Sameiginlegt fylgi stjórnarflokkanna þriggja er nánast það sama nú og það var fyrir mánuði, eða 45,8 prósent, samkvæmt nýjasta Þjóðarpúlsi Gallup. Sjálfstæðisflokkurinn er áfram sem áður stærsti flokkur landsins með 21,8 prósent fylgi, sem er 2,6 prósentustigi minna en flokkurinn fékk í síðustu kosningum.
Framsóknarflokkurinn mælist með 15,6 prósent fylgi, sem er aðeins meira en fyrir mánuði, en með því minnsta sem hann hefur mælst með í könnunum fyrirtækisins síðan fyrir kosningarnar í fyrrahaust. Flokkurinn er sem stendur 2,1 prósentustigi undir kjörfylgi.
Vinstri græn eru að venju með minnst fylgi stjórnarflokkanna og mælast með 8,4 prósent stuðning. Flokkurinn mældist með 7,2 prósent í júní sem var lægsta fylgi sem hann hafði nokkru sinni mælst með í könnun Gallup. Vinstri græn eru enn töluvert frá kjörfylgi, sem var 12,6 prósent. Enginn flokkur á þingi hefur tapað jafn miklu fylgi það sem af er kjörtímabili.
Allir stjórnarflokkarnir þrír hafa því tapað fylgi á kjörtímabilinu og samtals mælast þeir nú með 8,5 prósentustigum minna fylgi en þeir fengu þegar talið var upp úr kjörkössunum í september í fyrra.
Samfylkingin ekki stærri í lengri tíma
Samfylkingin mælist nú þriðji stærstu flokkur landsins, með nánast sama fylgi og sá næst stærsti, Framsókn, eða 15,5 prósent fylgi. Flokkurinn hefur ekki mælst stærri síðan í janúar 2021. Samfylkingin mun kjósa nýjan formann í október og í síðasta mánuði tilkynnti Kristrún Frostadóttir að hún sækist eftir því embætti. Enginn annar hefur lýst yfir framboði.
Samanlagt mælist fylgi þessara þriggja flokka 38,7 prósent, eða 11,7 prósentustigum meira en þeir fengu síðast þegar var kosið. Í ljósi þess að fylgisaukning Pírata, Samfylkingar og Viðreisnar er meiri en fylgistap stjórnarflokkanna, sem er 8,5 prósent, er ljóst að þeir hafa sótt fylgi til annarra stjórnarandstöðuflokka að auki.
Sósíalistar yfir fimm prósentum annan mánuðinn í röð
Flokkur fólksins mælist nú með 5,6 prósent fylgi, sem er einu prósentustigi minna en fyrir mánuði og töluvert undir þeim 8,8 prósentustigum sem flokkurinn fékk í síðustu kosningum. Miðflokkurinn hefur ekki mælst með yfir fimm prósent fylgi það sem af er kjörtímabili og það varð engin breyting þar á í síðasta mánuði. Þá sögðust alls 4,6 prósent styðja flokkinn sem er tæpu prósentustigi undir kjörfylgi.
Sósíalistaflokkur Íslands bauð fram til þings í fyrsta sinn haustið 2021, en náði ekki inn. Hann fékk 4,1 prósent atkvæða. Fram að júlímánuði hafði flokkurinn einungis einu sinni mælst með meira en fimm prósent fylgi en hann bætir ágætlega við sig þá og mældist með 5,3 prósent. Flokkurinn er á svipuðum slóðum nú með 5,1 prósent fylgi.