„Einn helsti drifkraftur þessa verkefnis er að afla efnis í sement sem kemur í stað hins kolefnisfreka sementsklinkers.“
„Tilgangur efnistökunnar í [Litla-]Sandfelli er að nýta meirihluta efnisins sem staðgönguefni flugösku í sementsframleiðslu.“
Verði ekki af námunni „munu sementsframleiðendur þurfa að finna annað efni í stað flugösku“ og takist ekki að finna það „þarf að nota sementsklinker með þeirri gríðarmiklu koldíoxíðlosun sem því fylgir. Hnattræn áhrif á loftslag gætu því reynst mjög neikvæð.“
„Móberg úr Litla-Sandfell mun koma í stað sementsklinkers og árlega minnka kolefnislosun vegna steypuframleiðslu um 663 milljónir kíló CO2 ígilda. Það er því mat framkvæmdaaðila að heildaráhrif framkvæmdarinnar á loftslag séu verulega jákvæð.“
Þessu er öllu saman haldið fram í umhverfismatsskýrslu Eden Mining, fyrirtækis í eigu tveggja Íslendinga, sem áformar að moka Litla-Sandfelli í Þrengslum upp á vörubíla og flytja það til verksmiðju sem þýski sementsrisinn Heidelberg Materials hyggst reisa í Þorlákshöfn. Skýrslan, sem er nú til meðferðar hjá sérfræðingum Skipulagsstofnunar, er unnin af verkfræðistofunni Eflu.
Stofnanir sem gefið hafa umsögn sína við skýrsluna setja spurningarmerki við fullyrðingar sem í henni er að finna. Þær segja að framsetning á loftslagsávinningi sé „ruglingsleg“ og „ómarkviss“ og að útreikningur á kolefnislosun sé „því marki brenndur“ að í raun muni framkvæmdin ekki draga úr losun heldur viðhalda árangri sem þegar hafi náðst, þ.e. að draga úr losun með notkun flugösku í stað klinkers „en þó með nýjum umhverfisáhrifum sem áður voru ekki fyrir hendi,“ segir Umhverfisstofnun m.a. í umsögn sinni.
Stofnunin spyr hvort ekki megi finna annan staðgengil flugösku en íslenska móbergið enda sé vinnsla þess ekki í anda hringrásarhagkerfisins. Bent er m.a. á efni sem myndast við brennslu heimilissorps eða timburs sem í dag er urðað.
Sement er fínmalað vökvabindiefni og einn af aðalþáttum þess er sementsgjall, svokallaður klinker. Klinkerinn er búinn til með því að bræða saman kalkstein og leir og í umhverfismatsskýrslu Eden Mining segir að við framleiðslu á einu tonni af klinker losni 842 kíló af koltvísýringi. Til að minnka notkun á klinker, og þar með minnka losun, hefur notkun íauka, einkum flugösku úr kolaverum, aukist mikið.
Á fundi í Þorlákshöfn í síðustu viku, þar sem móbergsvinnsla Heidelberg Materials var kynnt, sagði Þorsteinn Víglundsson, forstjóri Hornsteins og talsmaður þýska sementsrisans, að með því að nota móberg sem íblöndunarefni í sement megi spara um 20 prósent af kolefnisspori framleiðslunnar í dag, eða meðaltali um 700-750 kíló CO2 á hvert tonn af sementi.
Eden Mining áætlar að ef leyfi fáist fyrir námuvinnslunni verði hægt að vinna 800 þúsund til milljón tonn af móbergi á ári í þrjátíu ár. Að þeim tíma liðnum væri Litla-Sandfell, sem myndaðist undir jökli í lok síðustu ísaldar, horfið af yfirborði jarðar. Að minnsta kosti í sinni náttúrulegu mynd.
Bæði
En fáist þessi leyfi, hvort yrði íslenska móbergið staðgengill fyrir flugösku eða sementsklinker?
„Það er gert ráð fyrir hvoru tveggja til lengri tíma litið, það er að annars vegar komi móbergið í stað þeirrar flugösku sem notuð er í dag en jafnframt er gert ráð fyrir að móbergið komi að hluta í stað þess sementsgjalls sem notað er í dag,“ segir Þorsteinn í svari við þessari fyrirspurn Kjarnans. Prófanir sýni að hægt væri að auka nokkuð íblöndun móbergs á móti sementsklinker í sementi samanborið við flugöskuna.
Hann segist hafa séð gagnrýni ýmissa stofnana varðandi þessa framsetningu „og hún hefur vakið nokkra undrun hjá okkur,“ segir Þorsteinn og segir ástæður þess eftirfarandi:
„Í fyrsta lagi er alveg ljóst að framboð flugösku er nú þegar orðið af mjög skornum skammti vegna minnkandi vægis kola í raforkuframleiðslu. Sú þróun er mjög jákvæð og gert er ráð fyrir að hún haldi áfram og að kolaorkuver í Evrópu heyri sögunni til innan ekki langs tíma.
Fullyrðingar ýmissa stofnana um gnótt framboð flugösku koma okkur mjög á óvart enda endurspeglar verðþróun og sú staðreynd að farið er að flytja flugösku mun lengri vegalengdir en áður til að mæta þörf sementsiðnaðar í þeim efnum.
Auk þess verður að hafa í huga að ekki er hægt að nota alla ösku sem fellur til í orku- eða málmframleiðslu inn í sement vegna efnaeiginleika og spilliefna sem er að finna í hluta hennar. Það væri enda sérkennilegt að flestir sementsframleiðendur í Evrópu væru að leggja höfuðáherslu á þróun nýrra íauka í sement í stað flugösku, með tilheyrandi kostnaði, ef nægt framboð væri af henni til langrar framtíðar.
Finnist ekki aðrir kostir mun kolefnisspor sementsframleiðslu því aukast á nýjan leik þegar flugösku nýtur ekki lengur við.“
Í öðru lagi segir Þorsteinn það vera mat Heidelberg að til lengri tíma uppfylli flugaska ekki viðmið um sjálfbæra lausn þar sem notkun hennar styðji við notkun kola til brennslu „sem seint verður talin sjálfbær lausn“.
Kínverjar eru risar í framleiðslu klinkers
Kína er það land í heiminum sem framleiðir langmest af sementsklinker eða um 2.000 milljónir tonna á ári. Eitthvað af honum er unnið innan Evrópusambandsins og umtalsvert magn er svo unnið í Tyrklandi.
Ef Litla-Sandfell verður ekki mulið og flutt úr landi, með tilheyrandi umhverfisáhrifum hér, m.a. frá umferð flutningabíla, sliti á vegum og óneitanlegri stórbreyttri ásýnd lands, „munu sementsframleiðendur þurfa að finna annað efni til að koma í stað flugöskunnar „þegar kolaverum Evrópu verður lokað á næstu árum og áratugum, segir í umhverfismatsskýrslu Eden Mining. Takist það ekki þurfi að nota sementsklinker „með þeirri gríðarmiklu koldíoxíðlosun sem því fylgir,“ segir ennfremur í skýrslunni. Þar er því svo einnig haldið fram að auk þess þyrfti að ráðast í frekari námugröft í Evrópu til að ná í kalksteininn sem þarf til að búa til klinkerinn „eða flytja inn sementsklinker frá löndum utan EES-svæðisins sem eru ekki meðlimir í evrópska ETS viðskiptakerfinu með kolefniskvóta, t.d. Tyrklandi“.
Því nú fer að líða að því að losunarheimildir sem sementsframleiðendur hafa hingað til fengið ókeypis muni að kosta sitt. Með því að vinna íslenskt móberg, sem er náttúrulega brennt eftir eldgos undir jökli og þarf því ekki að brenna í verksmiðju líkt og sementsklinkerinn, má spara fleira en koldíoxíð.
„Loftslagsávinningur sem ætlað er að koma fram í öðru landi [getur] ekki talist rökstuðningur fyrir umtalsverðum umhverfisáhrifum á Íslandi nema þá að fyrir liggi alþjóðlegir samningar, bendir Umhverfisstofnun á í umsögn sinni um matsskýrslu Eden Mining.
Sérstök sjónarmið
„Þetta eru nokkuð sérstök sjónarmið í baráttunni gegn hlýnun jarðar sem hingað til hefur verið talinn hnattrænn vandi sem krefjist hnattrænna lausna,“ segir Þorsteinn, talsmaður Heidelberg, við Kjarnann. „Þannig má nefna sem dæmi að orkuskipti okkar í samgöngum eru verulega háð námavinnslu af ýmsu tagi sem þarf til framleiðslu á rafhlöðum í bifreiðar, áli til að létta þær sömu bifreiðar og auka drægni rafbíla og svo mætti áfram telja.“
Þau umhverfisáhrif verði til í öðrum löndum en minnkun losunar komi fram íslenska loftslagsbókhaldinu. „Það ætti því að liggja í augum uppi að vandamálið verður ekki leyst einangrað í hverju landi fyrir sig heldur þvert á móti með auknu alþjóðlegu samstarfi þar sem þjóðir leggja það af mörkum sem þær hafa tök á. Hvort heldur sem það framlag er til lækkunar á eigin kolefnisspori eða kolefnisspori annarra landa.“