Verðbólgan gæti aukist enn frekar á þessum ársfjórðungi og tekið langan tíma að hjaðna, en Seðlabankinn gerir ekki ráð fyrir að hún nái undir fjórum prósentum fyrr en á næsta ári. Enn fremur nefnir hann að hætta á stríðsátökum í Evrópu hafi aukið óvissuna um efnahagshorfur á næstu misserum. Þetta kemur fram í nýjasta hefti Peningamála, sem kom út í morgun.
Seðlabankinn gerir ráð fyrir að verðbólgan verði 5,8 prósent að meðaltali á yfirstandandi ársfjórðungi. Gangi sú spá upp mun hún því aukast annað hvort í febrúar eða mars, en hún nam 5,7 prósentum í janúar.
Hann segir að framlag hækkunar húsnæðisverðs til verðbólgu áfram vera mikið og skýra tæplega helming af verðbólgunni, en bætir þó við að verðbólga án húsnæðis hafi einnig aukist og mælist nú 3,7 prósent, sem er rúmu prósentustigi yfir verðbólgumarkmiði.
Ekki bara húsnæðisverð
Bankinn telur að verðbólgan verði töluvert meiri á næstu misserum en spáð var í nóvember og býst við að hún verði 5,6 prósent á öðrum fjórðungi þessa árs. Þar spila væntingar um áframhaldandi verðhækkanir á húsnæðismarkaði stórt hlutverk, en einnig er búist við að innflutt verðbólga muni aukast á næstu mánuðum.
Alþjóðleg verðbólga hefur nú þegar verið meiri en gert var ráð fyrir, en Seðlabankinn segir það meðal annars vera vegna hækkunar olíu- og hrávöruverðs. Samkvæmt bankanum mun lengri tíma taka að vinda ofan af framboðshnökrum vegna afleiðinga farsóttarinnar, en hann telur þó flutningskostnað hafa náð hámarki.
Þar að auki nefnir Seðlabankinn að útlit sé fyrir mikla launahækkana í ár vegna svokallaðs hagvaxtarauka kjarasamninga. Á sama tíma er ekki gert ráð fyrir miklum framleiðnivexti starfsfólks, svo bankinn býst við að launakostnaður á framleidda einingu hækki töluvert. Þetta, ásamt alþjóðlegri verðbólgu, segir bankinn gera það að verkum að verðbólga hjaðnar hægt í markmið.
Hætta á stríði nefnd í fyrsta skiptið
Líkt og áður nefnir Seðlabankinn að óvissa sé um framvindu efnahagsmála og að spár hans byggjast á þeirri forsendu að hvorki verði alvarlegt bakslag í baráttunni við farsóttina né óbreyttar framboðstruflanir á heimsvísu.
Bankinn nefnir einnig hættu á stríðsátökum í Evrópu sem annan óvissuþátt um efnahagsþróun á heimsvísu, en líkt og Kjarninn hefur áður fjallað um hefur töluvert herlið Rússa safnast saman við landamæri Úkraínu. Þetta er í fyrsta skiptið sem bankinn gerir grein fyrir þessum óvissuþætti.