Lestur Fréttablaðsins mælist nú 28,4 prósent í heild. Hann fór í fyrsta sinn undir 30 prósent í janúar á þessu ári og hefur haldið áfram að dala í hverjum mánuði síðan þá. Alls hefur lesturinn helmingast á einum áratug.
Blaðið var fyrst gefið út árið 2001 og náði fljótt mikilli fótfestu á dagblaðamarkaði með tilheyrandi sneið af auglýsingatekjukökunni. Vorið 2007 sögðust til að mynda 65,2 prósent landsmanna lesa Fréttablaðið.
Undir lok árs 2015 fór lestur blaðsins í fyrsta sinn undir 50 prósent og tæpum þremur árum siðar fór hann undir 40 prósent.
Mestur er samdrátturinn hjá yngri lesendum. Hjá aldurshópnum 18 til 49 ára mælist hann nú 18,5 prósent eftir að hafa farið undir 20 prósent í fyrsta sinn í apríl síðastliðnum. Fyrir tólf árum lásu 64 prósent landsmanna í þessum aldurshópi Fréttablaðið. Lesturinn í dag er einungis 29 prósent af því sem hann var hjá fullorðnum undir fimmtugu vorið 2010.
Þetta mál lesa út úr nýjum tölum Gallup um lestur prentmiðla sem voru birtar í liðinni viku.
Útgáfudögum Fréttablaðsins var fækkað úr sex í fimm á viku á árinu 2020 þegar hætt var með mánudagsútgáfu blaðsins. Auk þess hefur dreifing fríblaðsins dregist saman úr 80 í 75 þúsund eintök á dag.
Torg er í eigu tveggja félaga, Hofgarða ehf. og HFB-77 ehf. Eigandi fyrrnefnda félagsins er fjárfestirinn Helgi Magnússon og hann á 82 prósent í því síðarnefnda. Helgi er auk þess stjórnarformaður Torgs. Aðrir eigendur þess eru Sigurður Arngrímsson, fyrrverandi aðaleigandi Hringbrautar og viðskiptafélagi Helga til margra ára, Jón G. Þórisson, fyrrverandi ritstjóri Fréttablaðsins, og Guðmundur Örn Jóhannsson, fyrrverandi sjónvarpsstjóri Hringbrautar og nú framkvæmdastjóri sölu, markaðsmála og dagskrárgerðar hjá Torgi. Hlutur annarra en Helga er hverfandi.
Hópurinn keypti Torg í tveimur skrefum á árinu 2019. Kaupverðið var trúnaðarmál en í ársreikningi HFB-77 ehf. fyrir árið 2019 má sjá að það félag keypti hlutabréf fyrir 592,5 milljónir króna á því ári. Torg var og er eina þekkta eign félagsins.
Tapað rúmum milljarði á þremur árum
Hlutafé í Torgi var svo aukið um 600 milljónir króna í lok árs 2020 og aftur um 300 milljónir króna um síðustu áramót. Með nýju hlutafjáraukningunni er ljóst að settir hafa verið 1,5 milljarðar króna í kaup á Torgi og hlutafjáraukningar frá því að Helgi og samstarfsmenn hans komu að rekstrinum fyrir þremur árum síðan.
Torg hefur ekki skilað ársreikningi fyrir árið 2021 til ársreikningaskráar en í mars var birt frétt í Fréttablaðinu þar sem sagði að félagið hefði tapað 240 milljónum króna í fyrra. Árið áður var endanlegt tap Torgs 599 milljónir króna og því tapaði það samtals 839 milljónum króna á tveimur árum. Þá er búið að gera ráð fyrir 146 milljónum króna sem Torg fékk í rekstrarstyrk úr ríkissjóði á árunum 2020 og 2021.
Þegar endanlegu tapi ársins 2019 er bætt við nemur tapið á þriggja ára tímabili rúmum milljarði króna.
Stöðugildum hjá Torgi fækkaði um tíu um síðustu mánaðamót. Þá var fimm manns sagt upp og ekki verður ráðið í stað fimm annarra sem sögðu starfi sínu lausu. Sigmundur Ernir Rúnarsson, ritstjóri Fréttablaðsins, sagði við Morgunblaðið að aðgerðirnar fælu í sér samlegðaráhrif og ættu að skila sér í hagræðingu í rekstri blaðsins.
Kostar 100 þúsund krónur á ári
Hitt dagblaðið á Íslandi, Morgunblaðið, er selt í áskrift. Almenn áskrift kostar 8.383 krónur á mánuði, eða 100.596 krónur á ári. Upplýsingar um fjölda áskrifenda eru almennt ekki aðgengilegar en á lestrartölum sem Gallup safnar saman má ljóst vera að þeim hefur fækkað gríðarlega á undanförnum árum.
Lestur blaðsins hjá öllum aldurshópum mælist nú 17,7 prósent, og hefur aldrei mælst minni. Rúmt ár er síðan að lesturinn fór í fyrsta sinn undir 20 prósent. Vorið 2009, þegar nýir eigendur komu að Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins, var lestur þess yfir 40 prósent.
Hjá landsmönnum á aldrinum 18 til 49 ára mælist lestur blaðsins nú 8,4 prósent en í byrjun árs 2009 lásu um þriðjungur landsmanna í þeim aldurshópi blaðið.
Kjarninn greindi frá því í síðasta mánuði að rekstrartap Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins, á síðasta ári hafi verið 113 milljónir króna. Það er lægra rekstrartap en árið áður, þegar útgáfufélagið tapaði 210 milljónum króna.
Í fyrra fékk Árvakur þó 81 milljónir króna í rekstrarstyrk úr ríkissjóði auk þess sem félagið frestaði greiðslu á staðgreiðslu launa starfsmanna og tryggingagjaldi í fyrra upp á alls 122 milljónir króna. Um er að ræða vaxtalaust lán úr ríkissjóði sem þarf að endurgreiðast fyrir mitt ár 2026. Greiðslur eiga að hefjast síðar á þessu ár.
Í frétt sem birtist í Morgunblaðinu í byrjun maí var greint frá því að hefði skilað 110 milljóna króna hagnaði í fyrra. Í þeirri frétt var ekki minnst á vaxtalausa lántöku hjá ríkissjóði.
Í ársreikningi Árvakur sést hvernig sá hagnaður myndast, en hann er ekki tilkominn vegna reglulegs reksturs, af honum er áfram sem áður tap.
Hlutafjáraukning í byrjun árs
Kjarninn greindi frá því í mars að hlutafé í Morgunblaðssamstæðunni hafi verið aukið um 100 milljónir króna þann 31. janúar síðastliðinn. Aðilar tengdir Ísfélagi Vestmannaeyja og félag í eigu Kaupfélags Skagfirðinga greiddu stærstan hluta hennar.
Þetta var í þriðja sinn frá árinu 2019 sem nýtt hlutafé er sett inn í rekstur fjölmiðlasamsteypunnar til að mæta taprekstri hennar. Í byrjun árs 2019 var hlutaféð aukið um 200 milljónir króna. Kaupfélag Skagfirðinga og félög tengd Ísfélagi Vestmannaeyja lögðu til 80 prósent þeirrar aukningar. Sumarið 2020 var hlutaféð aukið um 300 milljónir króna og kom allt féð frá þeim eigendahópi sem var þegar til staðar. Að viðbættri þeirri hlutafjáraukningu sem ráðist var í í upphafi árs hefur móðurfélagi Árvakurs því verið lagt til 600 milljónir króna á þremur árum.
Frá því að nýir eigendur tóku við rekstri Árvakurs í febrúar 2009 undir hatti Þórsmerkur og til loka árs 2020 hefur útgáfufélagið tapað yfir 2,5 milljörðum króna. Eigendahópurinn, sem hefur tekið einhverjum breytingum á tímabilinu, hefur nú lagt Árvakri til samtals tvo milljarða króna í nýtt hlutafé.