Langþreyttir á efnahagsástandinu, matar- og lyfjaskorti og stöðugum verðhækkunum stormuðu þúsundir Kúbverja út á götur um helgina til mótmæla. Slíkt er ekki óalgengt í ýmsum ríkjum heims þegar illa hefur árað um hríð en Kúbverjar eru nokkuð sér á báti, enda eiga þeir sem gagnrýna stjórnvöld ekki von á góðu, og þetta er í fyrsta sinn í fleiri áratugi sem slík fjöldamótmæli fara fram á eyjunni í Karabíska hafinu. „Við erum ekki hrædd. Við viljum breytingar og við erum búin að fá nóg af einræðinu,“ sagði einn mótmælandi í samtali við fréttamann BBC.
Tugir hafa verið handteknir síðustu sólarhringa og forseti Kúbu hefur hvatt stuðningsmenn sína til að „berjast gegn“ mótmælendum. Öryggissveitir forsetans blönduðu sér að sögn Reuters-fréttastofunnar inn í hóp mótmælenda. Meðlimir þeirra klæddir venjulegum fötum, ekki hermannaklæðum. Svo létu þeir til skarar skríða. Létu höggin dynja á fólki og beittu piparúða til að sundra hópum.
„Það er enginn matur, það eru engin lyf. Það er ekkert frelsi. Þeir leyfa okkur ekki að lifa lífinu,“ hefur BBC eftir manni sem tók þátt í mótmælunum á sunnudag.
„Frelsi!“
„Niður með einræðið!“
„Niður með kommúnismann!“
Þetta var meðal þess sem hrópað var í mótmælunum sem eru ekki bundin við höfuðborgina Havana heldur fara einnig fram á öðrum stöðum á eyjunni. Þau hófust í borginni San Antonio, suðvestur af höfuðborginni, en hafa síðan breiðst út um allt landið.
Það er ekki einfalt mál að flytja fréttir frá Kúbu. Sambandið við umheiminn er ekki eins og það sem Vesturlandabúar eiga að venjast. Netsamband er á mörgum stöðum fágætt fyrirbæri og oft stopult. Og AP-fréttastofan segir að í mótmælum síðustu daga hafi það að stórum hluta einfaldlega legið niðri. Í upphafi þeirra var mótmælum streymt á samfélagsmiðlum. Stjórnvöld hafa því ekki getað stýrt upplýsingaflæðinu eftir sínu höfði.
Forsetinn Miguel Díaz-Canel ávarpaði landa sína í sjónvarpi og skellti skuldinni á Bandaríkin. Hann sagði að viðskiptabönn, sem hafa verið við lýði allt frá því snemma á sjöunda áratugnum, væru að „kæfa efnahagslífið“.
Hann fylgdi þessu eftir með því að fullyrða að mótmælendurnir væru málaliðar sem Bandaríkin hefðu ráðið til að sundra kúbönsku þjóðinni. Hann hvatti svo stuðningsmenn sína til að fara út á götur og „verja byltinguna“. Í kjölfar byltingarinnar, sem gerð var árið 1959, tók kommúnistastjórn við völdum og hefur verið við lýði allar götur síðan. „Skipunin um að berjast hefur verið gefin! Út á götur byltingarmenn!“
Óttast er að þetta herhóp forsetans leiði af sér átök. Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, segist standa með Kúbverjum og hvetur stjórnvöld á eyjunni til að hlusta á íbúana. „Kúbverjar eru af hugrekki að krefjast grunnréttinda.“
Efnahagur Kúbu var brothættur fyrir COVID-19. Hann byggir að stórum hluta orðið á ferðaþjónustu sem, líkt og annars staðar í heiminum, hefur orðið fyrir gríðarlegu höggi. Sykur er helsta útflutningsvara Kúbu og uppskeran í ár var langt undir væntingum. Ríkisfyrirtækið Azcuba, sem er með einokunarverslun á sykri, segir skýringarnar felast í eldsneytisskorti og biluðum vinnuvélum. Þá hefur verið rakt í veðri sem einnig hefur átt sinn þátt í uppskerubrestinum.
Þetta hefur orðið til þess, segir í fréttaskýringu BBC um ástandið, að gjaldeyrisvaraforði landsins er á þrotum sem aftur hefur leitt af sér skort á innfluttum matvælum, lyfjum og fleiru.