Gauti Jóhannesson, forseti sveitarstjórnar í Múlaþingi, ætlar ekki að sækjast eftir því að taka sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í alþingiskosningunum í haust. Hann hafnaði í þriðja sæti í prófkjöri flokksins sem fram fór í gær, en hafði sóst eftir oddvitasætinu, sem féll í skaut þingmannsins Njáls Trausta Friðbertssonar.
„Úrslitin eru mér vonbrigði en vilji kjósenda er skýr og við niðurstöðuna verður að una. Ég sóttist eftir að leiða listann, það varð ekki og af þeim sökum mun ég ekki sækjast eftir að taka sæti á lista Sjálfstæðisflokksins við kosningar til Alþingis í haust,“ skrifar Gauti í færslu á Facebook í dag.
Berglind Ósk Guðmundsdóttir lögfræðingur og varabæjarfulltrúi á Akureyri hafnaði í öðru sæti í prófkjörinu, en hún sóttist eftir því sæti og fékk fleiri atkvæði í efstu tvö sætin en Gauti.
Hann vildi leiða listann og hafði lagt áherslu á það í prófkjörsbaráttu sinni að mikilvægt væri að sjálfstæðismenn á Austurlandi ættu sér fulltrúa í forystusæti í kjördæminu.
Sjálfstæðisflokkurinn er með tvo þingmenn í kjördæminu eins og er, þá Kristján Þór Júlíusson sem er að hætta í stjórnmálum og Njál Trausta.
Flokkurinn fékk 20,3 prósent atkvæða þar haustið 2017 sem var töluvert undir heildarkjörfylgi hans sem var 25,2 prósent. Sjálfstæðisflokkurinn er samt sem áður stærsti flokkurinn í Norðausturkjördæmi eins og er þar sem hann fékk 88 atkvæðum fleiri en Vinstri græn þegar síðast var talið upp úr kjörkössunum.
Kæru vinir Nú þegar niðurstöður liggja fyrir í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðaustur kjördæmi er mér efst í huga...
Posted by Gauti Jóhannesson on Sunday, May 30, 2021