Ef vægi atkvæða á landsvísu hefði verið jafnt á milli flokka í kosningunum í gær hefði Sjálfstæðisflokkurinn fengið 17 þingmenn og Framsóknarflokkurinn 12. Svo var ekki og niðurstaðan er sú að Framsóknarflokkurinn fær 13 þingmenn og Sjálfstæðisflokkurinn einungis 16.
Þorkell Helgason stærðfræðingur, sem hefur ásamt fleirum ítrekað vakið máls á þessari skekkju sem hefur komið fram í kosningakerfinu í undanförnum kosningum, gerði þetta að umtalsefni í færslu á Facebook fyrr í dag og benti á að Framsóknarflokkurinn væri nú að fá einn aukamann sökum þess að jöfnunarsætin, sem eru níu talsins í kjördæmunum sex, eru of fá miðað við kjördæmasætin.
Árin 2013 og 2017 fékk Framsókn einnig einu þingsæti of mikið miðað við það sem landsfylgi hans stóð undir.
Sjálfstæðisflokkurinn, sem nú tapar á þessari skekkju, fékk aukamann árið 2016.
Jöfnuður á milli flokka hvað atkvæðavægi varðar hefur því ekki náðst í fernum alþingiskosningum í röð, en ástæðan fyrir þessu er sú að kjördæmissæti eru of mörg og jöfnunarsætin eru of fá til þess að þau nái að gera það sem ætlast er til af þeim, að jafna vægi atkvæða eftir flokkum.
Afar skýrt skýrt dæmi um þennan ágalla kerfisins komu fram í kosningunum árið 2017, er Samfylkingin fékk einum þingmanni færri en Framsóknarflokkurinn þrátt fyrir að fá fleiri atkvæði á landsvísu.
„Eina varanlega lausnin á þessu er að hafa skilin á milli kjördæmis- og jöfnunarsæta fljótandi; sem sagt að þau séu í raun öll ígildi jöfnunarsæta. Þetta og margt annað þarf að lagfæra í gildandi kosningalögum!“ skrifaði Þorkell í færslu sinni um málið.
Stjórnmálafræðiprófessor ítrekað gagnrýnt aðgerðaleysi þingsins
Ólafur Þ. Harðarson prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands er annar sem hefur ítrekað gagnrýnt að stjórnmálamenn grípi ekki til ráðstafana til að jafna vægi atkvæða eftir flokkum á landsvísu, þrátt fyrir að skekkjan hafi sýnt sig í fleiri kosningum í röð.
Hann sagði fyrr á árinu að það væri „ekki boðlegt“ ef raunin yrði sú að ekki tækist að jafna vægið fjórðu kosningarnar í röð og hefur talað mikið um málið er hann hefur verið kallaður til sem álitsgjafi í aðdraganda kosninga núna. Þegar skoðanakannanir gerðu ráð fyrir því að Sósíalistaflokkurinn næði inn þingmönnum og flokkar á þingi yrðu níu talsins, var útlit fyrir að jöfnunarmannakerfið myndi hreinlega springa.
Þingið hafði kost á því að grípa til breytinga hvað þetta varðar fyrr á þessu ári, en einungis einfaldan þingmeirihluta þarf til þess að breyta fjölda jöfnunarþingsæta. Það var ekki gert.
Málið var til nokkurrar umræðu í vor er verið var að ræða breytingar á kosningalögum, en þá náðist engin samstaða á þingi um að fjölga jöfnunarþingsætum til þess að laga misvægi atkvæða eftir flokkum.