Helga Björg Ragnarsdóttir, fyrrverandi skrifstofustjóri skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, segir að Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, hafi verið með skilgreiningarvald yfir mjög stórum hluta lífs hennar síðustu þrjú árin.
Þetta kom fram í máli Helgu Bjargar í ítarlegu viðtali sem birtist á Kjarnanum fyrir helgi. Þar lýsir hún reynslu sinni af „stöðugum ofsóknum“ borgarfulltrúans.
Iðulega þegar fjallað er um málið í fjölmiðlum er talað um „deilur“ eða „samskiptavanda“ Helgu Bjargar og Vigdísar. Í samtali við Kjarnann gagnrýnir Helga Björg slíka orðanotkun og segir hún hana vera gerendameðvirka.
Hvernig upplifir þú þessa gerendameðvirkni?
„Ég upplifi fjölmiðla í þessu máli eins og það séu tveir jafnir aðilar að deila. Og eins að við séum pólitískir andstæðingar. Ég er aftur á móti starfsmaður sem þarf að fara að leikreglum. Málið varðar starfsmannamál í grunninn sem takmarkar möguleika mína á að tjá mig. Það er eitt. Hitt er að ég taldi mig ekki geta rökrætt við kjörna fulltrúa á opinberum vettvangi þar sem ég þarf að geta unnið með fulltrúum allra flokka og það að taka þátt í opinberum deilum við borgarfulltrúa getur takmarkað möguleika mína á að sinna starfsskyldum mínum,“ segir Helga Björg.
Þannig nýti Vigdís sér þennan valdamismun sem sé á þeim. „Hann er gígantískur – í ljósi efnisins og stöðunnar. Fjölmiðlaumfjöllunin hefur verið svo blind á þessa stöðu.“
Segist hún hafa uppgötvað þetta einn eftirmiðdag þegar hún frétti að fjalla ætti um málið í Kastljósi seinna um kvöldið. „Þá heyrði ég að í þættinum ætti að ræða eineltiskvörtun mína við Vigdísi Hauksdóttur og Pawel Bartoszek forseta borgarstjórnar. Ég hefði ekki hugmynd um þetta. En þá rann upp fyrir mér að fjölmiðlar skilgreindu mig með valdinu. Pawel var bara fyrir mig í settinu og Vigdís fékk að tala um þetta eins og ég væri ekki partur af jöfnunni. Ég hafði aldrei talað við Pawel um þetta mál – ég hafði aldrei talað við þetta fólk um málið. Ég var alveg ein og ekki partur af þessu valdi.“
Viðbrögðin voru þöggun og fálæti
Helgu Björgu finnst einkennilegt að fá ekki að hafa skoðun á því þegar fjallað er um hana í fjölmiðlum, nema í undantekningartilvikum þegar hringt hefur verið í hana.
„Framan af var aldrei hringt í mig, enginn hafði samband. Rosalega skrítið. Mér finnst líka einkennileg þessi þörf til að stilla okkur upp sem jafningjum. Ég vildi óska þess að það væri meiri skilningur hjá fjölmiðlum á valdatengslum og á stöðu fólks í umfjöllunum. Það er mikilvægt að gæta að því að við erum með mismunandi stöðu til að tjá okkur og bregðast við,“ segir Helga Björg.
„Borgarfulltrúi Miðflokksins hefur verið með skilgreiningarvald yfir mjög stórum hluta míns lífs síðustu þrjú árin. Það er sérstök staða. Meira að segja þegar ég hef sent inn leiðréttingar á miðlana þá hefur lítið verið tekið tillit til þess. Ég hef ekki einu sinni fengið svör frá flestum. Það er auðvelt að efast um dómgreind sína þegar viðbrögðin við því sem ég upplifi sem áreiti, einelti, ofsóknir og jafnvel ofbeldi eru þöggun og fálæti. Ég spurði mig stundum hvort það væri ég sem væri í ruglinu, að þetta hafi jafnvel verið bara eðlileg vinnubrögð en sem betur fer þá á ég bestu vinkonur í veröldinni sem hafa verið óþreytandi við að minna mig á að svo er auðvitað ekki.“