Ekki verður gerð breyting á aðalskipulagi Norðurþings vegna áformaðs vindorkuvers á Melrakkasléttu fyrr en umhverfismati þess verður að fullu lokið. Þetta var samþykkt samhljóða á síðasta fundi sveitarstjórnar. „Það voru allir sammála um að ef meirihluti íbúa á svæðinu vildi bíða og fá umhverfismat myndum við gera það,“ segir Kolbrún Ada Gunnarsdóttir, fulltrúi V-lista (lista VG og óháðra) og forseti sveitarstjórnar Norðurþings, í samtali við Kjarnann. Sú afstaða hafi komið fram á íbúafundi hverfisráðs Kópaskers nýverið.
Ada, eins og hún er oftast kölluð, er sjálf þeirrar skoðunar að vindorkuver á Melrakkasléttu sé ekki góður kostur fyrir svæðið. Frekar ætti að berjast fyrir því að styrkja innviði fyrir raforkuflutninga í sveitarfélaginu. „Mér hugnast ekki þessi staðsetning. Að setja þarna 43 vindmyllur, sem fara í einhverja 200 til 300 metra hæð, finnst mér bara galið.“ Mikilvægt sé hins vegar að íbúar hafi öll þau gögn sem þurfi til að taka afstöðu og þau muni m.a. fást er umhverfisáhrif framkvæmdarinnar verða metin.
Unnið hefur verið að hugmyndum á breytingum aðalskipulags sveitarfélagsins vegna vindorkuversins á Melrakkasléttu í nokkra mánuði. Tillaga að skipulags- og matslýsingu var kynnt um síðustu áramót og drög að tillögunni að sjálfri breytingunni svo auglýst og hún kynnt á fundi á Kópaskeri 14. júní.
Þeir sem sáu um þá kynningu voru fulltrúar framkvæmdaaðilans, Qair Iceland ehf., auk ráðgjafa frá Eflu en sú verkfræðistofa vann bæði tillögu að matsáætlun orkuversins fyrir fyrirtækið og tillögu að aðalskipulagsbreytingunni.
Samkvæmt tillögunni átti að breyta 33 ferkílómetrum lands á Melrakkasléttu úr landbúnaðarsvæði í iðnaðarsvæði svo þar yrði hægt að reisa um 40 vindmyllur sem hver yrði um 200 metrar á hæð.
Skipulagsstofnun setti sautján skilyrði
Ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsáætlun Qair Iceland vegna hins fyrirhugaða vindorkuvers, lá fyrir í byrjun júlí. Stofnunin féllst á áætlunina, sem er eitt skrefið í umhverfismatsferlinu, en með skilyrðum sem sett voru fram í sautján liðum. Bent var m.a. á að fram þurfi að fara mat á áhrifum á óbyggð víðerni þar sem hið fyrirhugaða framkvæmdasvæði einkennist af víðfeðmu flatlendi og sjáist því víða að. Þá leggur stofnunin á það sérstaka áherslu að í frummatsskýrslu, sem er næsta skref í mati á umhverfisáhrifum, verði við nálgun og framsetningu mats á áhrifum á fugla fylgt bestu starfsvenjum og að rannsóknir á þeim þurfi að standa í að minnsta kosti tvö ár.
Í öllu þessu ferli kom fram hörð gagnrýni frá ýmsum aðilum, m.a. íbúum á svæðinu. Á það var m.a. bent að í núverandi aðalskipulagi Norðurþings stendur: „Forðast skal að raska ósnortnum víðernum í Norðurþingi með því að reisa þar mannvirki eða annars gæta þess að þau valdi sem minnstu raski og sjónmengun.“
Þá stendur í sáttmála meirihluta Norðurþings 2018-2022: „Tryggja að ekki verði ráðist í verkefni innan Norðurþings sem útheimti nýja virkjunarkosti á viðkvæmum ósnortnum svæðum í Þingeyjarsýslum.“
Ada ákvað í kjölfar gagnrýninnar að leggja fram tillögu á fundi byggðarráðs Norðurþings um að fallið yrði frá breytingum á aðalskipulagi þar til umhverfismati yrði að fullu lokið. Hún hvatti einnig til þess að vilji íbúa til hins áformaða vindorkuvers yrði kannaður.
„Að breyta aðalskipulagi svæðis úr landbúnaðarlandi í iðnaðarsvæði til orkunýtingar til að rúma vindorkuver á mjög stórum skala er ekki léttvæg auglýsing eða kynning heldur stefnumarkandi ákvörðun sveitarfélags,“ skrifaði Ada m.a. í greinargerð með tillögu sinni sem tekin var fyrir í byrjun júlí. Hún benti á að fjórtán umsagnir og athugasemdir hefðu borist „og engin þeirra jákvæð“. Þá benti hún einnig á að „í besta falli“ væru áhöld um það hvernig þessar framkvæmdir ættu að nýtast sveitarfélaginu og nærsamfélaginu. „Ekkert liggur fyrir um það hvernig orkan verði nýtt og ennfremur ekkert sem tryggir að orkan verði nýtt á nærsvæðinu. Samfélagsábati er því óljós, burtséð frá umhverfisáhrifum öllum.“
Byggðarráðið frestaði afgreiðslu á tillögu Ödu þar til í ágúst en samþykkti á seinni fundi sínum í júlí að viðhorf íbúa í nágrenni hins fyrirhugaða vindorkuvers yrði kannað.
„Þegar þetta var kynnt fyrst fyrir okkur þá var alltaf talað um að þetta væri í samvinnu við landeigendur þannig að maður vildi ekki stíga á tærnar á mönnum á meðan þetta var í rannsóknarfasa,“ segir Ada við Kjarnann um forsögu málsins. Þegar hún hins vegar hafi séð allar þær neikvæðu umsagnir og athugasemdir sem bárust vegna tillögunnar og heyrt í mörgum sem voru ósáttir ákvað hún að skoða málið betur. Þá tók hún m.a. eftir því að framkvæmdaaðili var búinn að fjölga vindmyllunum úr 33 í 43. Hún lagði því fram tillögu um að fresta aðalskipulagsbreytingunni. „Því þetta er gríðarlega stór ákvörðun. Að fara að breyta aðalskipulagi án þess að vita nákvæmlega hvaða áhrif það myndi hafa á svæðið.“
Hún spurðist fyrir um hvort að frestun aðalskipulagsbreytingar þar til umhverfismati yrði lokið myndi hægja verulega á öllu ferlinu og fékk þau svör að svo væri ekki. „Þannig að ég gat ekki séð að okkur lægi svo lífið á að breyta aðalskipulagi. Því það er mjög stórt skref og ætti að mínu mati þá alltaf að vera síðasti punktur í ferli.“
Skiptar skoðanir en allir sammála um frestun breytinga
Á fundi hverfisráðs Kópaskers sem haldinn var 18. ágúst mættu margir sem búa í nágrenni hins fyrirhugaða framkvæmdasvæðis. „Þar komu fram ýmsar athugasemdir,“ segir Ada. „Það eru ekki allir á móti þessu en allir voru sammála um að það væri gott að fá fyrst niðurstöðu umhverfismats.“
Funduð þið eða þú fyrir þrýstingi frá framkvæmdaaðila að fara í þessar aðalskipulagsbreytingar áður en umhverfismatsferlinu væri lokið?
„Nei, kannski ekki hægt að segja það, ekki þannig. Það kemur náttúrulega upp þetta um að halda ferlinu gangandi. Og eðlilega vilja þeir keyra þetta allt í gegn sem hraðast af því að þetta er náttúrlega þeirra fjárfesting.“
Ada segir enga ákvörðun hafa verið tekna um að hætta við íbúakönnunina. Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings, segir í skriflegu svari til Kjarnans að eftir „afar góðan íbúafund á Kópaskeri“ reikni hann með að aflað verði frekari upplýsinga um hina fyrirhuguð framkvæmd áður en könnunin fari fram.
„Ég held að margir eigi erfitt með að taka afstöðu án þess að hafa frekari gögn í höndunum,“ segir Ada. „Ég myndi segja að þegar umhverfismati lýkur sé hægt að halda kynningu, svara spurningum og svo væri svo hægt að kanna viðhorfið, þá yrði fólk komið með gögn í hendurnar til að mynda sér skoðun.“
Ada tók fyrr á árinu við starfi skólastjóra Borgarhólsskóla sem er ein stærsta stofnun sveitarfélagsins Norðurþings. Hún tók því þá ákvörðun að hætta í sveitarstjórn, þó að hún muni áfram sitja í nefndum fyrir hönd V-lista. Aldey Traustadóttir kemur inn í sveitarstjórn í hennar stað og verður forseti hennar.