Sjálfstæðisflokkurinn er áfram sem áður stærsti flokkur landsins samkvæmt nýrri könnun Maskínu á fylgi stjórnmálaflokka. Hann nýtur stuðnings 20,9 prósent landsmanna, sem er 3,5 prósentustigum minna en fylgi flokksins mældist í júlí. Hann er sem stendur vel undir kjörfylgi en Sjálfstæðisflokkurinn fékk 24,4 prósent atkvæða í kosningunum í fyrrahaust.
Framsóknarflokkurinn mælist nú nánast jafn stór og Sjálfstæðisflokkur, en 19,6 prósent aðspurðra sögðust ætla að kjósa hann ef kosið yrði nú. Framsókn bætir við sig 1,6 prósentustigi milli mánaða og fylgi flokksins hefur ekki mælst meira í könnunum Maskínu, sem teygja sig aftur til desember 2020. Framsókn er að mælast með 2,3 prósentustigum meira fylgi en flokkurinn fékk í kosningunum í september 2021.
Ríkisstjórnarflokkarnir hafa því samtals tapað 6,3 prósentustigum frá síðustu kosningum þegar þeir fengu 54,3 prósent atkvæða. Þeir njóta því stuðnings minnihluta kjósenda sem stendur.
Sósíalistar næstum jafn stórir og Vinstri græn
Ein mestu tíðindin í könnun Maskínu eru þau að Sósíalistaflokkur Íslands, sem á ekki þingmann eins og er, mælist nánast jafn stór og Vinstri græn, sá flokkur sem stendur honum næst á hinum hefðbundna vinstri-hægri mælikvarða. Alls segjast 7,3 prósent kjósenda að þau myndu kjósa Sósíalistaflokkinn ef kosið yrði í dag.
Píratar mælast þriðji stærsti flokkur landsins með 13,9 prósent fylgi og bæta við sig rúmu prósentustigi milli mánaða. Skammt á eftir kemur Samfylkingin, sem mun kjósa nýjan formann í haust, með 12,9 prósent sem er tveimur prósentustigum meira en í júlí. Viðreisn hressist líka milli mánaða og mælist með 8,9 prósent fylgi, sem er 0,6 prósentustigum meira en flokkurinn mældist með í síðasta mánuði. Þessir þrír flokkar: Píratar, Samfylking og Viðreisn, eru allir að mælast með fylgi umfram kjörfylgi. Þeir fengu samtals 26,8 prósent í kosningunum í fyrrahaust en mælast nú með samtals með 35,7 prósent stuðning. Fylgi Pírata og Samfylkingarinnar nú er jafn mikil og allra flokkanna þriggja var þá.
Tveir flokkar undir fimm prósentum
Flokkur fólksins mælist með undir fimm prósent fylgi í fyrsta sinn á þessu ári hjá Maskínu í nýjustu könnuninni. Þar segir að fylgið sé 4,6 prósent, sem er 2,5 prósentustigi minna en í júlí. Það er nánast sama fylgi og Miðflokkurinn mælist með, en 4,5 prósent aðspurðra sögðust styðja þann flokk í könnuninni, sem er 1,5 prósentustigi minna en í fyrravor.
Könnunin fór fram dagana 12. til 17. ágúst 2022 og 890 svarendur tóku afstöðu til flokks.