Sameiginlegt fylgi ríkisstjórnarflokkanna þriggja stendur nánast í stað milli mánaða. Alls segjast 45,7 prósent þjóðarinnar styðja þá þrjá flokka eins og stendur en sameiginlegt fylgi þeirra í lok apríl mældist 45,5 prósent.
Samanlagt hafa flokkarnir þrír tapað 8,6 prósentustigum af fylgi frá síðustu kosningum.
Eini stjórnarflokkurinn sem mælist nú yfir kjörfylgi er Framsóknarflokkurinn. Fylgi hans í maí mældist 17,5 prósent, sem er rétt yfir niðurstöðu síðustu þingkosninga þar sem flokkurinn fékk 17,3 prósent atkvæða.
Þetta kemur fram í nýjum Þjóðarpúlsi Gallup.
Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkur í sögulegum lægðum
Vinstri græn mælast nú með minnsta fylgi sem flokkurinn hefur mælst með síðan vorið 2013, en 8,1 prósent kjósenda segja að þeir myndu kjósa flokkinn, sem er tveimur prósentustigum minna fylgi en mældist í apríl. Hann hefur tapað 4,5 prósentustigum af fylgi frá síðustu kosningum, eða þriðjungi þess. Þegar horft er aftur til kosninganna 2017, þegar Vinstri græn fengu 16,9 prósent atkvæða, hefur fylgið meira en helmingast.
Yfirlit Gallup yfir fylgi flokka samkvæmt könnunum fyrirtækisins nær aftur til maímánaðar 2004. Frá upphafi þess tímabils og til loka nóvembermánaðar 2012 fór fylgi Vinstri grænna aldrei undir tíu prósent og í kosningum sem flokkurinn fór í gegnum var það á bilinu 14,4 til 21,7 prósent. Á þessum árum var Steingrímur J. Sigfússon formaður flokksins, en hann var helsti forvígismaður þess að hann var stofnaður árið 1999.
Steingrímur tilkynnti um miðjan febrúar 2013 að hann ætlaði ekki að gefa kost á sér áfram sem formaður á landsfundi sem fór fram um viku síðar. Á þeim tíma mældist fylgi Vinstri grænna lægra en nokkru sinni áður í könnunum Gallup, eða 7,4 prósent.
Katrín Jakobsdóttir tók við formennsku í flokknum 23. febrúar 2013. Frá þeim tíma hafa Vinstri græn einungis einu sinni mælst með minna fylgi en nú í fullri könnun Gallup. Í vikulegri könnun í aðdraganda kosninga sem birt var 11. apríl það ár mældist fylgið 7,4 prósent. Þess ber að geta að þá voru Vinstri græn á lokametrum í ríkisstjórnarsamstarfi við Samfylkinguna sem reynst hafði afar óvinsælt þegar leið á. Einungis 34 prósent landsmanna studdu þá ríkisstjórn þegar stuðningur hana var síðast mældur. Í kosningunum í apríl 2013 fengu Vinstri græn 10,2 prósent atkvæða.
Bæði Vinstri grænum og Sjálfstæðisflokki gekk víða mun verr en þau höfðu vonast til í nýafstöðnum sveitarstjórnarkosningum. Í stærsta sveitarfélaginu, Reykjavíkurborg, fékk Sjálfstæðisflokkurinn sína verstu kosninganiðurstöðu frá upphafi og Vinstri græn fengu einungis fjögur prósent atkvæða í kjördæmum tveggja helstu leiðtoga hans, Katrínar Jakobsdóttur og Svandísar Svavarsdóttur.
Gangur hjá miðjuflokkunum í andstöðunni
Píratar mælast þriðji stærsti flokkur landsins með 14,7 prósent fylgi og skammt á hæla þeirra kemur Samfylkingin með 14,1 prósent. Það er mesta fylgi sem báðir þeir flokkar hafa mælst með það sem af er kjörtimabili.
Viðreisn mælist svo með 9,5 prósent. Allir þessir flokkar bæta við sig fylgi frá síðustu kosningum. Þá fengu þeir samtals 26,8 prósent atkvæða en mælast nú með 38,3 prósent fylgi, eða 11,5 prósentustigum meira en þeir fengu í kosningunum í fyrrahaust. Flokkarnir þrír hafa ekki mælst með jafn mikið sameiginlegt fylgi í könnun Gallup frá því í janúar 2021. Yrði þetta niðurstaða kosninga ættu þessir þrír flokkar að geta myndað öruggan meirihluta með Framsóknarflokki en sem stendur er það stjórnarmynstur í mótum í Reykjavíkurborg.
Hinir tveir flokkarnir í stjórnarandstöðu, Flokkur fólksins og Miðflokkurinn, hafa báðir tapað fylgi frá síðustu kosningum. Sá fyrrnefndi mælist nú með 6,4 prósent fylgi, sem er 2,4 prósentustigum undir kjörfylgi, og 4,3 prósent segjast styðja þann síðarnefnda, rúmu prósentustigi færri en gerðu það í september 2021. Sósíalistaflokkur Íslands mælist með fimm prósent fylgi, en hann náði ekki inn á þing í síðustu kosningum eftir að hafa fengið 4,1 prósent fylgi.