Fyrrverandi formenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins hafa í dag gagnrýnt aðgerðir ríkisstjórnarinnar í ESB-málinu harðlega. Þorsteinn Pálsson og Valgerður Sverrisdóttir skrifa bæði pistla á vefsíðu Hringbrautar um málið.
„Ráðherrar geta ekki breytt ákvörðunum Alþingis. Það er andstætt stjórnarskrá lýðveldisins,“ skrifar Þorsteinn. Hann segir tilkynningu Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra vera gerræði og auglýsingu á því hvernig hann „lítilsvirðir löggjafarsamkomu þjóðar sinnar.“
Þorsteinn hvetur þjóðina til að svara þessari ákvörðun og standa „einhuga gegn valdbeitingu Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra.“ Það skipti öllu máli að þjóðin taki höndum saman um að endurheimta ályktunarvald Alþingis.
Þorsteinn leggur til að stjórnarandstaðan íhugi að flytja vantrauststillögu á utanríkisráðherra. „Tillögur um vantraust á ráðherra hafa yfirleitt litla þýðingu nema að fyrir liggi að þeir hafi misst traust meirihlutans. En þessi atburður er þess eðlis að það ætti að vera umhugsunarefni fyrir þingmenn stjórnarandstöðunnar að flytja tillögu um vantraust á utanríkisráðherrann. Slíkt vantraust ætti að sjálfsögðu ekki að snúast um afstöðu hans til Evrópumála. Það hlyti alfarið lúta að gerræði hans gagnvart Alþingi.“
Segir tillöguna samda utan stjórnarráðsins
Valgerður Sverrisdóttir, fyrrverandi ráðherra og formaður Framsóknarflokksins, segir í pistli sínum á Hringbraut að forystumenn Framsóknarflokksins hafi flutt áróður sem hafi á stundum verið ómálefnalegur. Hún segir að það gefi auga leið að þessi ríkisstjórn hafi ekki verið líkleg til árangurs í Evrópumálum, enda báðir flokkarnir mótfallnir aðild. „Þess vegna var augljóst að besti kosturinn var að láta málið liggja fram yfir kosningar en áður en til þeirra kæmi færi fram þjóðaratkvæðagreiðsla um vilja þjóðarinnar. Enda var þessu lofað af forystumönnum ríkisstjórnarinnar fyrir kosningar.“
Valgerður segir einnig að það sé ljóst að tillaga um að slíta viðræðum hafi ekki verið tekin inni í stjórnarráðinu. „Þegar tekið er mið af hvað ráðherrarnir eiga erfitt með að svara fyrir gjörninginn er ljóst að tillagan hefur verið samin utan stjórnarráðsins. Ég læt lesendur um að velta fyrir sér hvaðan hún gæti hafa komið.“