Katrín Atladóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins telur að ungmenni í Laugardal þurfi „alvöru aðstöðu, ekki fleiri vinnuhópa eða góðar hugmyndir á blaði“ en þetta ritar hún í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag.
Bendir hún á að í meirihlutasáttmála borgarstjórnar sé talað um að „greina þurfi þörf fyrir aðstöðu fyrir börn og unglinga í Laugardal“. Katrín segir að það þurfti enga sérfræðinga til að greina þessa þörf, það væri auðvelt að spyrja bara foreldra í hverfinu.
„Tveir grunnskólar í Laugardal eru án íþróttahúss og aðrir tveir eru með of lítil og óheppileg hús. Íþróttafélögin í Laugardal, Ármann og Þróttur, eiga ekkert hús fyrir boltagreinar innanhúss. Hjá Ármanni, fjölmennustu körfuboltadeild Reykjavíkur, æfa fjögurhundruð börn. Þau yngstu æfa í íþróttahúsum Langholts- og Laugarnesskóla, þau eru á stærð við einn badmintonvöll. Þessi börn spila mörg í fyrsta skipti á tvær körfur þegar þau taka þátt í mótum“, skrifar hún.
Segir brottfallið mikið þegar börn vaxi upp úr aðstöðu
Katrín segir jafnframt að Ármann geti ekki haldið mót til fjáröflunar eins og önnur félög í borginni vegna aðstöðuleysis. Skólaíþróttahúsunum sé lokað í sumarbyrjun líkt og skólunum svo tímabilið hjá Ármannskrökkum sé styttra en hjá börnum í öðrum félögum.
„Brottfall er mikið þegar börnin vaxa upp úr þessari aðstöðu og þurfa þá að ferðast til æfinga utan hverfis. Aðstöðuleysi Þróttar er líka alvarlegt en blakdeild Þróttar æfir á tíu stöðum á höfuðborgarsvæðinu og erfiðlega hefur gengið að halda úti starfi í handbolta,“ skrifar hún.
Hún segir að íþróttahús sem nýtist Þrótti, Ármanni og skólunum í hverfinu hafi skorað einna hæst í forgangsröðun íþróttamannvirkja í Reykjavík. „Vinnuhópur allra hagaðila á að skila tillögum að uppbyggingu í Laugardal fyrir 1. desember. Það eru sjö mánuðir eftir af kjörtímabilinu og lítið áþreifanlegt hefur gerst í aðstöðuvanda Laugdælinga. Ungmenni í Laugardal þurfa alvöru aðstöðu, ekki fleiri vinnuhópa eða góðar hugmyndir á blaði.“