Lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum hefur ekki verið að skora mörg vinsældarstig eftir að hún sendi út bréf til allra viðbragðsaðila sem tengjast þjóðhátíð í Eyjum og brýndi fyrir þeim að upplýsa fjölmiðla ekki um kynferðisbrot sem gætu komið upp á hátíðinni um helgina. Þrátt fyrir að lögreglustjórinn, Páley Borgþórsdóttir, hafi gefið það út að þetta sé gert til að hlífa brotaþolum við umfjöllun virðast flestir gagnrýnendur vera á þeirri skoðun að tilgangurinn sé mun frekar að verja hátíðina fyrir slæmu umtali. Á meðal þeirra sem hafa gagnrýnt hina meintu þöggun eru Blaðamannafélag Íslands, Félag fréttamanna, Stígamót og þolendur sem hafa orðið fyrir kynferðisbrotum á Þjóðhátíð.
Fjölmiðlamaðurinn Helgi Seljan benti síðan á það í stöðuuppfærslu á Facebook í gær að svo virðist sem þessi regla um að segja ekki frá kynferðisbrotum virðist nýtilkomin hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum. Þar hlekkjar hann á frétt frá embættinu sem birtist 7. júlí síðastliðinn þar sem greint er frá rannsókn á meintu kynferðisbrotamáli sem hafði verið tilkynnt til lögreglu tveimur dögum áður og fjölmiðlar höfðu þegar greint frá.
Því má vel velta því fyrir sér hvað hafi breyst hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum á þeim tæpa mánuði sem er liðinn frá því að hún greindi frá meintu kynferðisbroti á heimasíðu sinni þar til að hún vill ekki að neinn fái að vita af því ef kynferðisbrot verður framið í umdæmi hennar. Þ.e. annað en það að Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum, sem færir samfélaginu í Eyjum hundruð milljóna króna í tekjur árlega, fer fram um helgina.