Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra telur að á næsta kjörtímabili eigi að skoða „mjög vel“ hvort taka skuli upp þrepaskipt fjármagnstekjuskattskerfi á Íslandi. Þetta sagði hún í svokallaðri beinni línu á Facebook-síðu sinni í hádeginu í dag.
Þar var hún spurð að því hvernig, að hennar mati, hægt væri að gera skattkerfið sanngjarnara. Hún sagði að á þessu kjörtímabili hefði verið tekið mikilvægt skref er þrepaskipt tekjuskattskerfi var aftur tekið upp, en snemma á árinu 2019 var samþykkt að bæta einu þrepi við tekjuskattskerfið.
Það sagði hún algjört lykilatriði til að tryggja aukinn jöfnuð í samfélaginu og réttlátara skattkerfi, þannig að þau sem hafa lægri tekjur greiði hlutfallslega minna en þau sem hafa hærri tekjur.
„Mér finnst að sömu hugsun eigi að beita þegar við horfum á aðra hluta skattkerfisins og ég held að það væri skynsamlegt að taka upp skoðun á fjármagnstekjuskattskerfi Norðurlanda annars vegar og fjármagnstekjuskattskerfinu á Íslandi. Við auðvitað hækkuðum fjármagnstekjuskattinn á þessu tímabili, en hækkuðum líka frítekjumarkið, og þá þarf að huga að því, viljum við færa okkur lengra inn í eitthvert þrepaskipt kerfi á því sviði. Þetta tel ég að eigi að skoða mjög vel á næsta kjörtímabili,“ sagði Katrín.
Í dag greiða einstaklingar 22 prósent tekjuskatt af fjármagnstekjum sem ekki stafa af atvinnurekstri, en fjármagnstekjum má skipta í fjóra flokka; arð, leigutekjur, söluhagnað og vaxtatekjur.
Kjarninn sagði frá því í vor að árið 2019 hefði tekjuhæsta 1 prósent landsmanna tekið til sín næstum helming allra fjármagnstekna sem urðu til á Íslandi það ár, eða 44,5 prósent. Þetta kom fram í umfjöllun Páls Kolbeins rekstrarhagfræðings í Tíund, fréttabréfi Skattsins.
Í umfjöllun Páls í Tíund var bent á að þeir allra tekjuhæstu á Íslandi eru með lægri skattbyrði en þeir sem standa þeim næst í tekjustiganum.
Þar sagði orðrétt: „Ástæða þess að skattbyrði tekjuhæsta eina prósents landsmanna er lægri en skattbyrði tekjuhæstu fimm prósentanna er sú að fjármagnstekjur vega þyngra í tekjum þeirra sem eru tekjuhærri á hverjum tíma en skattur af fjármagnstekjum var 22 prósent en staðgreiðsla tekjuskatts og útsvars af launum, lífeyri og tryggingabótum yfir 11.125 þús. kr. var 46,24 prósent.“
Bein línaykkar spurningum svarað
Posted by Katrín Jakobsdóttir on Thursday, August 12, 2021