Francois Hollande, forseti Frakklands, hefur hafnað beiðni Julian Assange, stofnanda Wikileaks, um hæli í Frakklandi. Assange skrifaði opið bréf á vef dagblaðsins Le Monde í dag og beindi orðum sínum beint til forsetans. Reuters greinir frá.
Wikileaks birti á dögunum skjöl sem sýna fram á að Bandaríkin hafi njósnað um síðustu forseta Frakklands, þar á meðal Hollande. Það varð til þess að dómsmálaráðherra Frakklands, Christane Taubira, kallaði eftir því að Assange yrði veitt hæli.
„Líf mitt er í hættu. Frakkland er eina landið sem getur veitt mér það skjól sem ég þarf gegn pólitískum ákærum á hendur mér,“ skrifaði Assange.
Assange hefur dvalið í þrjú ár í sendiráði Ekvador í London því hann er eftirlýstur af sænskum yfirvöldum fyrir kynferðisbrot. Assange er hræddur um að ef hann kemst í hendur Svía muni þeir framselja hann til Bandaríkjanna þar sem yfir honum yrði að öllum líkindum réttað vegna birtingar leyniskjala Bandaríkjastjórnar.
Skrifstofa Hollande svarði beiðni Assange innan við klukkutíma eftir að bréfið birtist á vefnum. „Ítarleg skoðun hefur leitt það í ljós að vegna lagalegrar stöðu Assange getur Frakkland ekki orðið við beiðninni,“ segir í yfirlýsingu frá forsetaskrifstofunni.
Assange á barn með franskri konu sem hann segist ekki hafa getað séð í fimm ár eða síðan hann var fyrst ákærður.