Könnun Capacent Gallup staðfestir þær fylgissveiflur sem urðu í Kosningaspá Kjarnans og Baldurs Héðinssonar stærðfræðings fyrr í vikunni. RÚV greindi frá Þjóðarpúlsi Gallup í fréttum sínum í gærkvöldi og var könnunin vegin inn í Kosningaspána í morgun. Niðurstaða Þjóðarpúlsins er nánást sú sama og útkoman í Kosningaspánni 20. maí. Samfylkingin er enn stærst, Sjálfstæðisflokkurinn virðist fastur undir 25 prósentum og Björt framtíð fylgir fast á eftir.
Könnun Félagsvísindastofnunnar HÍ síðan 15. maí, sem sýndi gríðarlegar fylgissveiflur á þremur stærstu framboðunum virðist því hafa verið frávik og ekki sýna rétta mynd af þýðinu. Þar mældist Sjálfstæðisflokkurinn með aðeins 21,5 prósent fylgi og þrjá fulltrúa, Samfylkingin mun stærri og Björt framtíð með 22,2 prósent. Kosningaspáin sannaði gildi sitt þar sem áhrif könnunnar Félagasvísindastofnunnar voru vegin og niðurstöðurnar því ekki eins dramatískar.
Þróun á fylgi flokka í Reykjavík
Kosningaspá keyrð á tímabilinu 26. febrúar til 20. maí 2014.
[visualizer id="4616"]
Engar breytingar verða á fjölda fulltrúa með Þjóðarpúlsi Gallup. Samfylkingin er enn með fimm fulltrúa, Sjálfstæðisflokkur með fjóra eins og Björt framtíð. Framboð Pírata og Vinstri grænna fá einn fulltrúa hvort.
Skipting sæta er almennt mjög stöðug milli kannanna nema á sætum 15 til 20. Nú mætti nánast kasta upp á það hvort fimmtánda sætið falli með fjórða manni á lista Bjartrar framtíðar eða sjötta manni Samfylkingarinnar. Hvorn veginn sem það færi héldi meirihlutinn með níu fulltrúum af þeim 15 sem kjörnir eru. Sjálfstæðisflokkurinn er eins og stendur nokkuð öruggur með fjóra fulltrúa kjörna.
Fjöldi kjörinna fulltrúa
[visualizer id="4611"]
Tvær nýjustu kannanirnar (FHÍ 20. maí og Þjóðarpúlsinn 22. maí) vega um 80 prósent í Kosningaspánni en eldri kannanir hanga enn inni með um það bil sjö prósent vægi. Ný könnun frá Fréttablaðinu gæti dreift áhrifunum meira og gert spánna betri. Best er að geta þess að könnun Capacent Gallup var gerð á dögunum 7. til 21. maí.
Bætt við 23. maí klukkan 14:26:
Niðurstöðurnar sláandi
Viktor Orri Valgarðsson, verkefnastjóri hjá Félagsvísindastofnun, segir að niðurstöður könnunar þeirra sem birtist í Morgunblaðinu 20. maí hafi vissulega verið nokkuð sláandi en þó í ágætu samræmi við þá þróun á fylgi flokkanna sem virtist hafa átt sér stað. Könnun Þjóðarpúls Gallup sem RÚV greindi frá í gær hafi verið innan vikmarka könnunar Félagsvísindastofnunnar.
„Þetta getur líka skýrst af því að könnun þeirra var framkvæmd yfir lengra tímabil, lauk síðar og með stærra úrtaki heldur en okkar,“ segir Viktor Orri þegar eftir skýringum á muninum á síðustu tveimur könnum var leitað. „Það má sumsé vel vera að þeirra könnun (Þjóðarpúls Gallup) gefi réttari mynd af stöðunni í dag en það þýðir alls ekki að okkar könnun hafi gefið ranga mynd af þýðinu á sínum tíma.“
Félagsvísindastofnun útilokar þó ekki að fylgi Samfylkingarinnar hafi verið ofmetið í könnuninni 20. maí, þó merki um það finnist ekki þegar mismunandi svarleiðir (síma- og netsvör) séu bornar saman.
Ný könnun Félagsvísindastofnunnar á fylgi framboðanna í Reykjavík er væntanleg í næstu viku. Kosningar fara fram laugardaginn 31. maí.