Ákvörðunin hefur verið gagnrýnd meðal Ísraelsmanna í dag, ekki síst á samfélagsmiðlum. Simon Wiesenthal-stofnunin birti nú síðdegis frétt á vef sínum þar sem hún ráðleggur gyðingum að ferðast ekki til Íslands og segir ákvörðunina fordómafulla, að því er fram kemur á vef RÚV.
Utanríkisráðuneytið sendi frá sér tilkynningu í dag þar sem það sagði ákvörðun borgarstjórnar ekki í samræmi við íslensk lög, um opinber innkaup, og að hún væri ekki í samræmi við utanríkisstefnu Íslands.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, hefur sagt að það sé ekki rétt kalla það viðskiptabann sem borgarstjórn hefði samþykkt að gera. „Borgarstjórn samþykkti í vikunni að fela skrifstofu borgarstjóra og innkaupaskrifstofu borgarinnar að útfæra hvernig sniðganga mætti ísraelskar vörur á grundvelli þeirrar greinar í innkaupastefnu borgarinnar sem segir: „að við innkaup sé auk kostnaðar tekið tillit til gæða, umhverfis- og mannréttindasjónarmiða.“ Böndin berast þarna að fyrirtækjum og vörum sem framleiddar eru á hernámssvæðunum og í ólöglegum landnemabyggðum í Palestínu,“ sagði Dagur á Facebook síðu sinni.
Dagur hafnar því að um viðskiptabann sé að ræða. Mynd: Anton.