Á kosningafundi í Suður-Karólínuríki fyrir tveimur árum lofaði Joe Biden, þáverandi forsetaefni Demókrataflokksins í Bandaríkjunum, því að hann myndi tilnefna fyrstu svörtu konuna sem dómara við hæstarétt landsins. Nú hefur forsetinn staðið við loforð sitt í kjölfar þess að hæstaréttardómarinn Stephen G. Breyer tilkynnti í síðasta mánuði áætlun sína um að setjast í helgan stein.
Við tilkynningu tilnefningar Jackson, þar sem einnig var viðstödd Kamala Harris, fyrsta svarta konan til að gegna embætti varaforseta Bandaríkjanna, sagði Biden að of lengi hafi ríkisstjórnir og dómstólar Bandaríkjanna ekki endurspeglað bandarísku þjóðina.
Verði tilnefning Jackson samþykkt mun hún taka sæti Breyer, en líkt og hann er hún frjálslynd í túlkun sinni á stjórnarskrá Bandaríkjanna og sinnti hún raunar starfi aðstoðarmanns hans við hæstarétt á tímabilinu 1999-2000.
Jackson var fyrst skipuð dómari við alríkisdómstól árið 2013, og hlaut svo stuðning þriggja öldungadeildarþingmanna repúblíkana þegar hún var skipuð dómari við áfrýjunardómstól Washington umdæmis á síðasta ári. Óvíst er hvort þeir muni allir styðja hana við kosningu öldungadeildarþingsins, sem er jafnt skipað þingmönnum repúblíkana og demókrata, um skipan hennar í hæstarétt sem fram fer í apríl. Repúblikanar geta þó ekki komið í veg fyrir skipunina ef allir 50 öldungadeildarþingmenn demókrata samþykkja hana, en þá ætti Kamala Harris varaforseti úrslitaatkvæðið.
Jackson stundaði nám við lagadeild Harvard-háskóla, en það er meðal þess sem nokkrir þingmenn repúblíkana hafa gagnrýnt eftir að tilkynnt var um tilnefningu hennar. Segja þeir nóg komið af skipun hæstaréttardómara sem nemið hafa við svokallaða „Ivy League“-háskóla. Hljóti Jackson skipun verður hún ein af fjórum dómurum við hæstarétt sem nam við Harvard, en þar af voru tveir skipaðir af forsetum úr röðum repúblíkana.
Jackson fæddist í Washington D.C. en ólst upp í Miami í Flórída. Foreldrar Jackson eru báðir kennarar við almenningsskóla og bróðir hennar hefur starfað fyrir lögregluna í Baltimore. Þá var frændi hennar lögreglustjóri í Miami. Annar frændi hennar, Thomas Brown, var hins vegar dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir vörslu mikils magns af kókaíni og ásetning um að selja það til gróða í október 1989. Hann var látinn laus í nóvember 2017 þegar þáverandi forseti, Barack Obama, mildaði refsingu hans og fjölda annarra sem höfðu verið dæmdir undir svokölluðum þriggja brota lögum sem urðu til þess að fjöldinn allur af friðsamlegum (e. non-violent) glæpamönnum voru dæmdir í lífstíðarfangelsi. Brown lést fjórum mánuðum eftir að hann var látinn laus.
Samkvæmt umfjöllun New York Times þykir Jackson hafa einstaka sýn á stjórnarskrána og sérstakan hæfileika til að setja sig í annarra spor, ekki síst eftir að hafa starfað sem skipaður verjandi (e. public defender), sem er óvenjulegt fyrir hæstaréttardómara.
„Ef ég verð svo heppin að vera staðfest sem næsti dómari við hæstarétt Bandaríkjanna get ég aðeins vonað að líf mitt og starfsferill, ást mín á föðurlandinu og stjórnarskrá þess og skuldbinding mín til þess að viðhalda lögum og reglu og þeim helgu gildum sem land þetta var byggt, muni verða komandi kynslóðum innblástur,” sagði Jackson við tilnefninguna.