Sitjandi ríkisstjórnarflokkar hafa sameiginlega dalað minna í fylgi á fyrstu tíu mánuðunum eftir kosningar en þær ríkisstjórnir sem myndaðar voru eftir kosningarnar 2013, 2016 og 2017. Sameiginlegt fylgi Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna mældist 46,1 prósent í nýjasta Þjóðarpúlsi Gallup,, eða 8,2 prósentustigum undir kjörfylgi, og hafa allir flokkarnir þrír tapað fylgi það sem af er kjörtímabilinu.
Þegar sömu flokkar mynduðu ríkisstjórn eftir kosningarnar 2017 hröpuðu vinsældir þeirra hraðar en þær hafa gert nú. Þá fengu þeir minna sameiginlegt fylgi í kosningunum sjálfum en fjórum árum síðar, alls 52,8 prósent, og höfðu misst 10,2 prósentustig tíu mánuðum síðar. Fylgið náði aftur flugi eftir að kórónuveirufaraldurinn skall á og hlutverk ríkisstjórnarinnar breyttist umtalsvert, í það að bregðast að stóru leyti við afleiðingum hans, jafnt heilbrigðislega og efnahagslega.
Fjaraði fljótt undan Panamastjórninni
Eina ríkisstjórnin eftir bankahrun sem hefur mælst með meira fylgi tíu mánuðum eftir kosningar er fyrsta hreina vinstristjórnin, skipuð Samfylkingu og Vinstri grænum, sem mældist með 55,2 prósent sameiginlegt fylgi í febrúar 2010, eða 3,7 prósentustigum meira en hún fékk í kosningunum í apríl árið áður. Það fjaraði þó hratt undan þeim stuðningi á næstu árum og þegar kosið var 2013, eftir að ríkisstjórnin náði að klára kjörtímabilið sem minnihlutastjórn, fengu stjórnarflokkarnir einungis 23,8 prósent atkvæða. Um fordæmalaust fylgistap var að ræða.
Óvinsælasta ríkisstjórn seinni tíma
Eftir langvinna stjórnarkreppu, þar sem afar illa gekk að mynda ríkisstjórn, tók stjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar, undir forsæti Bjarna Benediktssonar, við stjórnartaumunum snemma árs 2017, en kosið hafði verið í lok október árið áður. Flokkarnir þrír voru ekki með meirihluta atkvæða á bakvið sig – fengu 47,7 prósent þeirra – en fengu samt sem áður 32 af 63 þingmönnum kjörna, sem dugaði til minnsta mögulega meirihluta í þinginu. Tíu mánuðum eftir að stjórnin tók við mældist sameiginlegt fylgi þeirra flokka sem að henni stóðu 34 prósent, eða 13,7 prósentustigum minna en þeir höfðu fengið í kosningunum haustið 2016. Örfáum vikum síðar, um miðjan september 2017, sprakk ríkisstjórnin og boðað var til nýrra kosninga.
Eftir þær var mynduð ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur sem innihélt Vinstri græna, Sjálfstæðisflokk og Framsókn og hefur hún setið síðan. Flokkarnir endurnýjuðu samstarf sitt í fyrra eftir að hafa bætt sameiginlega við sig fylgi milli kosninga, sem var einvörðungu tilkomið vegna fylgisaukningar Framsóknarflokksins. Bæði Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkur töpuðu fylgi.
Framsókn tvöföld, Sjálfstæðisflokkur á pari en Vinstri græn dala
Í nýjustu fylgiskönnun Gallup, sem birt var í síðustu viku, kom fram að allir stjórnarflokkarnir þrír hafi tapað fylgi það sem af er kjörtímabilinu.
Mestu hafa Vinstri græn tapað og fylgi flokksins hefur undanfarna mánuði mælst með því lægsta sem það hefur mælst frá því að Gallup fór að mæla það. Botninum var náð í júní þegar fylgið mældist 7,2 prósent, og hafði aldrei mælst minna. Sjálfstæðisflokkurinn hefur tapað rúmum tveimur prósentustigum frá síðustu kosningum og Framsókn tæpum tveimur prósentustigum.
Ef horft er á þróun á fylgi flokkanna tíu mánuðum eftir að þeir mynduðu fyrst ríkisstjórn í kjölfar kosninganna 2017 þá hefur staða tveggja þeirra breyst umtalsvert. Á þeim tíma, í ágúst 2018, mældist fylgi Sjálfstæðisflokks svipað og það er í dag, eða 22,7 prósent. Framsóknarflokkurinn mælist hins vegar næstum tvisvar sinnum stærri nú en þá, fer úr 8,3 í 15,4 prósent. Vinstri græn eru hins vegar með umtalsvert lægra fylgi í dag en fyrir fjórum árum þegar flokkurinn mældist með 11,7 prósent. Í nýjasta Þjóðarpúlsinum mældist fylgið 8,6 prósent.