Perla Ösp Ásgeirsdóttir hefur verið ráðin í starf framkvæmdastjóra Eflingar. Hún mun hefja störf þann 1. júní. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Eflingu.
Áður starfaði Perla í 11 ár sem framkvæmdastjóri áhættustýringar hjá Landsbankanum en hún er með með B.Sc. gráðu í viðskiptafræði og M.Sc. gráðu í fjármálum frá Háskólanum í Reykjavík. Þar áður starfaði hún sem greinandi hjá Seðlabankanum og gegndi samhliða störfum fyrir RAnnsóknarnefnd Alþingis sem rannsakaði orsakir fjármálahrunsins 2008.
Perlu bíða ýmis verkefni á skrifstofu Eflingar. „Þar ber fyrst að nefna stefnumótun og eftirfylgni í tengslum við skipulagsbreytingar sem Efling hóf í apríl síðastliðnum,“ segir í tilkynningu frá stéttarfélaginu.
„Ég lýsi mikilli ánægju með þessa ráðningu. Við leituðum að framkvæmdastjóra sem getur ábyrgst góða stjórnarhætti, leitt vandaða áætlunargerð um reksturinn og átt gott samstarf við stjórn og starfsmenn. Það er ljóst að Perla Ösp hefur afburða færni og reynslu í þessum atriðum,“ er haft eftir Sólveigu Önnu Jónsdóttur í tilkynningu Eflingar.
„Ég þakka það traust sem mér er sýnt gagnvart því mikilvæga verkefni að taka við skrifstofu Eflingar - stéttarfélags eftir róstursama tíma. Það eru mörg verðug verkefni sem bíða mín og þess teymis sem mun manna skrifstofuna. Ég treysti því að þekking mín og reynsla frá Landsbankanum muni styrkja Eflingu og hlakka til farsælla samskipta við stjórn og samstarfsfólk,“ segir Perla Ösp.
Í apríl var öllum starfsmönnum á skrifstofu Eflingar sagt upp störfum eftir að meirihluti stjórnar félagsins undir forystu formannsins Sólveigar Önnu Jónsdóttur hafði samþykkt að segja upp öllum ráðningarsamningum. Sólveig Anna sagði af sér formennsku síðasta haust en bauð sig aftur fram til forystu fyrir formanns- og stjórnarkosningar sem fram fóru í febrúar. Hún leiddi þá Baráttulistann sem hlaut 54 prósent greiddra atkvæða. Sólveig Anna tók svo aftur við formennsku Eflingar á aðalfundi félagsins í byrjun Apríl.