Tekjumissir Skattsins vegna þess að aðgengi að ársreikningum félaga varð gjaldfrjálst um síðustu áramót er áætlað 54,5 milljónir króna á ári. Þetta kemur fram í svari atvinnuvegaráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans um málið en það var rætt á ríkisstjórnarfundi í gærmorgun þar sem Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ráðherra málaflokksins, gerði grein fyrir tekjumissinum. Hvernig þessu tekjutapi verður mætt er nú til skoðunar á milli ráðuneyta.
Í febrúar í fyrra voru kynnt drög að frumvarpi í samráðsgátt stjórnvalda sem í fólst meðal annars að ársreikningar og samstæðureikningar allra félaga sem skila ársreikningi sínum til ársreikningaskrár yrðu aðgengilegir almenningi og fjölmiðlum að kostnaðarlausu á opinberu vefsvæði. Frumvarpið var svo samþykkt 29. júní 2020. Markmið breytinganna var að auka traust á og tryggja gagnsæi í upplýsingagjöf fyrirtækja sem almennt má telja að séu þjóðhagslega mikilvæg og varða hagsmuni almennings. Einnig tengdist frumvarpið aðgerðum á sviði kennitöluflakks.
Töldu gjaldfrjálsan aðgang kippa fótunum undan rekstrinum
Frumvarp ríkisstjórnarinnar frá því í fyrra var ekki það fyrsta sem lagt hefur verið fram í þeim tilgangi að veita gjaldfrjálst aðgengi að ársreikningum. Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, flutti frumvarp um afnám gjaldtöku fyrir aðgang að ársreikningum í september árið 2017 og svo aftur í desember sama ár. Það frumvarp fór í fyrstu umræðu í efnahags- og viðskiptanefnd sem kallaði eftir umsögnum um málið, en rataði svo aldrei þaðan.
Creditinfo mótmælti þá frumvarpinu í umsögn og sagði að upplýsingar úr ársreikningum væru fyrst og fremst nýttar af atvinnulífinu. Því væri eðlilegt að fólk og fyrirtæki greiði fyrir þær í stað þess að „almannafé verði nýtt til að standa straum af kostnaði við rekstur skránna.“
Embætti ríkisskattstjóra, sem nú er hluti af Skattinum, skrifaði einnig umsögn um frumvarpið og sagði það kippa fótum undan rekstri þess. Enn fremur líkti embættið afnámi gjaldtökunnar við það að gera aðgang að söfnum landsins ókeypis.
Ríkisskattstjóri sagði í umsögn sinni að ef fyrirhugaðar lagabreytingar næðu fram að ganga þá væri æskilegt að veitt yrði heimild til að setja reglugerð um afmörkun þeirra upplýsinga sem veita ætti gjaldfrjálst aðgengi að og framkvæmd hins rafræna aðgengis. „Hvort heldur átt er við einstakar uppflettingar almennings eða aðgang fyrirtækja að gagnagrunnum eða afritun einstakra skráa vegna úrvinnslu upplýsinga.“