Stríðinu í Úkraínu er hvergi nærri lokið. Rússar sækjast enn eftir áhrifum í héruðum í austurhluta Úkraínu og því hefur forseti landsins, Petro Porosjenkó, aukið við hergagnasafn úkraínska hersins. Stríðið í Úkraínu hefur skerpt á skilunum milli austurs og vesturs, og hafa þau aldrei verið svo augljós síðan Sovétríkin féllu 1991.
Einn stærsti þáttur átakanna milli austurs og vesturs er sem fyrr hugmyndafræðilegur. Sem dæmi má nefna Dmitrí Kiseljov, vinsælan rússneskan sjónvarpsþul, sem kynnti nýja vefsíðu Kremlar og fréttaútvarpsstöðina Spútnik í vetur og sagði tilgang nýju þjónustunnar vera að vega á móti bandarískum áróðri vestrænna miðla.
Spútnik er raunar merkilegur áfangi í fjölmiðlasögu Rússlands því hún kemur í stað Raddar Rússlands (e. Voice of Russia) sem alþjóðleg ríkisrekin fréttaútvarpsstöð. Helsti munurinn á þessum tveimur stöðvum er einfaldlega stærðin því fréttaritarar Spútnik eru í 130 borgum í 34 löndum um allan heim.
Breska blaðið The Guardian fjallaði ítarlega um áróður austurs og vesturs í gær.
Gallerí: Austur og vestur
Úkraínskir hermenn sátu í skriðdrekum sínum þegar Petro Porosjenkó, forseti Úkraínu, kynnti stóra viðbót við vopnakost hersins. Við bætast meira en hundrað einingar vopna, hergagna og loftfara. Bæði yfirvöld í Kænugarði og Moskvu segjast hafa litla trú á að hægt sé að komast að friðsamlegri lausn, þó slíkar umleitanir haldi áfram.
Hjónaband fólks af sama kyni er nú löglegt í Flórída í Bandaríkjunum. Hommar og lesbíur fögnuðu þegar úrskurður um að það stæðist ekki ákvæði stjórnarskrárinnar að ógilda slík hjónabönd var kveðinn upp í Broward-dómhúsinu í Fort Lauderdale í gær.
Samkvæmt gamalli hefð í kristnum sið kasta karlmenn sér í ískalt vatn í leit að trékrossi á þrettándanum. Í Sófíu í Búlgaríu er þessi siður í heiðri hafður og karlmenn keppast við að finna krossinn sem sagður er tryggja manni góða heilsu allt árið.
Svipusmellsmeistarakeppnin var haldin í 48. sinn í Schwyz í Sviss í gær. Keppnin gengur út á að framkalla sem hæstan smell með því að sveifla leðursvipu. Smellurinn verður þegar svipuendinn klífur hljóðmúrinn og framkallar örlítinn hvell.
Í Moskvu voru jólin haldin í gær á þrettándanum. Meðlimir rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar halda jólin síðar en kaþólskir og mótmælendur vegna þess að í Rússlandi miðar kirkjan við júlíanska tímatalið.