Franski herinn hóf í dag loftárásir á valin skotmörk í Sýrlandi, en látið var til skarar skríða gegn æfingabúðum Íslamska ríkisins í austurhluta Sýrlands, skammt frá Deir al-Zour. Francois Hollande, forseti Frakklands, staðfesti þetta í dag og sagði að æfingabúðirnar hefðu verið eyðilagðar. Árásin hefði miðað að því að draga máttinn úr grunnstarfi Íslamska ríkisins, að því er fram kemur í umfjöllun breska ríkisútvarpsins BBC.
Bandaríkis herinn hefur verið langsamlega atkvæðamestur í baráttunni við Íslamska ríkið, einkum í Sýrlandi og Írak, og hefur loftárásum, oft svokölluðum dróna-árásum, verið beitt til þess að berjast við vopnaðar sveitir.
Hollande, sem veitti viðtöl eftir fundahöld í New York, þar sem sjötugasta allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna fer fram, sagði að nauðsynlegt væri að finna pólitíska lausn á stríðinu í Sýrlandi og Írak, en forseti Sýrlands, Bashar al-Assad, gæti ekki verið hluti af henni.
Ekki er langt síðan fyrstu herþoturnar frá Rússlandi voru sendar til Sýrlands, en þær börðust gegn Íslamska ríkinu við hlið stjórnarhers Sýrlands. Vladímir Pútín, forseti Rússlands, hefur sagt það nauðsynlegt að mynda bandalag gegn Íslamska ríkinu þannig að það verði raunverulega brotið niður með samstöðu. Allir þurfi að leggja sitt af mörkum í þeirri baráttu.