Þorkell Sigurlaugsson, viðskiptafræðingur og fyrrverandi stjórnarformaður Framtakssjóðs Íslands, boðaði í kvöld að hann myndi væntanlega sækjast eftir 2.-3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurborg fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar, ef slíkt prófkjör færi fram.
Í tilkynningu sem Þorkell sendi á fjölmiðla kemur fram að hann hafi fengið talsverða hvatningu til þess að gefa kost á sér til þess að taka sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurborg, en Þorkell er formaður velferðarnefndar Sjálfstæðisflokksins.
Hins vegar hefur ekki verið ákveðið hvort flokkurinn ætli sér að halda prófkjör eða ekki. Á fundi hjá Verði, fulltrúaráði sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, sem fram fór þann 15. desember, var samþykkt tillaga um að halda svokallað leiðtogaprófkjör í Reykjavík eins og fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2018.
Fulltrúaráð Sjálfstæðisflokksins þarf að samþykkja leiðina til að hún verði að veruleika með 2/3 hluta atkvæða. Gangi það eftir verður kosið í kjörnefnd til að fylla önnur sæti á listanum og almennir flokksmenn myndu því einungis fá að segja skoðun sína á því hver leiðir listann.
Einungis einn frambjóðandi gefur kost á sér til að leiða listann, en það er Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi. Hún hefur sagt að hún vonist eftir því að flokkurinn haldi opið prófkjör um efstu sæti á lista. Eyþór Arnalds oddviti flokksins í Reykjavík hætti við framboð sitt skömmu eftir að Vörður samþykkti að leggja til leiðtogaprófkjörið. Honum leist vel á að halda leiðtogaprófkjör, eftir að sú tillaga kom fram.
Nú er komin yfirlýsing um væntanlegt framboð til opins prófkjörs hjá Sjálfstæðisflokknum, sem eins og áður segir er enn óvíst hvort fari fram eða ekki.
„Vonandi verður haldið prófkjör fljótlega og þá mun ég væntanlega bjóða mig fram í 2-3. sæti á listanum,“ segir í orðsendingu Þorkels til fjölmiðla.