Fundi leiðtoga Evrópusambandsríkjanna, sem átti að fara fram í dag vegna Grikklands, hefur verið aflýst. Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB, tilkynnti þetta á Twitter-síðu sinni í morgun.
Ástæðan er sú að engin niðurstaða fékkst á löngum og ströngum fundi fjármálaráðherra evruríkjanna, evruhópsins, í gær. Fjármálaráðherrarnir hófu sinn fund á ný klukkan níu í morgun að íslenskum tíma og klukkan tvö verður fundur hjá forsætisráðherrum evruríkjanna.
Fundir evruríkjanna snúast um tillögurnar sem Grikkir hafa nú lagt fram um umbætur á gríska hagkerfinu til þess að fá þriðja neyðarlánapakkann frá lánardrottnum sínum. Ef pakkinn verður samþykktur tryggir það fjármögnun upp á 74 milljarða evra. Skiptar skoðanir eru um það meðal evruríkjanna hvort tillögur Grikkja séu trúverðugar og hvort þeim sé treystandi til þess að framfylgja þeim.
Tillögurnar fela í sér mikinn niðurskurð og ýmsar erfiðar breytingar, til dæmis á lífeyriskerfinu, auk þess sem þær fela í sér skattahækkanir. Mörgum tillagnanna sem ríkisstjórn Grikklands hefur nú lagt fram höfnuðu Grikkir í raun í þjóðaratkvæðagreiðslunni fyrir viku síðan. Meðal þess sem sum evruríkin hafa efasemdir um er samsetning tillagnanna, sem sumum þykja treysta of mikið á tekjur af skattahækkunum.
„Þetta er ennþá mjög erfitt, en við erum að vinna í þessu,“ sagði forseti evruhópsins, Jeroen Dijsselbloem, þegar fundi lauk seint í gær. „Við erum mjög langt frá samkomulagi,“ sagði Alexander Stubb, fjármálaráðherra Finnlands, við fjölmiðla áður en fundurinn hófst á ný í morgun. Hann er meðal þeirra sem eru á móti því að samþykkja tillögur Grikkja. Hópurinn sem er mótfallinn því að samþykkja tillögur Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, er leiddur af fjármálaráðherra Þýskalands, Wolfgang Schäuble, og í þeim hópi eru einnig Slóvakar.
Fjölmiðlar greina frá því að í fyrsta sinn hafi verið rætt um þann möguleika opinskátt að láta Grikkland falla, og þar með láta ríkið fara úr evrusamstarfinu.
Lúxemborg er svo meðal þeirra ríkja sem varar við þessum hugmyndum og segir að ábyrgð Þýskalands sé mjög mikil. „Það myndi verða örrlagaríkt fyrir orðspor Þýskalands í ESB og í heiminum. Ef Þýskaland vill Grikkland úr evrunni, mun það valda djúpum deilum við Frakkland. Það yrði stórslys fyrir Evrópu,“ sagði utanríkisráðherra landsins, Jean Asselborn, í morgun.
Ítalir eru á sama báti, og sagt er að Matteo Renzi forsætisráðherra muni segja þjóðverjum til syndanna, nú sé nóg komið og Evrópusambandið geti ekki blómstrað meðan aðildarríki séu niðurlægð.