Ríkisstjórnin gaf það út í fyrr í sumar að flýta ætti innleiðingu gjaldtöku til að vega á móti yfirstandandi tekjutapi vegna umferðar og eldsneytis, sem meðal annars hefur leitt af mikilli fjölgun bifreiða sem ganga fyrir öðru en jarðefnaeldsneyti. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu sem kynnt var í dag verður einungis ráðist í hluta þeirra breytinga sem fyrirhugaðar eru á næsta ári og fyrstu skrefin tekin.
Í fjárlagafrumvarpinu, sem Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra kynnti í morgun, kemur fram að breyta eigi bifreiðagjaldi og vörugjöldum á bifreiðar, með það að markmiði að fá fleiri krónur í ríkissjóð frá fleiri bíleigendum, en fram kom í máli Bjarna að við þyrftum „að fara að undirbúa okkur“ fyrir gjaldtöku á „umhverfisvænum bílum“.
Aukin vörugjöld hækki útsöluverð um allt að 5 prósent
Alls er áætlað að 4,9 milljarðar króna innheimtist aukalega vegna þeirra breytinga sem boðaðar eru í fjármálafrumvarpinu. Breytingar á vörugjaldi á ökutæki, sem fela í sér að losunarmörk vörugjalds verða lækkuð, skattprósentan sömuleiðis og að lágmarksvörugjöld verði 5 prósent, á að skila ríkinu 2,7 milljörðum í viðbótartekjur, samkvæmt því sem segir í fjárlagafrumvarpinu.
Þar segir einnig að gera megi ráð fyrir því að breytingin hafi þau áhrif að útsöluverð nýrra fólksbíla hækki um allt að 5 prósent. Bein áhrif þessara breytinga á vísitölu neysluverðs, verðbólgu, eru metin um 0,2 prósent til hækkunar, samkvæmt fjárlagafrumvarpinu.
Breytingar á bifreiðagjaldi, sem fela í sér að lágmarksgjaldið verði hækkað og losunarmörk hækkuð á móti, eiga að skila 2,2 milljörðum króna í viðbótartekjur í ríkissjóð á næsta ári.
Gert er ráð fyrir því að með þessum breytingum verði meðal-bifreiðagjöldin nálægt því sem þau voru árið 2017, eða um 37 þúsund krónur. Tekjur af bifreiðagjöldum hafa dregist hratt saman á undanförnum árum.
Enn ríkir hvatar til að kaupa rafbíla
Fjármála- og efnahagsráðherra sagði er hann kynnti fjárlagafrumvarpið að áfram væru ríkir hvatar til þess að kaupa bíla sem ganga fyrir rafmagni að öllu leyti eða hluta, þrátt fyrir þessar breytingar.
„Þó að rafmagnsbíllinn fari að borga hærra bifreiðagjald á hverju ári þá er ekki hægt að bera það saman við árlegan kostnað við að halda úti bensínbifreið,“ sagði ráðherra meðal annars og birti skýringarmyndir máli sínu til stuðnings.
Ekkert um kílómetragjöld, jarðgangagjöld né vegtolla í borginni
Í frumvarpinu segir að unnið sé að heildarendurskoðun gjaldtöku í samgöngukerfinu og að stefnt sé að því að fyrirkomulagið miðist í auknum mæli við notkun og hefur mátt skilja á ráðherra að einhverskonar kílómetragjald sé til skoðunar, auk annars.
Þessar hugmyndir eru þó enn óútfærðar og ekki inni í fjárlagafrumvarpi næsta árs.
Ekki er heldur fjallað neitt um jarðgangagjöld þau sem Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra boðaði í sumar að væru á borðinu, né svokölluð flýti- og umferðargjöld á höfuðborgarsvæðinu, sem opinberir aðilar hafa verið að skoða á undanförnum misserum.
Því má slá því föstu að gjöld af þessu tagi verði ekki lögð á árið 2023.