Efnaminni fjölskyldur í Bretlandi gætu þurft að greiða um 47 prósent af ráðstöfunartekjum sínum í hita og rafmagn miðað við þær gríðarmiklu verðhækkanir sem orðið hafa að undanförnu. Að auki hefur ýmiss önnur nauðsynjavara hækkað í verði, m.a. matvæli. Erfiður vetur er framundan hjá mörgum, jafnvel þótt stjórnvöld grípi með einhverjum hætti inn í, líkt og þau áforma. Nokkur biðstaða er í þeim efnum þar sem nýr forsætisráðherra verður valinn á allra næstu dögum.
Samtök sem gefa mat segja aðsókn í þjónustu þeirra sjaldan hafa verið meiri og að með þessu áframhaldi geti þau engan veginn staðið undir eftirspurninni. Talsmenn þeirra óttast að fátækt eigi eftir að aukast mikið á næstu vikum og mánuðum. Flest samtakanna segja að ef áfram haldi sem horfi muni þau þurfa að vísa fólki frá á komandi vikum og minnka þá skammta sem hverjum og einum er úthlutað. Það er ekki aðeins eftirspurnin sem hefur aukist heldur hefur framboð á matvælum, sem fyrirtæki, stofnanir og einstaklingar gefa, dregist saman að undanförnu.
Matvælaverð hefur hækkað nokkuð skarpt í Bretlandi að undanförnu. Ferskvara hefur hækkað um 10,5 prósent á einu ári, sem er mesta verðhækkun síðan hrunárið 2008. Og áfram er spáð verðhækkunum og meiri verðbólgu, jafnvel þeirri mestu frá árinu 1975.
Stríðið í Úkraínu er helsta ástæða þess að vöruverð, og ekki síst orkuverð, hefur hækkað síðustu vikur og mánuði. Evrópubúar eru mjög háðir gasi frá Rússlandi og bæði hefur hægt á streymi þess til álfunnar og verð á því hækkað skarpt. Rafmagnsreikningurinn í Bretlandi er tólf sinnum hærri nú en áður en orkukrísan skall á. Og húsnæðislánin hafa líka hækkað vegna verðbólgunnar.
Mun Pútín stela jólunum?
Orkukreppa eins og sú sem vofir yfir bitnar, eins og aðrar kreppur, verst á fólki sem hefur þegar lítið á milli handanna. Í þeim hópi eru m.a. sjúkir og aldraðir, þeir hinnir sömu og eiga einna mest undir því komið að geta kynt híbýli sín eftir þörfum yfir kalda vetrarmánuðina.
Eftir tvö ár af einangrun og skringilegheitum eftir heimsfaraldur COVID-19 vonuðust allri eftir betri tíð. En nú er útlit fyrir að kveikt verði á færri jólaljósum til að spara rafmagn og nokkur óvissa er um umfang jólavertíðarinnar í verslunum. Kannanir sýna að margir Bretar eru þegar farnir að draga úr útgjöldum sínum.
Allir bíða nú eftir svari við stóru spurningunni: Hvert verður útspil stjórnvalda til að létta undir með fólki, sérstaklega því efnaminna. Ljóst er að án inngrips þeirra mun orkukostnaður halda áfram að hækka enda engin lausn á stríðinu í Úkraínu í sjónmáli. Og á meðan það geisar þykir ljóst að verð á gasi mun halda áfram að hækka – verði það rússneska í boði yfir höfuð.
Á því sögulega heita sumri sem nú er að baki í Evrópu voru tæki til loftkælingar keyrð sem aldrei fyrr. Eftirspurn eftir jarðefnaeldsneyti á veturna hefur aukist ár frá ári og gasverð hefur haft tilhneigingu til að hækka í verði á þeim árstíma. Ekki er útlit fyrir að breyting verði þar á. Skýringin er sú að kynding er oftar en ekki knúin með slíkum orkugjöfum í Bretlandi og víðar í Evrópu.
Um 40 prósent af öllu gasi sem notað er í Evrópu er flutt inn frá Rússlandi. Sömuleiðis er um 46 prósent af kolum sem notuð eru í álfunni flutt inn þaðan og 27 prósent af allri olíu. Verulega hefur dregið úr gasflæðinu frá Rússlandi til Evrópuríkja síðustu mánuði. En þeim mun meira af því er nú flutt til Kína. Gasflutningar með gasleiðslu frá Síberíu til Kína hafa aukist um 61 prósent frá því í fyrra.