Sæns samtök rannsóknarblaðamanna hafa í samstarfi við suður-asíska kollega sína hafið útgáfu spjalda áþekka þeim sem tíðkast hefur að knattspyrnuunnendur safni af knattspyrnuleikmönnum. Ástæða útgáfu spjaldanna er sú að Heimsmeistaramótið í knattspyrnu í Qatar er framundan, en það sem er sérstakt við spjöld þessi er að í stað þess að á þeim séu myndir og upplýsingar um landsliðsmenn í knattspyrnu eru þar að finna sögur verkafólks sem látist hafa við undirbúning mótsins.
Alþjóðaknattspyrnusambandið tilkynnti árið 2010 að Katar fengi að halda Heimsmeistaramótið í knattspyrnu árið 2022, en fjöldi gagna sem birt hafa verið frá því að valið var tilkynnt gefa til kynna að spilling innan sambandsins hafi orðið til þess að Katar varð fyrir valinu. Engu að síður hófst Katar handa við að reisa innviði til þess að halda mótið, þar á meðal átta knattspyrnuleikvanga, sem ljóst er að verða aldrei aftur notaðir eftir að mótinu lýkur. Um er að ræða dýrasta heimsmeistaramót sem haldið hefur verið.
Stærsti kostnaðurinn er þó líklega þeirra þúsunda farandverkamanna sem greitt hafa með lífi sínu, og fjölskyldna þeirra, en í febrúar á síðasta ári opinberaði The Guardian að hið minnsta 6.500 farandverkamenn frá Indlandi, Pakistan, Nepal, Bangladess og Sri Lanka hefðu látið lífið í Katar síðan 2010, en líklegt er að heildarfjöldi þeirra sem látist hafa sé mun hærri þar sem tölurnar eru einungis frá þessum fimm löndum og innihalda ekki upplýsingar um fjölda látinna frá Filipseyjum eða Kenía, þaðan sem fjöldi verkamanna í Katar kemur einnig.
Fjölmörg mannréttindasamtök hafa vakið athygli á slæmum aðstæðum farandverkafólks í Katar, þar sem það vinnur tímunum saman í miklum hita. Nú hafa sænsku rannsóknarblaðamannasamtökin Blankspot hafið útgáfu eins konar fótboltaspila til þess að vekja athygli á fólkinu á bakvið gríðarháar tölur látinna við undirbúning mótsins með því að taka viðtöl við fjölskyldur hinna látnu.
33 spil voru opinberuð á fyrsta degi átaksins, sem nefnist Cards of Qatar, og verður nýtt spil gefið út á hverjum degi þangað til mótið hefst þann 21. nóvember næstkomandi.