Forsætisráðherra lagði fram minnisblað um fyrirætlanir um skipun starfshóps gegn hatursorðræðu fyrir ríkisstjórn síðastliðinn föstudag, en í tilkynningu frá Stjórnarráði Íslands segir að meginhlutverk hópsins verði að skoða hvort stjórnvöld skuli setja fram heildstæða áætlun um samhæfðar aðgerðir stjórnvalda gegn hatursorðræðu.
Auglýsing
Unnið verði að því að ná fram samhæfðum aðgerðum gegn hatursorðræðu, meðal annars vegna kynþáttar, litarháttar, þjóðerni, kynhneigðar og kynvitundar, með heildstæðri nálgun. Slíkt sé talið mikilvægt til að stuðla að virkri þátttöku allra í íslensku samfélagi, og að allir geti notið eigin atorku, þroskað hæfileika sína og notið sama athafna- og tjáningarfrelsis og frelsis til heilbrigðs lífs og aðrir.
Í starfshópnum verða fulltrúar frá dómsmálaráðuneyti, félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, mennta- og barnamálaráðuneyti, embætti ríkislögreglustjóra, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Mannréttindaskrifstofu Íslands og Jafnréttisstofu. Auk þess verða fulltrúar skipaðir af forsætisráðherra án tilnefninga.