Aðsend mynd Helga Björg Ragnarsdóttir
Aðsend mynd

Flókið að fást við fólk sem lætur sannleikann ekki þvælast fyrir sér

Kerfið brást Helgu Björgu Ragnarsdóttur harðlega eftir að hún upplifði stöðugt áreiti borgarfulltrúa í um tvö ár án þess að geta borið hönd fyrir höfuð sér. Hún gagnrýnir fjölmiðlaumfjöllun um málið en það hefur haft margvíslegar alvarlegar afleiðingar á andlega og líkamlega heilsu hennar þar sem hún var einungis orðin „skugginn af sjálfri“ sér á tímabili. Nú kveður þó við annan tón – og segist Helga Björg vera búin að finna sína rödd og ætlar hún að svara fyrir sig hér eftir.

Hér áður fyrr, þegar ég var að byrja að vinna hjá Reykja­vík­ur­borg, hefði allt orðið vit­laust ef talað hefði verið svona um starfs­fólk. Við bara vorum ekki á þeim stað og svona hegðun tíðk­að­ist ekki. Ég held að það muni eng­inn eftir öðru eins.“

Þetta segir Helga Björg Ragn­ars­dótt­ir, fyrr­ver­andi skrif­stofu­stjóri skrif­stofu borg­ar­stjóra og borg­ar­rit­ara, í sam­tali við Kjarn­ann um reynslu sína af „stöð­ugum ofsókn­um“ borg­ar­full­trúa Mið­flokks­ins, Vig­dísar Hauks­dótt­ur. 

Málið hefur ítrekað verið til umfjöll­unar í fjöl­miðlum síð­ustu ár en áreitið hóf­st, að sögn Helgu Bjarg­ar, fljót­lega eftir borg­ar­stjórn­ar­kosn­ing­arnar 2018. Hún gagn­rýnir fjöl­miðlaum­fjöllun harð­lega og segir hana hafa ein­kennst af rang­færsl­um, einkum framan af. Hún hafi lengi ekki átt mögu­leika á að verja sig gagn­vart rang­færsl­unum og áreit­inu. Hefur hún óskað eftir til­færslu í starfi sem fall­ist hefur verið á og mun hún sinna jafn­launa­málum hjá Reykja­vík­ur­borg á mannauðs- og starfs­um­hverf­is­svið­i. 

Auglýsing

Hefur upp­lifað fálæti af hálfu kerf­is­ins og fjöl­miðla

Nið­ur­stöður á sál­fé­lags­legu áhættu­mati og mati á starfs­um­hverfi starfs­fólks sem starfar á vett­vangi borg­ar­ráðs voru kynntar í síð­ustu viku en þar kemur meðal ann­ars fram að erfið sam­skipti á vett­vangi borg­ar­ráðs hafi gengið mjög nærri starfs­mönnum Reykja­vík­ur­borgar og kjörnum full­trú­um, margir starfs­menn borg­ar­innar hafi upp­lifað mik­inn kvíða vegna þessa á kjör­tíma­bil­inu og ekki hafi tek­ist að tryggja sál­fé­lags­legt öryggi starfs­manna á þessum vett­vangi. Helga Björg telur að þessar nið­ur­stöður segi allt sem segja þarf og fagnar hún að málið sé komið í þennan far­veg.

„Ég hef upp­lifað fálæti bæði af hálfu kerf­is­ins og fjöl­miðla gagn­vart rang­færsl­um, áreiti og ofsóknum borg­ar­full­trú­ans í minn garð sem hefur verið erfitt að skilja og sætta sig við. Fjöl­miðlaum­fjöllun hefur þar til nýlega nán­ast ein­göngu byggst á Face­book-­færslum borg­ar­full­trú­ans og túlkun hennar á mál­inu með til­heyr­andi rang­færslum og jafn­vel meið­yrðum og nán­ast und­an­tekn­ing­ar­laust án þess að leita eftir mínum sjón­ar­mið­u­m.“

Hún segir að sam­starfs­fólk hennar hafi verið mjög styðj­andi og getur hún ekki ímyndað sér annað en að þetta hafi verið þeim erfitt oft og tíð­um. „Þetta lamar mann. Ég var metn­að­ar­fullur stjórn­andi sem breytt­ist í skugg­ann af sjálfri mér. Ég kom miklu minna í verk og var óör­ugg með það sem ég var að gera. Til­gang­ur­inn er enda sá að ein­hverju leyti og þetta veikir kerf­ið.“

Það sem henni finnst einna áhuga­verð­ast við nið­ur­stöður úttekt­ar­innar er að svona hegðun færir mörkin um hvað sé eðli­legt og hvað ekki. „Þetta normaliserar mjög bil­aða sam­skipta­hætti og einmitt milli póli­tíkur og starfs­fólks sem getur aldrei verið jafn­ingja­grund­völl­ur. Á meðan stjórn­mála­fólk vinnur við að koma skoð­unum sínum á fram­færi, þarf starfs­fólk stöðugt að gæta orða sinna, enda á það að geta unnið með kjörnum full­trúum allra flokka. Það er eitt­hvað svo bogið við þetta.“

Ég kom miklu minna í verk og var óörugg með það sem ég var að gera. Tilgangurinn er enda sá að einhverju leyti og þetta veikir kerfið.
Helga Björg segir að þegar hún byrjaði að vinna hjá Reykjavíkurborg hafi starfsumhverfið verið frábært.
Birgir Þór Harðarson

Starfið stór partur af sjálfs­mynd­inni

Helga Björg byrj­aði að vinna hjá borg­inni árið 2006 á fram­kvæmda- og eigna­sviði en síðar fór hún á umhverf­is- og sam­göngu­svið. Var hún alltaf í starfs­manna­mál­um, fyrst mannauðs­ráð­gjafi og síðar starfs­manna­stjóri þangað til árið 2012. Þá var hún ráðin sem skrif­stofu­stjóri á skrif­stofu borg­ar­stjóra og borg­ar­rit­ara. 

Hún er félags­fræð­ingur í grunn­inn en hún er einnig með meistara­gráðu í við­skipta­fræði. Nú stundar hún nám í kynja­fræði við Háskóla Íslands. 

„Ég er svona Reykja­vík­ur­borg­ar­kona og hef alltaf brunnið fyrir mál­efnum borg­ar­inn­ar. Mér fannst svo mik­ill heiður að fá að vinna að fjöl­breyttum verk­efnum en ég fékk svig­rúm til að hafa áhrif og vinna að góðum mál­um. Ég er ein af þessum sem er stolt af því að vera starfs­maður Reykja­vík­ur­borg­ar  – þannig að þetta hefur verið stór partur af sjálfs­mynd­inni. Mér þykir óskap­lega vænt um Reykja­vík­ur­borg sem vinnu­stað þrátt fyrir allt sam­an.“

Umsnún­ingur með nýjum borg­ar­full­trúum

Helga Björg segir að þegar hún byrj­aði að vinna hjá Reykja­vík­ur­borg hafi starfs­um­hverfið verið frá­bært. „Það var bæði gott að vinna með stjórn­mála­mönn­unum og starfs­fólki. Það var til að mynda gaman að fá að vinna með meiri­hluta sem var svo­lítið óvana­legur – með Besta flokk­inn í broddi fylk­ing­ar.“

Það var ekki fyrr en árið 2018 sem hlut­irnir breytt­ust með mjög afdrifa­ríkum hætti, að hennar sögn. „Það verður umsnún­ingur á öllu.“

Málið átti sér ákveð­inn aðdrag­anda. Hér­aðs­dómur Reykja­víkur kvað upp dóm þann 5. júní 2018 þar sem hann felldi úr gildi áminn­ingu sem Helga Björg veitti und­ir­manni sínum en þá var nýr meiri­hluti í þann mund að taka við. Hún segir að dóm­ur­inn hafi verið kynntur á borg­ar­ráðs­fundi fljót­lega eftir það. „Þá strax kom ein­hver „tónn“ í póli­tík­ina og það var ljóst á þessum tíma að ekki væri verið að virða vald­mörk stjórn­mála­fólks og starfs­fólks.“ Segir hún að ákveðnir borg­ar­full­trúar hafi farið á „bólakaf í starfs­manna­mál“ í stað­inn fyrir að sinna hlut­verki sínu sem eft­ir­lits­að­il­ar. Fljót­lega hafi skap­ast mikil óvissa um vald­mörk og hlut­verk kjör­inna full­trúa – og kveðið við annan tón en áður. „Ég varð þess vör að starfs­fólk varð hrætt og upp­lifði jafn­vel að sér væri ógnað varð­andi starfs­ör­yggi og ann­að.“

Auglýsing

Helga Björg áréttar að henni hafi fund­ist eðli­legt að kjörnir full­trúar kynntu sér málið og leit­uðu sér upp­lýs­inga um dóm­inn – og ekk­ert nema eðli­legt um það að segja, að hennar mati. „Ég hefði til dæmis fagnað því ef þau hefðu viljað fá úttekt á starfs­um­hverfi skrif­stof­unnar í ljósi orða­lags dóms­ins en ég óskaði sjálf eftir slíkri úttekt eftir að dóm­ur­inn féll. Ég ber ekki kala til fólks að hafa í fyrstu brugð­ist ókvæða við þessum dómi og viljað fá skýr­ingar enda var umfjöllun um mig í dómnum væg­ast sagt slá­andi. Ég hefði kippst við sjálf. Það er sjálf­sagt að kjörnir full­trúar sinni eft­ir­lits­hlut­verki og veiti stjórn­sýsl­unni aðhald en mik­il­vægt er að þeir blandi sér ekki inn í ein­stök starfs­manna­mál eða geri þau að umtals­efni á opin­berum vett­vang­i.“

Dóm­ur­inn sner­ist sem sagt um ógild­ingu áminn­ingar sem var veitt vorið 2017. „Ákvörð­unin um áminn­ingu var tekin af mér í sam­ráði við tvo lög­menn og stað­fest af borg­ar­rit­ara. Það er því frá­leitt að tengja ákvörð­un­ina við ein­hvers konar óvild, andúð eða jafn­vel ein­elti af minni hálfu í garð þess sem var áminnt­ur.“

Aftur á móti tókst ekki að færa rök fyrir því að þetta hefði verið efn­is­lega rétt ákvörð­un. „Dóm­ari komst að þeirri nið­ur­stöðu að ekki hefði tek­ist að sýna fram á að til­efni hafi verið til áminn­ing­ar. Og þar við sit­ur.“

Fannst hún ekki geta varið sig

Bendir hún á að í dómnum hafi komið fram að líta mætti á fram­komu hennar sem lít­ils­virð­ingu við starfs­mann­inn, sem hafi verið tölu­vert eldri en hún og með yfir 35 ára reynslu af fjár­mála­tengdum störf­um. Hann hafi gegnt stöðu fjár­mála­stjóra ráð­húss­ins í rúm 10 ár og starfað þar tvö­falt lengur en skrif­stofu­stjór­inn. „Um þá skil­yrð­is­lausu hlýðni sem skrif­stofu­stjór­inn virð­ist ætla af stefn­anda verður sagt það eitt að þrátt fyrir stjórn­un­ar­rétt ann­ars og hlýðni­skyldu hins eru und­ir­menn ekki dýr í hring­leika­húsi yfir­manna sinna,“ segir í dómn­um. 

Helga Björg sá alltaf fyrir sér, eftir að umræddur dómurinn féll, að hún þyrfti að vinna sér inn traust aftur.
Bára Huld Beck

Helga Björg segir óskilj­an­legt að dóm­ar­inn hafi í kjöl­far „þess­ara skraut­legu lýs­inga“ á stjórn­un­ar­háttum hennar og fram­komu við fjár­mála­stjór­ann kom­ist að þeirri nið­ur­stöðu að hún hafi verið hæf til að taka ákvörðun um áminn­ingu. „Hvernig kemur það heim og sam­an? Af hverju er dóm­ar­inn að segja þetta í kafla þar sem hún fellst ekki á að ég sé van­hæf vegna óvildar í garð starfs­manns­ins?“ spyr hún en hún telur þessi orð dóm­ar­ans afvega­leiða nið­ur­stöð­una.

„Þessi þáttur dóms­ins er hvað erf­ið­ast­ur. Ég upp­lifði mig dæmda, óbeint, fyrir eitt­hvað sem ég hafði enga mögu­leika til að verja mig fyr­ir. Ég var ekki við­stödd þegar stefn­andi gaf skýrslu fyrir dómi og vissi því ekki hvaða ásak­anir hann hafði sett fram í minn garð og því gat ég ekki varist þegar ég gaf skýrslu. Ég var ekki aðili máls og gat því ekki áfrýjað nið­ur­stöð­unni. Ég hafði ekki hug­mynda­flug í að þetta gæti gerst. Að rétt­ar­kerfið gæti farið svona með fólk. Og þetta er það sem situr lík­leg­ast mest í mér en mér fannst kerfið þarna hafa brugð­ist,“ segir hún.

Sá fyrir sér að þurfa að vinna sér inn traust á ný

Sá Helga Björg alltaf fyrir sér, eftir að dóm­ur­inn féll, að hún þyrfti að vinna sér inn traust aft­ur. Bendir hún á að þeir borg­ar­full­trúar sem fyrir voru hafi þekkt hana og vitað hvernig stjórn­andi hún var en þeir sem komu inn nýir á þessum tíma hafi auð­vitað verið með aðeins aðra mynd af því sem hafði gerst. 

„Nýja fólkið þekkti mig ekki og því eðli­legt að þau hafi þurft að kynn­ast mér. Ég gerði ráð fyrir að þurfa að vinna mér inn traust þeirra. Það reynd­ist flókn­ara en mig hafði getað grunað því nokkrir borg­ar­full­trúar minni­hlut­ans settu tón­inn um það sem koma skyldi og blönd­uðu sér af fullum þunga inn í mál­ið, meðal ann­ars með til­lögum um breyt­ingar á ráðn­ing­ar­sam­bandi mínu við borg­ina.“ Telur hún það ekki vera hlut­verk kjör­inna full­trúa að skipta sér af starfs­manna­málum með beinum hætti og vísar hún í álit siða­nefndar Sam­bands íslenskra sveit­ar­fé­laga sem var veitt eftir að hún sendi inn kvörtun í ágúst sama ár. 

„Þar kemur mjög skýrt fram að það verður að passa upp á þessi mörk,“ segir hún en í áliti siða­nefndar frá des­em­ber 2018 kemur fram að kjörnir full­trúar ættu ekki að stíga inn í ein­staka starfs­manna­mál, því það sé á ábyrgð fram­kvæmda­stjóra. 

Auglýsing

Kom algjör­lega af fjöllum – Vissi ekki af fjöl­miðlaum­fjöllun

Helga Björg seg­ist hafa setið undir ásök­unum um ein­elti frá borg­ar­full­trúa Mið­flokks­ins í tvö ár án þess að aðhaf­ast neitt eða í raun svara. „Það eina sem ég geri er, eftir fjórar vikur af per­sónu­legum árásum á mig og rang­færslum þrátt fyrir leið­rétt­ingar í borg­ar­ráði, að senda inn erindi til for­sætis­nefnd­ar.“ Í erind­inu óskaði hún eftir því að for­sætis­nefnd tæki til skoð­unar hvort ákvæði sveit­ar­stjórn­ar­laga um rétt­indi og skyldur kjör­inna full­trúa og siða­reglur kjör­inna full­trúa hjá Reykja­vík­ur­borg hefðu verið brot­in. Þetta vildi hún meina að hefði átt sér stað í umræðu þar sem borg­ar­full­trúar hefði haldið því fram að hún hefði lagt und­ir­mann sinn í ein­elti með vísan í dóm hér­aðs­dóms um áminn­ingu sem þvert á móti hafnar því að um ein­elti hafi verið að ræða þó áminn­ingin hefði verið ógild­uð.

Nefndin vildi aftur á móti ekki taka afstöðu til þeirra álita­efna sem komu fram í erindi Helgu Bjargar en sam­þykkti hins vegar að beina því til siða­nefndar Sam­bands íslenskra sveit­ar­fé­laga að kanna hvaða sjón­ar­mið kynnu að gilda í til­fellum sem þessum, þegar kjörnir full­trúar gera störf starfs­manna sveit­ar­fé­laga að umtals­efni opin­ber­lega. Eins sam­þykkti for­sætis­nefnd að leita eftir leið­sögn siða­nefnd­ar­innar um hvernig rétt væri að haga umgjörð þeirra mála þegar starfs­menn sveit­ar­fé­laga telja kjörna full­trúa brjóta siða­reglur með fram­ferði sínu eða öfugt. 

Erindið var í kjöl­farið til umfjöll­unar í fjöl­miðlum en Helga Björg seg­ist alls ekki hafa viljað það. „Þetta var per­sónu­legt og erfitt erindi. Borg­ar­full­trúi Mið­flokks­ins hefur haldið því fram að ég hafi birt það sjálf. Ég kom aftur á móti algjör­lega af fjöll­um, fékk bara sím­tal að það væri bréf frá mér í fjöl­miðlum sem kom mér á óvart enda kom svo í ljós að erindið hafði verið birt á fund­ar­vefnum fyrir mis­tök. Ég gat svo sem átt von á því að það færi í umfjöllun þegar fund­ur­inn hefði verið hald­inn en ég hrein­lega átt­aði mig ekki á því að bréfið yrði birt fyrr.

En þetta er dæmi­gert fyrir með­höndlun borg­ar­full­trú­ans á stað­reynd­um, hún hélt því til að mynda fram að ég skuld­aði henni opin­bera afsök­un­ar­beiðni vegna tölvu­pósts sem borg­ar­rit­ari sendi henni og ég kom ekki nálægt. Það er mjög flókið að fást við fólk sem lætur sann­leik­ann ekki þvæl­ast fyrir sér.“

„Það er mjög flókið að fást við fólk sem lætur sannleikann ekki þvælast fyrir sér,“ segir Helga Björg um borgarfulltrúa Miðflokksins, Vigdísi Hauksdóttur.
Birgir Þór Harðarson

Rang­færslur og ósann­indi fóru und­an­tekn­ing­ar­laust í fjöl­miðla

Helga Björg lagði fram ein­eltiskvörtun eftir að hún sendi erindi til for­sætis­nefnd­ar. Siða­nefnd sam­bands­ins sendi frá sér álit í des­em­ber 2018, meðal ann­ars með leið­bein­ingum til for­sætis­nefndar og fékk Helga Björg jafn­framt að vita að réttur far­vegur fyrir slíkar kvart­anir væri að leita til yfir­manna en ekki for­sætis­nefnd­ar. „Ég sendi þar af leið­andi end­ur­tekið erindi út af siða­reglu­broti og nýja ein­eltiskvörtun vorið 2019. Þessi erindi voru það eina sem ég aðhafð­ist í þessu máli þangað til síð­asta sumar þegar ég setti inn stöðu­upp­færslu á Face­book um mál­ið.“

Í færsl­unni fjall­aði hún í fyrsta skiptið opin­ber­lega um reynslu sína og það sem hún þurfti að upp­lifa af hendi Vig­dís­ar.

Hafið þið ein­hvern tím­ann sest niður tvær til að reyna að leysa mál­in?

„Nei. Ég taldi mig ekki eiga að hafa frum­kvæði að slíku og fannst mjög flókið að gera það í ljósi þess hvað mér fannst Vig­dís óvæg­in. Ég hefði samt alveg verið til­búin til þess ef það hefði verið lagt upp með eitt­hvað slíkt. En ég get ekki ímyndað mér að það hefði haft ein­hverja þýð­ing­u,“ segir hún. 

Helga Björg kvart­aði fyrst undan stöð­ugu áreiti og ofsóknum – en á sínum tíma kall­aði hún það ekki ein­elti. „Það voru rang­færslur og ósann­indi um mig á hennar Face­book-­síðu sem fóru und­an­tekn­ing­ar­laust í fjöl­miðla. Hún fylgdi því eftir með við­tölum þar sem hún hélt áfram ósann­ind­un­um. Það er það sem ég var að kvarta yfir. Ég átti ekki í neinum sam­skiptum við hana, þannig að ég var í raun­inni ekki að kvarta yfir ein­elti í návígi – heldur taldi ég hana vera að brjóta siða­regl­ur. Ég óskaði í raun­inni eftir að það yrði tekið til skoð­unar hvort hún væri að brjóta ákvæði sveita­stjórn­ar­laga eða siða­reglna með því að fara yfir þessi mörk.“

Mikil von­brigði að ein­eltiskvörtunin hafi ekki verið afgreidd

Álitið frá sam­band­inu sem kom í des­em­ber 2018 var mjög leið­bein­andi fyrir stjórn­sýsl­una, að mati Helgu Bjarg­ar. „Á því byggði bráða­byrgða­verk­fer­ill um sam­skipti kjör­inna full­trúa og starfs­manna og fór ég eftir honum þegar ég setti fram ein­eltiskvörtun­ina. Þannig að ég var að reyna að fara eftir leik­reglum og óskaði ég eftir leið­sögn, enda vissi ég ekki hvað ég átti að gera. Það voru engir ferlar um svona. En ein­eltiskvörtunin tók langan tíma í vinnslu, sem var mjög erfitt – en vegna þess að borg­ar­full­trú­inn neit­aði þátt­töku þá var ekki hægt að rann­saka mál­ið. Það var því afgreitt út af borð­inu. Það voru líka rosa­leg von­brigði vegna þess að ég var ekki kvarta undan sam­skiptum mínum við hana í návígi. Ég var að kvarta yfir opin­berum ummælum á Face­book í fjöl­miðlum og í ráðum og nefndum á vegum borg­ar­innar og ég sá ekki af hverju ekki væri hægt að rann­saka það.“

Helga Björg segir að lík­leg­ast hafi ein­hver hræðsla og var­kárni verið þar að baki. Seg­ist hún skilja það að ein­hverju leyti. „En með því að taka þetta ekki fyrir þá var borg­ar­full­trú­inn með frítt spil. Það sem hún gerði var að taka til dæmis ein­eltiskvörtun­ina mína og birta á inter­net­inu. Kvörtunin var trún­að­ar­merkt með per­sónu­legum upp­lýs­ingum um mig – og ákvað hún að birta þetta allt sam­an.“

Auglýsing

Seg­ist hún hafa velt fyrir sér að senda inn kvörtun til per­sónu­verndar en ekki hafa viljað „bjóða henni upp í dans“ með því að aðhaf­ast meira í mál­inu að sinni. „Það er líka svo vont að hafa þurft að gera þetta sjálf. Það hefði verið allt annað ef kerfið hefði gripið inn í því þá hefði mín per­sóna ekki alltaf verið í for­grunni. Það er mjög lam­andi og þess vegna þurfti ég að velja slag­ina.“

Siða­ráð Dóm­ara­fé­lags Íslands sá ástæðu til að bregð­ast við

Eins og áður segir var Helga Björg ekki sátt við ákveðið orða­lag í fyrr­nefndum dómi og leit­aði hún til siða­ráðs Dóm­ara­fé­lags Íslands í kjöl­far­ið. Henni fannst hún hafa verið dæmd án þess að geta í raun brugð­ist við og orða­lagið byggt á fram­burði stefn­anda en ekki gögn­um. „Ég hef farið í gegnum öll þau gögn sem vörð­uðu sam­skipti okkar í tengslum við dóms­málið og þar er ekki að finna staf­krók sem rétt­lætir lýs­ingar dóm­ar­ans.“ Seg­ist hún því hafa verið mjög þakk­lát fyrir að kvörtun hennar hafi verið tekin fyr­ir.

Álit siða­ráðs­ins kom í febr­úar 2020 en í því segir að í úrlausnum sínum kunni dóm­arar að þurfa að taka afstöðu til stað­hæf­inga um mis­bresti í fari nafn­greindra aðila. Úrvinnsla á slíkum atriðum bygg­ist ætíð á gögnum máls og fram­burðum aðila og vitna fyrir dómi. „Gæta ber hóf­semi og sýna öllum sem koma við sögu fulla virð­ingu. Ekki er við­eig­andi að í for­sendum dóma sé hæðst að mönnum eða mál­efnum eða gert lítið úr þeim. Sömu hóf­semi og virð­ingar ber að gæta í umfjöllun um sönn­un­ar­gögn sem færð eru fram og máls­á­stæður sem aðilar máls byggja á,“ segir í álit­in­u. 

„Þetta álit er mér mjög mik­il­vægt. Siða­ráðið telur þarna ástæðu til að bregð­ast við og árétta við dóm­ara að þeir til dæmis gæti hóf­semi og virð­ing­ar.“

Snill­ingur í að afbaka sann­leik­ann

Álitið var ekki birt opin­ber­lega og ákvað Helga Björg því að gera grein fyrir því. „Það kom mér á óvart að dóm­ara­fé­lagið birti ekki álitið á heima­síðu sinni af ein­hverjum ástæðum þó siða­reglur dóm­ara kveði á um það og fann ég mig því knúna til að fjalla um það sjálf á Face­book-­síðu minni. Skömmu síðar var umfjöllun um álit siða­ráðs­ins á vett­vangi borg­ar­ráðs þar sem borg­ar­full­trúi Mið­flokks­ins hélt því fram í bókun að nið­ur­staða siða­ráðs­ins hefði verið mér í óhag. Hún er nátt­úru­lega snill­ingur í að afbaka sann­leik­ann. Ég leið­rétti því þessar rang­færslur borg­ar­full­trú­ans á Face­book-­síðu minni.

En eftir situr að það er óskilj­an­legt að kjör­inn full­trúi geti nýtt sér fundi í ráðum borg­ar­innar til að setja fram slíkar stað­leysur um nafn­greinda ein­stak­linga og leiðir til þess að við sem fyrir því verðum eigum ekki ann­arra kosta völ en að bregð­ast við.“

Hélt Helga Björg að þarna væri búið að útkljá þessi mál en svo var ekki. Hún tók þá ákvörðun að skrifa aðra stöðu­upp­færslu núna í byrjun júní þar sem hún greinir frá því að hún ætli að skipta um starfs­vett­vang innan Reykja­vík­ur­borg­ar. „Ég átt­aði mig á því að ef ég myndi ekki greina sjálf frá því að ég væri að skipta um starf þá myndi lík­lega koma Face­book-­færsla eða bókun um það frá henni að ég hefði verið rek­in. Sem er nátt­úru­lega ekki það sem gerð­ist. Svo ég ákvað að fara fram fyrir það og segja frá því.“

Segir Vig­dísi hafa nýtt sér valda­mun­inn á þeim

Iðu­lega þegar fjallað er um málið í fjöl­miðlum er talað um „deil­ur“ eða „sam­skipta­vanda“ Helgu Bjargar og Vig­dísar en hin fyrr­nefnda er alls ekki sátt við að talað sé um málið þannig – og segir hún slíka orða­notkun vera ger­enda­með­virka. 

Hvernig upp­lifir þú þessa ger­enda­með­virkni?

„Ég upp­lifi fjöl­miðla í þessu máli eins og það séu tveir jafnir aðilar að deila. Og eins að við séum póli­tískir and­stæð­ing­ar. Ég er aftur á móti starfs­maður sem þarf að fara að leik­regl­um. Málið varðar starfs­manna­mál í grunn­inn sem tak­markar mögu­leika mína á að tjá mig. Það er eitt. Hitt er að ég taldi mig ekki geta rökrætt við kjörna full­trúa á opin­berum vett­vangi þar sem ég þarf að geta unnið með full­trúum allra flokka og það að taka þátt í opin­berum deilum við borg­ar­full­trúa getur tak­markað mögu­leika mína á að sinna starfs­skyldum mín­um,“ segir Helga Björg. 

Þannig nýti Vig­dís sér þennan valda­mis­mun sem sé á þeim. „Hann er gígantískur – í ljósi efn­is­ins og stöð­unn­ar. Fjöl­miðlaum­fjöll­unin hefur verið svo blind á þessa stöð­u.“

Seg­ist hún hafa upp­götvað þetta einn eft­ir­mið­dag þegar hún frétti að fjalla ætti um málið í Kast­ljósi seinna um kvöld­ið. „Þá heyrði ég að í þætt­inum ætti að ræða ein­eltiskvörtun mína við Vig­dísi Hauks­dóttur og Pawel Bar­toszek for­seta borg­ar­stjórn­ar. Ég hefði ekki hug­mynd um þetta. En þá rann upp fyrir mér að fjöl­miðlar skil­greindu mig með vald­inu. Pawel var bara fyrir mig í sett­inu og Vig­dís fékk að tala um þetta eins og ég væri ekki partur af jöfn­unni. Ég hafði aldrei talað við Pawel um þetta mál – ég hafði aldrei talað við þetta fólk um mál­ið. Ég var alveg ein og ekki partur af þessu vald­i.“

Mjög gaslýsandi staða 

Helgu Björgu finnst ein­kenni­legt að fá ekki að hafa skoðun á því þegar fjallað er um hana í fjöl­miðl­um, nema í und­an­tekn­ing­ar­til­vikum þegar hringt hefur verið í hana.

„Framan af var aldrei hringt í mig, eng­inn hafði sam­band. Rosa­lega skrít­ið. Mér finnst líka ein­kenni­leg þessi þörf til að stilla okkur upp sem jafn­ingj­um. Ég vildi óska þess að það væri meiri skiln­ingur hjá fjöl­miðlum á valda­tengslum og á stöðu fólks í umfjöll­un­um. Það er mik­il­vægt að gæta að því að við erum með mis­mun­andi stöðu til að tjá okkur og bregð­ast við,“ segir Helga Björg. 

„Borg­ar­full­trúi Mið­flokks­ins hefur verið með skil­grein­ing­ar­vald yfir mjög stórum hluta míns lífs síð­ustu þrjú árin. Það er sér­stök staða. Meira að segja þegar ég hef sent inn leið­rétt­ingar á miðl­ana þá hefur lítið verið tekið til­lit til þess. Ég hef ekki einu sinni fengið svör frá flest­um. Það er auð­velt að efast um dóm­greind sína þegar við­brögðin við því sem ég upp­lifi sem áreiti, ein­elti, ofsóknir og jafn­vel ofbeldi eru þöggun og fálæti. Ég spurði mig stundum hvort það væri ég sem væri í rugl­inu, að þetta hafi jafn­vel verið bara eðli­leg vinnu­brögð en sem betur fer þá á ég bestu vin­konur í ver­öld­inni sem hafa verið óþreyt­andi við að minna mig á að svo er auð­vitað ekki.“

Ég vildi óska þess að það væri meiri skilningur hjá fjölmiðlum á valdatengslum og á stöðu fólks í umfjöllunum.
Borgarfulltrúi Miðflokksins hefur verið með skilgreiningarvald yfir mjög stórum hluta lífs Helgu bjargar síðustu þrjú árin. Það er sérstök staða, að hennar mati.
Aðsend mynd

Hvernig hefðir þú viljað að kerfið hefði tek­ist á við þetta mál?

„Ég hef velt þessu mikið fyrir mér og það eru nokkur atriði. Ég hefði auð­vitað kosið að mál­inu hefði verið áfrýj­að. Þá hefði verið heppi­legt að láta gera úttekt á stjórn­un­ar­háttum mínum í ljósi orða dóm­ar­ans. Með því hefði orðið til ein­hver grund­völlur til ræða málið á lausn­a­mið­uðum nót­um. Ég fékk þau svör að ekki hefði verið talið til­efni til að gera slíka úttekt byggt á starfs­á­nægjukönn­num og öðrum gögn­um. Fyrst svo var þá hefði að mínu mati mátt miðla þeirri afstöðu út á við til að varpa öðru ljósi á mál­ið.“

Helga Björg er þeirrar skoð­unar að til­efni hefði verið til að rann­saka kvart­anir hennar um ein­elti þrátt fyrir að borg­ar­full­trú­inn hafn­aði þátt­töku því málið allt hefði byggt á opin­berri umfjöllun borg­ar­full­trú­ans um hana. „Það er auð­vitað umhugs­un­ar­vert, svona almennt, ef meintir ger­endur geta komið í veg fyrir rann­sókn með því að hafna þátt­töku, og leiðir hug­ann að því hvort kerfið ráði við það er upp koma til dæmis kvart­anir um kyn­ferð­is­lega áreitni af hálfu borg­ar­full­trú­a.“

Hún vill enn fremur sjá siða­reglur sveit­ar­fé­laga virka. „Að það væru ein­hver úrræði þegar borg­ar­full­trúar haga sér með ein­hverjum hætti og virða ekki þessi mörk. Þá hefði líka verið hægt að virkja siða­nefnd til að fjalla um erindi mitt um brot á siða­regl­u­m.“ Mik­il­vægt sé að fá nið­ur­stöðu í mál sem þessi, svo hægt sé að takast á við vanda­málin og halda áfram.

„Þá er ég þeirrar skoð­unar að for­sætis­nefnd hefði mátt taka það fast­ari tökum á vett­vangi kjör­inna full­trúa þegar borg­ar­full­trúi nýtir ráð og nefndir til að veit­ast að nafn­greindu starfs­fólki. Ekki síst þegar slíkt á sér stað á opnum fundum borg­ar­stjórn­ar.“

Auglýsing

Bjó við mikla áfallastreitu

Haustið 2018 fékk Helga Björg leyfi til að sinna öðrum störfum og í níu mán­uði leysti hún af aðstoð­ar­mann Svan­dísar Svav­ars­dóttur heil­brigð­is­ráð­herra. „Það var ofboðs­lega gott að geta stigið út úr þessum erf­iðu aðstæðum en ég var eig­in­lega orðin örmagna. Ég var hrædd og þreytt en ég gerði mér ekki fylli­lega grein fyrir því fyrr en eftir á. Ég átti erfitt með að skilja almenni­lega hvað hafði gerst og hvernig ég gæti unnið mig út úr því. Vin­kona mín sem fylgd­ist vel með mál­inu hvatti mig til að hitta Gyðu Mar­gréti Pét­urs­dótt­ur, pró­fessor í kynja­fræði við Háskóla Íslands, og ræða við hana. Eftir klukku­tíma sam­tal opn­uð­ust augu mín fyrir nýjum vinklum á mál­in­u,“ segir hún og í fram­hald­inu skráði hún sig í nám í kynja­fræð­i. 

„Í fram­haldi af sam­tal­inu sendi Gyða mér nokkrar greinar til að lesa í sam­hengi við þessa reynslu mína. Þar á meðal grein heim­spek­ings­ins Kate Mann um „himpat­hy“ eða „hann­úð“ sem ég tengdi sterkt við og ég setti í sam­hengi við reynslu mína af dómnum þar sem ég er þeirrar skoð­unar að samúð dóm­ar­ans með karli hafi mögu­lega gert það að verkum að hann byggði afstöðu sína til máls­ins á vitn­is­burði aðila máls meira en eði­legt er. Ég get auð­vitað ekki full­yrt það en þannig blasir það við mér.“

Hún var í nám­inu með­fram vinnu næsta árið og segir Helga Björg að það hafi verið eins og sál­fræði­með­ferð. „Námið var leið til að skilja þetta allt saman – og átta mig á því að þetta sner­ist mikið minna um mig og meira um kerfi og kerf­is­vanda. Það var góð til­finn­ing. Ég sá að ég var partur af kerfi sem kunni ekki að takast á við svona. Það var gott og vald­efl­and­i.“

Vig­dís „stjórn­laus“ á fundi

Þegar Helga Björg kom til­baka haustið 2019 eftir að hafa verið aðstoð­ar­maður ráð­herra kom hún í fyrstu hægt inn.

„Síðan þurfti ég að taka þetta föstum tökum og mæta með mín mál inn í borg­ar­ráð. Í fyrsta sinn kom ég inn á fund­inn með starfs­manni skrif­stof­unnar sem hélt kynn­ing­una. Þegar kynn­ingin var búin fór borg­ar­full­trúi Mið­flokks­ins fram á að ég yrði fjar­lægð af fund­in­um. Hún varð mjög æst og heimt­aði að ég yrði rekin út af fund­in­um. Hún stóð upp, struns­aði fram og til baka og starði stöðugt á mig með frekar illu augn­ar­ráði. Hún virk­aði eig­in­lega bara alveg stjórn­laus. Þetta var mjög óþægi­legt og fólk var farið að færa sig til að vera á milli okkar í sjón­línu. Það var hávaði í henni og hún struns­aði út og skellti hurð. Þetta var bara alveg hrika­leg­t.“

Seg­ist hún hafa hugsað með sér þegar á þessu stóð að hún mætti ekki brotna sam­an. „Mér brá svo svaka­lega. Ég hafði ekki haft hug­mynda­flug í að svona gæti gerst þrátt fyrir allt sem á undan var geng­ið. Þegar ég kom út af fund­inum fann ég hvernig ég byrj­aði að missa mátt­inn. Þetta tók í og ég þurfti að fara heim og jafna mig.“

Hún virkaði eiginlega bara alveg stjórnlaus. Þetta var mjög óþægilegt og fólk var farið að færa sig til að vera á milli okkar í sjónlínu. Það var hávaði í henni og hún strunsaði út og skellti hurð. Þetta var bara alveg hrikalegt.
Helga Björg segir að sér sé annt um að rækta skyldur mínar og gæta ítrasta trúnaðar, og það muni hún gera hér eftir sem hingað til. „Ég get samt ekki annað en sagt frá þessu hér, enda getur markmið trúnaðarins ekki verið að þagga ofbeldisfulla hegðun.“
Bára Huld Beck

Var mjög lasin á tíma­bili

Helga Björg segir að hún hafi þó verið fljót­ari að ná sér eftir þetta atvik en hún bjóst við og var hún mætt til vinnu tveimur dögum síð­ar. „En næsti fundur var enn verri. Þá varð Vig­dís hávær­ari og krafð­ist þess að for­maður borg­ar­ráðs „henti“ mér út af fund­inum ann­ars myndi hún gera það sjálf. Hún gerði sig í raun­inni lík­lega til þess en var stöðv­uð. Hún ætl­aði að draga mig út af fund­in­um. Þetta var ömur­leg­t.“

Segir hún að þessar upp­á­komur hafi haft mikil áhrif á líðan hennar og vissi hún ekki hvernig hún ætti að bregð­ast við þar sem trún­aður ríkir um það sem ger­ist á lok­uðum fundum borg­ar­ráðs. „Hálf­part­inn batt ég vonir við að kjörnir full­trúar myndu bregð­ast við. Mér er annt um að rækta skyldur mínar og gæta ítrasta trún­að­ar, og það mun ég gera hér eftir sem hingað til. Ég get samt ekki annað en sagt frá þessu hér, enda getur mark­mið trún­að­ar­ins ekki verið að þagga ofbeld­is­fulla hegð­un. Sagan hefur sýnt okkur að þögnin er versti óvinur ofbeld­is.“

COVID-19 far­ald­ur­inn skall síðan á með þunga í mars 2020 og hættu þá stað­fundir í ráð­hús­inu. Helga Björg segir að margir hafi orðið því fegn­ir. „Þá sneri borg­ar­full­trú­inn alltaf baki í mig og bók­aði á hverjum ein­asta fundi eitt­hvað rugl um mig. Ég reyndi að harka þetta af mér og ég hugs­aði með mér að hún gæti ekki hagað sér svona að eilífu,“ segir hún og bætir því við að hún hafi ekki verið sú eina sem hafi orðið fyrir áreiti frá Vig­dísi. En mest hafi þetta beinst að henn­i. 

Eftir sum­ar­frí 2020 þá segir Helga Björg að hún hafi frestað því ítrekað að koma aftur til starfa. „Ég fór í stutt veik­inda­leyfi vegna þess að ég var hætt að sofa og orðin lang­þreytt á því að eiga stöðugt yfir höfði mér ofsóknir þess­arar konu og var eig­in­lega bara sárlasin og treysti mér ekki til baka í vinnu. Ég ákvað því að sækja um náms­leyfi sam­hliða vinnu að jafn­launa­mál­u­m.“ Nú er hún sem áður segir komin með nýjar skyldur hjá Reykja­vík­ur­borg og seg­ist hún hafa óskað eftir þessum flutn­ingi vegna fram­komu Vig­dís­ar. Þó sé hún einnig spennt fyrir því að takast á við önnur verk­efni og finnst henni frá­bært að fá tæki­færi til að vinna að því að útrýma launa­mun kynj­anna hjá borg­inn­i. 

„Lífið er bara miklu betra þegar ég er ekki stöðugt að fást við ofsóknir af hálfu Vig­dísar Hauks­dótt­ur. Það er bara þannig.“ 

Þá sneri borgarfulltrúinn alltaf baki í mig og bókaði á hverjum einasta fundi eitthvað rugl um mig. Ég reyndi að harka þetta af mér og ég hugsaði með mér að hún gæti ekki hagað sér svona að eilífu.
Ekki hefur virkað vel fyrir Helgu Björgu að sitja þegjandi undir „ruglinu“ og er hún búin að fá nóg af því.
Bára Huld Beck

Hvernig líður þér núna eftir þessa ákvörð­un, að söðla um og breyta til?

„Mér líður bara mjög vel, en auð­vitað er streita í mér. Ég veit ekk­ert hvað kemur næst. Ég geri mér enga grein fyrir því hvort þetta sé búið og ég á alltaf von á ein­hverju þó ég voni nú að þessu fari að linna. En ég tók þá ákvörðun að hér eftir mun ég svara fyrir mig ef mér finnst ég þurfa. Það hefur ekki virkað vel fyrir mig að sitja þegj­andi undir rugl­inu og ég er búin að fá nóg af því og það hefur ekki hjálpað mér,“ segir Helga Björg. „Ef eitt­hvað er afvega­leitt þá bara kem ég með hina hlið­ina. Það er eina leið­in.“

Tvö ár liðu áður en hún ákvað að svara og láta rödd sína heyr­ast í sínum eigin málum opin­ber­lega og seg­ist hún hafa fundið þegar hún tók ákvörðun um að tala að henni hafi liðið bet­ur. „Að fá að verja sig og koma fram með sín sjón­ar­mið. Það er eitt­hvað við það – styrkj­and­i.“

Fann fyrir skömm – en ekki lengur

Það tók Helgu Björgu tíma að venj­ast því að almenn­ings­á­litið á henni væri slæmt, að talað væri um hana sem hálf­gert skrímsli. „Það var auð­vitað ömur­legt fyrir börnin mín og fólkið sem stendur mér næst og þykir vænt um mig að horfa upp á þetta. En þetta truflar mig ekki lengur og fjöl­skyldan er komin með skráp líka. En þetta var mjög erfitt fyrst. Ég fann fyrir skömm og van­mætti en það er ekki lengur vanda­mál.“

Er ein­hvern lær­dóm hægt að draga af þessu öllu sam­an?

„Já, ég vona það. Ég vona að þessi skýrsla sem liggur fyrir skili sér í ein­hverjum aðgerð­um. Svo vona ég líka að við verðum gagn­rýnni á það þegar kjörnir full­trúar fara svona í starfs­fólk. Að gripið verði til aðgerða á vett­vangi stjórn­mál­anna og að stétt­ar­fé­lögin skoði þessi mál enda varða þau starfs­um­hverfi starfs­fólks.“

Sem stjórn­andi er Helga Björg ekki í neinu stétt­ar­fé­lagi sem gerir það að verkum að hún stóð ein í gegnum þetta allt sam­an. Þar sem málið er flókið hefur hún þurft að leita lög­fræði­að­stoðar sem hún hefur staðið straum af sjálf. Hún segir að því fylgi mikið óör­yggi að vera ekki í stétt­ar­fé­lagi og hvetur stjórn­endur sem eru utan stétt­ar­fé­laga til að sækj­ast eftir rétt­indum til að vera í stétt­ar­fé­lagi.

„Borg­ar­full­trúi Mið­flokks­ins hefur náð ágætis tökum á þeirri aðferða­fræði að setja fram stað­lausar full­yrð­ingar og end­ur­taka þær nógu oft til að ljá þeim sann­leiksáru. Sú nálgun minnir óneit­an­lega á aðferðir kollega hennar úti í heimi þar sem öllum brögðum er beitt í þeim póli­tíska til­gangi að skapa van­traust og grafa undan stjórn­kerf­um,“ segir hún.

Mik­il­vægt sé að horfa á nálgun stjórn­mála­fólks sem beitir þess­ari aðferða­fræði í gagn­rýnu ljósi hér á landi sem ann­ars staðar og enn mik­il­væg­ara að frétta­flutn­ingur sé vand­aður og byggi á stað­reynd­um. „Ann­ars er hætt við að það skap­ist svig­rúm til að flæma fólk úr starfi í póli­tískum til­gangi sem grefur undan því að opin­berar stofn­anir geti sinnt sínum verk­efnum og veikir að lokum lýð­ræð­ið,“ segir hún.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiViðtal