Fylgi Vinstri grænna, flokks Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra, hefur aldrei mælst minna í könnunum Gallup, sem ná aftur til maímánaðar 2004. Í nýjustu mánaðarlegu könnun fyrirtækisins, sem framkvæmd var í júnímánuði, mældist fylgið 7,2 prósent. Áður hafði það lægst farið í 7,4 prósent í febrúar 2013, í sama mánuði og Katrín tók við formennsku í flokknum af Steingrími J. Sigfússyni sem hafði verið formaður hans frá stofnun árið 1999. Í vikulegri könnun Gallup sem gerð var í apríl sama ár, í aðdraganda kosninga, mældist fylgið líka 7,4 prósent.
Vinstri græn tapa tæpu prósentustigi milli mánaða og hafa nú misst 5,4 prósent af fylgi frá kosningunum sem fram fóru í september í fyrra.
Þegar horft er aftur til kosninganna 2017, þegar Vinstri græn fengu 16,9 prósent atkvæða, hafa Vinstri græn tapað næstum tíu prósentustigum af fylgi.
Sjálfstæðisflokkurinn bætir ágætlega við sig milli mánaða og mælist með 22,8 prósent fylgi. Það er samt sem áður 1,6 prósentustigi undir kjörfylgi og yrði versta niðurstaða flokksins frá upphafi ef hún kæmi upp úr kjörkössunum.
Sjálfstæðisflokkurinn bætir við sig milli mánaða
Sjálfstæðisflokkurinn fór í fyrsta sinn í sögu sinni undir 20 prósent fylgi í könnun Gallup í aprílmánuði, þegar fylgið mældist 19,8 prósent. Fylgi hans var nánast á sama stað í lok maímánaðar þegar 20,1 prósent segjast nú styðja flokkinn.
Samanlagt mælist fylgi stjórnarflokkanna því 47,5 prósent, sem er 6,8 prósentustigum minna en þeir fengu upp úr kjörkössunum í fyrrahaust.
Stuðningur við ríkisstjórnina tekur hins vegar kipp upp á við milli mánaða og mælist 49 prósent. Ekki var úr háum söðli að falla þar sem síðasta stuðningsmæling, sem sýndi 44,3 prósent stuðning, var sú versta sem ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur nokkru sinni mælst með.
Píratar tvöfaldast en Viðreisn undir kjörfylgi
Píratar bæta vel við sig milli mánaða og njóta nú stuðnings 16,1 prósent kjósenda. Enginn flokkur hefur bætt við sig meiru fylgi frá síðustu kosningum og Píratar, en þá fengu þeir 8,6 prósent atkvæða. Síðan þá hefur fylgið næstum því tvöfaldast.
Samfylkingin er líka að mælast töluvert yfir kjörfylgi með 13,7 prósent stuðning, sem er 3,8 prósentustigum meira en sá flokkur fékk upp úr kjörkössunum í september 2021.
Samanlagt hafa þessir tveir flokkar því bætt við sig 11,3 prósentustigum af fylgi á kjörtímabilinu.
Viðreisn tapar hins vegar töluverðu fylgi milli mánaða og mælist nú með 6,7 prósent stuðning, sem er 2,8 prósentustigum minna en í maí. Flokkurinn er auk þess nokkuð undir 8,3 prósent kjörfylgi sínu.
Flokkur fólksins mælist með sjö prósent stuðning, sem er svipað og fyrir mánuði, en undir kjörfylgi.
Bæði Miðflokkurinn (4,6 prósent) og Sósíalistaflokkur Íslands (4,1 prósent) mælast undir fimm prósent markinu og því ósennilegt að þeir flokkar næðu inn manni ef kosið yrði í dag og niðurstaðan yrði í takti við könnun Gallup. Það vantar þó sáralítið upp á flokkarnir næðu inn.