Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra segir að það þurfi að vera einhver sýn á það hvaða aðstæður séu boðlegar fyrir hælisleitendur að búa við á milli þess sem þeim er synjað um hæli og mál þeirra tekið upp að nýju eða þeim vísað úr landi. „Við getum ekki verið með fólk hérna sem bara ráfar um göturnar tekjulaust á meðan það bíður úrlausnar sinna mála.“
Þetta sagði hann í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í gær en Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, spurði hann meðal annars hvort það hefði engan kostnað í för með sér að margfalda þann fjölda sem á rétt á þeirri fjárhagsaðstoð og þjónustu sem Íslendingar veita kvótaflóttamönnum.
Kjarninn greindi frá því í vikunni að fjórtán manns hefðu misst þjónustu á vegum Útlendingastofnunar eftir að hafa neitað að fara í COVID-19 próf þegar til stóð að vísa þeim úr landi til Grikklands. Nú stendur yfir neyðarsöfnun fyrir þessa flóttamenn sem margir eru frá Palestínu.
„Ég veit að þegar er veitt mikil þjónusta öllum þeim sem fá hér hæli eða dvalarleyfi, líklega einhver sú mesta sem fyrirfinnst og að því marki að ásókn í hæli hér er orðin hlutfallslega sexfalt meiri en í Danmörku og Noregi. Við höfum hins vegar einbeitt okkur að því og lagt metnað í það að taka vel á móti kvótaflóttamönnum sem eiga meðal annars rétt á fjárhagsaðstoð, félagslegri ráðgjöf, húsnæði, menntun, leikskólakennslu, tómstundastarfi, heilbrigðisþjónustu, tannlækningum, þjónustu túlka, síma og svo framvegis,“ sagði þingmaðurinn í fyrirspurn sinni í gær.
Sigmundur Davíð spurði þar af leiðandi ráðherrann hvort það væri hans skoðun að það hefði engan kostnað í för með sér að margfalda þann fjölda sem á rétt á þeirri fjárhagsaðstoð og þjónustu sem Íslendingar veita kvótaflóttamönnum. Jafnframt spurði hann hvort Bjarni teldi að þetta myndi ekki hafa nein áhrif á þann fjölda sem myndi leita hingað umfram önnur lönd á sama tíma og önnur Norðurlönd væru að reyna að hindra hælisumsóknir og beina öllum í kvótaflóttamannakerfið.
Höfum „opnað of víða í kerfinu“ fyrir kærur
Bjarni svaraði og sagði að þessum spurningum væri auðsvarað. „Ef við aukum réttindin til að fá stuðning þá mun það kosta peninga,“ sagði hann og bætti því við að Íslendingar þyrftu að horfast í augu við það að í þessu kerfi hefði málsmeðferðartíminn á undanförnum árum kostað ríkissjóð „óheyrilega mikla peninga“ – eða marga milljarða á hverju ári.
„Þess vegna hef ég talað fyrir því að við skerpum á þeim tilfellum þar sem við eigum að geta komist hratt að niðurstöðu, við einföldum ferlið til að klára hraðar mál sem allan tímann voru líkleg til að enda með höfnun. Við höfum opnað of víða í kerfinu fyrir kærur sem geta dregið málin og endanlega niðurstöðu þeirra á langinn og ég held að það sé kannski einkum þar sem við skerum okkur úr í samanburði við önnur ríki sem vinna að þessum málum á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, að möguleikarnir til að fá endurupptöku og frekari skoðun sinna mála séu fleiri í íslenska kerfinu. Það getur valdið alveg sérstaklega miklum kostnaði,“ sagði Bjarni.
Biðin gæti aukist enn meira
Sigmundur Davíð sagði í framhaldinu að það væri ágætt að ráðherra viðurkenndi að þetta fæli í sér kostnað en þá þyrfti að reyna að meta þann kostnað samhliða þessum breytingum sem myndu hafa mjög veruleg áhrif.
„Ef ásóknin eykst gerir það kerfinu erfiðara fyrir að afgreiða umsóknir og biðin getur þar af leiðandi orðið lengri og sá kostnaður eykst þá líka fyrir vikið. Það er því mjög sérkennilegt – í ljósi þess að hæstvirtur ráðherra viðurkennir að ýmsir gallar eru á kerfinu, það er ekki að virka sem skyldi og ekki hefur tekist að ráða bót á því enn sem komið er – að stjórnvöld skuli ekki byrja á að laga þá galla heldur ráðast í aðgerðir sem eru til þess fallnar að auka vandann meira, fá enn meiri fjölda umframumsókna, sérstaklega þegar þetta gerist á sama tíma og önnur Norðurlönd eru að reyna að stöðva hælisumsóknir og beina flóttamönnum, hælisleitendum, í kvótaflóttamannakerfið. Við erum á sama tíma að fara í þveröfuga átt,“ sagði hann.
Kann ekki góðri lukku að stýra í þessum málaflokki að vera með lægstu þröskuldana
Bjarni steig aftur í pontu og sagði að hann gæti svo sannarlega tekið undir að það kynni ekki góðri lukku að stýra í þessum málaflokki að vera með lægstu þröskuldana – þegar fá mál væru tekin til athugunar þar sem umsækjendur fengju stuðning á meðan á athugun stæði og að vera með fleiri kæruleiðir en aðrir.
„Hvort það megi leiða til séríslenskrar leiðar í þessum efnum að fjöldi umsókna hafi verið meiri hér en hlutfallslega annars staðar skal ég ekki segja. En fyrir þinginu hefur legið frumvarp frá dómsmálaráðherra, óafgreitt í fleiri en eitt þing, sem meðal annars er ætlað að taka á afgreiðslu þessara mála þannig að hægt sé að komast hraðar að niðurstöðu,“ sagði ráðherrann.