Ívar J. Arndal forstjóri ÁTVR hefur undanfarin misseri verið í viðræðum við fjármálaráðuneytið um starfssamband sitt, meðal annars um launakjör. Launum forstjórans var hins vegar ekki breytt, samkvæmt svari sem Kjarninn fékk frá fjármálaráðuneytinu.
Heimildir Kjarnans herma að forstjórinn hafi falast eftir álagsgreiðslum vegna kórónuveirufaraldursins ofan á regluleg laun sín, sem eru 1.620 þúsund krónur á mánuði samkvæmt launatöflu forstöðumanna, en það fæst hvorki staðfest frá ÁTVR né fjármálaráðuneytinu.
Báðir aðilar vísa til þess að samskipti forstjórans við ráðuneytið vegna þessara mála séu undanþegin upplýsingarétti almennings og hafna þar af leiðandi að láta af hendi samskipti á milli forstjórans og ráðuneytisins.
„Ráðuneytið hefur átt í samskiptum við forstjóra ÁTVR um starfssamband hans undanfarin misseri. Forstjóra ÁTVR hafa aftur á móti ekki verið ákvörðuð viðbótarlaun, sbr. reglugerð 491/2019,“ segir í svari frá ráðuneytinu til Kjarnans.
Reglugerðin sem vísað er til snýst um greiðslu viðbótarlauna til forstöðumanna ríkisstofnana, en þar segir meðal annars að heimild til greiðslu viðbótarlauna sé „bundin við sérstakt álag, t.d. vegna óvæntra eða ófyrirséðra ytri atvika, eða verkefna sem eru verulega umfram reglubundnar starfsskyldur og rúmast ekki innan venjubundinnar starfsemi stofnunarinnar.“
Í reglugerðinni segir einnig að taka megi beiðni um greiðslu viðbótarlauna til meðferðar „að ósk hlutaðeigandi forstöðumanns eða að frumkvæði hlutaðeigandi ráðherra eða stjórnar“ og að ákvörðun um greiðslu skuli byggð á málefnalegum sjónarmiðum, auk þess sem afla skuli nauðsynlegra gagna og upplýsinga.
Samkvæmt lista sem birtur er af hálfu fjármálaráðuneytisins fengu sex forstöðumenn ríkisstofnana ákvörðuð viðbótarlaun á síðasta ári, þar af fjórir forstöðumenn vegna álags vegna kórónuveirufaraldursins.
Það voru landlæknir auk forstöðumanna Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Lyfjastofnunar og Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða.
Forstjóri frá 2005
Ívar J. Arndal hefur verið forstjóri ÁTVR allt frá árinu 2005, en hefur þó starfað hjá versluninni mun lengur, eða allt frá árinu 1990, samkvæmt því sem fram kom í tilkynningu um ráðningu hans í forstjórastarfið á sínum tíma.
Áður en hann varð forstjóri var hann aðstoðarforstjóri frá árinu 2000, auk þess að vera settur forstjóri á árunum 2003-2004.
Nokkra athygli hefur vakið að Ívar kemur sjaldan eða aldrei fram fyrir hönd stofnunarinnar opinberlega, nema í ársskýrslum og umsögnum stofnunarinnar til opinberra aðila, á meðan að aðstoðarforstjórinn Sigrún Ósk Sigurðardóttir annast samskipti við fjölmiðla.
Lýsti álagi vegna veirufaraldursins í ársskýrslu
Áfengissalan í landinu tók stakkaskiptum í kórónuveirufaraldrinum, er veitingastöðum og krám var gert að loka og ferðalög lögðust af að mestu sem leiddi til þess að fáir birgðu sig upp af víni í Fríhöfninni í Keflavíkurflugvelli. Á móti jókst salan hjá ÁTVR allverulega.
Áhrif faraldursins voru fyrirferðamikil í pistli forstjórans í ársskýrslu ÁTVR fyrir árið 2020, en þar var rakið hvaða áhrif veirufaraldurinn hafði á starfsemina, með tilheyrandi söluaukningu og sóttvarnaráðstafanir á öllum starfsstöðvum.
„Með ótrúlegu átaki og samvinnu allra tókst að láta starfsemina ganga upp við þessar erfiðu aðstæður,“ skrifaði Ívar í pistli sínum og sagði hann einnig að það væri „með ólíkindum“ að dreifing vöru til Vínbúðanna hafi gengið upp „miðað við hvernig ástandið var.“