra og spurði einnig hvort það mætti „gera þá kröfu að allir séu jafnir fyrir fjölmiðlunum líka?“
Þórður Snær Júlíusson ritstjóri Kjarnans og Arnar Þór Ingólfsson, blaðamaður miðilsins, hafa frá því í febrúar verið með stöðu sakbornings við rannsókn lögreglunnar á Norðurlandi, á meintu broti á friðhelgi einkalífsins. Aðalsteinn Kjartansson, blaðamaður á Stundinni, og Þóra Arnórsdóttir, ritstjóri Kveiks, eru sömuleiðis með stöðu sakbornings í málinu. Aðalsteinn, Þórður Snær og Arnar Þór skrifuðu umfjallanir um „skæruliðadeild Samherja“ í maí í fyrra en Kveikur tók málið ekki til umfjöllunar.
Yfirheyrslur yfir blaðamönnunum fjórum fóru fram í sumar. Aðalsteinn og Þórður birtu í gær, hvor á sínum miðli, greinargerð um málið eins og það horfir við þeim eftir að hafa fengið afhent rannsóknargögn málsins.
Eftirtektarverð þögn sem yfirmaður málaflokks mannréttinda
Arndís Anna beindi fyrirspurn sinni að forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun og benti á að við endurnýjun ríkisstjórnarsamstarfsins í lok síðasta árs gerðist forsætisráðherra jafnframt yfirmaður málaflokks mannréttinda og mannréttindasamninga.
„Þess vegna hefur þögn hæstvirts forsætisráðherra í þessu máli verið eftirtektarverð. Hér eru undir grundvallarmannréttindi. Tjáningarfrelsi blaðamanna, lífæð lýðræðisins. Lögreglan misnotar vald sitt til að þagga niður í blaðamönnum fyrir að flytja fréttir. Hæstvirtur fjármálaráðherra mætti á sviðið til að segja fjölmiðlamönnum að hunskast bara í yfirheyrslur og hætta að vera svona góð með sig,“ sagði Arndís Anna og spurði forsætisráðherra hvort hún hefði engar áhyggjur af þessari atburðarás. „Telur hún ekkert athugavert við vinnubrögð lögreglunnar eða er hún sammála afstöðu hæstvirts fjármálaráðherra? “
Forsætisráðherra sagðist ekki hafa þagað um þessi mál. „Ég hef sömuleiðis látið verkin tala þegar skoðað er til dæmis þau lagaákvæði sem vitnað er til í þessari umræðu um vernd heimildamanna,“ sagði Katrín og minntist á ákvæði sem komu inn í lög að hennar frumkvæði árið 2011 inn í lög um fjölmiðla „þar sem réttarstaða blaðamanna var bætt verulega.“
Forsætisráðherra sagði þingmanninn því ekki þurfa að velkjast í vafa um afstöðu hennar til málsins. „Alþingi hefur viljað styrkja réttarstöðu fjölmiðla.“
Katrín sagði einnig að lögreglan verði að vera meðvituð um það að allar rannsóknaraðgerðir sem beinast gegn fjölmiðlum geta haft fælingaráhrif gagnvart þeim fjölmiðlum. „Því ber lögreglunni að fara sérstaklega varlega þegar um er að ræða frjálsa fjölmiðla sem eru að fjalla um viðkvæm mál í samfélaginu í sínum rannsóknum.“
Tveir þeirra blaðamanna sem eru með stöðu sakbornings í rannsókn lögreglunnar á Norðurlandi eystra starfa á Kjarnanum.