Ef það er eitthvað sem við lærðum af heimsfaraldrinum þá varð það hversu hagkerfi heimsins eru samtvinnuð. Brostin uppskera á einum stað, í hvaða formi sem hún er, getur haft keðjuverkandi áhrif í þúsunda kílómetra fjarlægð. Eitt strandað skip í skurði getur gert slíkt hið sama þótt áhrifin verði ekki ljós þegar í stað í hvorugu tilfellinu. Þannig vilja sumir meina að skortur á gasi í Bretlandi og víðar í Evrópu og þar af leiðandi miklar verðhækkanir á því megi rekja til skorts á kolum í Asíu. Enn aðrir hafa bent á stíflu í allra handa flutningum í þessu sambandi. Og að vörubílstjóraskortinn í Bretlandi megi svo aftur rekja til útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Sem og heimsfaraldursins. En einnig loftslagsbreytinga og tilrauna til viðbragða við þeim. Svo eru það þeir sem segja: Það er enginn orkuskortur. Það er einfaldlega verið að framleiða of mikið óþarfa drasl. Og sóa þar með auðlindum jarðar.
Líklegt er að allir ofangreindir þættir hafi sitt að segja og samverkandi áhrif. Venjulegu fólki, sem sér hita- og rafmagnsreikninginn hækka mánuð eftir mánuð, er hins vegar líklega flestu slétt sama hvað veldur. Það vill einfaldlega fá sitt gas, sitt bensín – sitt rafmagn. Og það á viðráðanlegu verði.
En það eru blikur á lofti og frekari verðhækkanir í kortunum sem stjórnvöld í nokkrum Evrópuríkjum hafa orðið að bregðast við með niðurgreiðslum til neytenda.
Um helgina og á mánudag mynduðust langar bílaraðir við bensínstöðvar víðs vegar á Bretlandseyjum. Margar stöðvanna önnuðu ekki eftirspurn. Bensínið og olían einfaldlega kláraðist. Olíufyrirtækið BP segir að eldsneytisbirgðir um þriðjungs stöðva þeirra hafi þurrkast upp. Svo alvarlegt er ástandið að stjórnvöld eru sögð hafa að minnsta kosti íhugað að setja herinn í viðbragðsstöðu ef til uppþota kæmi.
En skýringin á þessu tiltekna ástandi er reyndar ekki hreinn og klár eldsneytisskortur. Heldur fyrst og fremst skortur á vinnuafli. Talið er að um 100 þúsund vörubílstjóra vanti til að anna þeirri eftirspurn sem er til staðar við stórflutninga í landinu hverju sinni. Þetta hefur ekki aðeins haft þau áhrif að bensínstöðvarnar fá ekki sitt bensín heldur einnig myndað flöskuhálsa í flutningum á hvers konar neysluvörum. Þeir sem mættu svo á bensínstöðvarnar um helgina voru margir hverjir að hamstra eldsneyti – tryggja sig til nánustu framtíðar ef ástandið skyldi halda áfram að versna.
Samgönguráðherra Bretlands, Grant Shapps, segir vandann heimatilbúinn og kenndi hræðsluáróðri vegna skorts á vörubílstjórum um. Það séu vissulega allt of fáir bílstjórar en umfjöllun fjölmiðla hafi hins vegar ýtt undir hræðslu hjá almenningi og enn meiri eftirspurn eftir eldsneyti. Þannig hafi „afhendingarvandi“ orðið að „krísu“.
Í þessari tilteknu krísu er útganga Breta úr ESB, og meðfylgjandi hömlur á frjálst flæði vinnuafls, talin spila stóran þátt. Einnig heimsfaraldurinn því margir bílstjórar frá öðrum löndum, fóru heim er faraldurinn stóð sem hæst og hafa ekki átt greiða leið til Bretlands á ný. Þar sem vöntun á bílstjórum er víða í Evrópu eiga þeir líka auðvelt með að fá vinnu annars staðar.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hefur m.a. brugðist við vandanum með því að bjóða erlendum bílstjórum tímabundið dvalarleyfi sem svo aftur hefur ekki farið sérstaklega vel ofan í hörðustu stuðningsmenn Brexit. Einnig hefur aukið fjármagn verið sett í ökukennslu svo mennta megi fleira fólk í faginu.
Gas, gas, gas og aftur gas
Önnur krísa er þó alvarlegri og ekki eins auðleysanleg þótt hluta hennar megi reyndar einnig rekja til bílstjórahallærisins. Hún snýst um ósýnilega vöru sem er gríðarlega mikilvæg mörgum stærstu hagkerfum heims. Þessi vara er jarðgas. Á síðustu árum hefur áherslan á gas orðið enn meiri en áður vegna þess að mörg ríki eru að draga úr notkun kola. Notkun á gasi losar helmingi minna koltvíoxíð en brennsla kola. Gas átti að verða hluti af lausninni – ekki vandamálinu.
Í Bretlandi og víðar hefur eftirspurnin eftir því hins vegar vaxið hraðar en framboðið samhliða hröðum efnahagsbata í kjölfar faraldursins. Og kaldir vetrarmánuðir, jafnvel óvenju kaldir, eru handan við hornið. Samkeppnin um þessa auðlind, sem er vissulega takmörkuð á móður jörð, hefur harðnað og ríki keppast um að tryggja sér birgðir. Það hefur svo aftur leitt af sér miklar verðhækkanir.
Gasbirgðir í Evrópu hafa líklega sjaldan eða aldrei verið minni en nú miðað við árstíma. Norðmenn hafa heitið því að afhenda meira en Rússar eru aftur á móti ekki endilega á þeim buxunum og hafa jafnvel dregið úr gasstreyminu til Evrópu. Það kann aftur að eiga sér pólitískar skýringar. Þeir geta nú, í ljósi gasbirgða sinna, fundið til valdsins og minnt á að Evrópa þurfi á þeim að halda.
Það hefur svo ekki bætt úr skák að í Bretlandi, svo dæmi sé tekið, hefur verið óvenjulega lygnt í veðri í sumar. Hvers vegna skiptir það máli? Jú, það þarf vind til að hreyfa spaða vindmyllanna sem eiga að vera hluti af lausn loftslagsvandans. Þá má einnig tína til fleiri atriði svo sem þá staðreynd að kjarnorkuver Evrópu, sem smám saman eru að tína tölunni, eru flest komin til ára sinna. Hættan á því að þau „slái út“ hefur aukist. Og varaaflið er oft og tíðum gas.
Allt þetta og líklega ýmislegt fleira hefur orðið til þess að verð á gasi í Evrópu hefur hækkað um allt að 500 prósent á aðeins einu ári.
Gas er ekki eingöngu notað til að hita heimili og kaffistofur fyrirtækja. Það er raunverulega lífæðin í margvíslegri framleiðslu. Þannig hafa nokkrir framleiðendur áburðar álfunni t.d. ákveðið að draga úr framleiðslu. Jafnvel hætta henni. Það er ekki endalaust hægt að hækka verðið á afurðunum.
Veturinn þarf ekkert að verða óvenju kaldur svo að þessi krísa fari að bíta. Þegar er jafnvel farið að tala um afturhvarf til skömmtunarára. Slíkar ráðstafanir eru vissulega ekki ofarlega á listum stjórnmálamannanna. Ekki árið 2021. Ekki beint ofan í skæða farsótt.
Þessi gasskortur er og verður ekkert einkamál Evrópu. Hann mun hafa afleiðingar víðar um heim. Hann mun hafa áhrif í fátækustu ríkjum jarðar. Jafnvel gríðarleg. „Ef veturinn verður mjög kaldur þá óttast ég að við munum ekki eiga nægilega mikið af gasi til húshitunar í Evrópu,“ sagði Amos Hochstein, orkuráðgjafi bandaríska utanríkisráðuneytisins, við blaðamann Bloomberg fyrr í september. Hann sagði skortinn ekki aðeins geta haft neikvæð efnahagsleg áhrif heldur „snerta líf alls almennings“.
Verksmiðjum lokað og heimili rafmagnslaus
Þegar vélar kínverska hagkerfisins, þess næst stærsta í heimi, voru ræstar af fullum krafti eftir faraldurinn jókst eftirspurn eftir rafmagni um 10 prósent frá því sem áður var – og það á örskömmum tíma. Kolaverð hækkaði og þegar það gerðist reyndu fyrirtæki að kaupa frekar gas. En þessi sprenging í orkunotkun dró dilk á eftir sér.
Í norðaustur hluta Kína hefur undanfarið þurft að loka verksmiðjum vegna orkuskorts og milljónir heimila hafa verið án rafmagns oft og mörgum sinnum, í ýmist styttri eða lengri tíma í senn. „Þetta er eins og að búa í Norður-Kóreu, skrifaði einn notandi kínverska samfélagsmiðilsins Weibo um ástandið.
Það er engum blöðum um það að fletta að slíkt ástand getur, ef það dregst á langinn, haft áhrif á heimsvísu. Margvíslegar vörur sem keyptar eru í þúsunda tonna vís á Vesturlöndum eru fluttar inn frá Kína. Apple og Tesla eru meðal þeirra stórfyrirtækja sem nú geta átt von á því að þurfa að bíða eftir íhlutum.
Orkukreppuna þar má fyrst og fremst rekja til skorts á kolum sem virðist, einhverra hluta vegna, hafa komið algjörlega aftan að stjórnvöldum. Vandinn mun ekki gufa upp á næstunni. Hann er margþættur, tengist m.a. viðskiptadeilum við Ástrala og ýmsum töfum í framleiðslu og dreifingu sem heimsfaraldurinn olli. Óttast er að hann geti dregist á langinn vegna skorts á kolum og gasi annars staðar í heiminum.
Um 60 prósent af hinu kínverska hagkerfi eru knúin af kolabrennslu. Verð á þeim hefur nú náð hæstu hæðum. Stjórnvöld vilja reyndar ekki meina að um neina krísu sé að ræða. Tryggt verði að Kínverjar fái nóg rafmagn nú þegar vetur fer í hönd. Kolavinnsla verði aukin og sömuleiðis innflutningur á þeim.
Vonast eftir mildum vetri
Þeir sem versla með kol segja þetta einfaldara sagt en gert. Rússar, sem margir horfa nú til með bæði gas og kol, „þurfa fyrst að uppfylla kröfur Evrópu, Japans og Suður-Kóreu“ áður en röðin kemur að Kína, hefur Reuters eftir einum slíkum.
Hinn hraði efnahagsbati sem orðið hefur víða í hinum vestræna heimi hefur komið mörgum gleðilega á óvart. Allt er að komast aftur á fulla ferð. En framleiðslukeðjurnar ryðguðu í faraldrinum. Og standa sumar enn á sér.
Óhætt er að segja að margir liggi nú á bæn um að veturinn á norðurhveli verði mildur. Að veðurguðirnir verði miskunnsamir. En vetrarhörkur síðustu ára, jafnvel heimsmet í slíku, gefa vissulega vísbendingu um hvað kunni að vera í vændum. Hækkun olíuverðs sem og verðhækkanir á gasi og kolum, gætu hæglega velt af stað snjóbolta í vetur sem erfitt yrði að stöðva.