Gistinætur á hótelum í apríl voru 174.300 sem er ellefu prósent aukning miðað við apríl 2014. Gistinætur erlendra gesta voru 83 prósent af heildarfjölda gistinátta í mánuðinum en þeim fjölgaði um sextán prósent frá sama tíma í fyrra á meðan gistinóttum Íslendinga fækkar um tíu prósent milli ára. Þetta kemur fram á vef Hagstofu Íslands.
Flestar gistinætur á hótelum í apríl voru á höfuðborgarsvæðinu eða 122.800 sem er fimm prósent aukning miðað við apríl 2014. Næst flestar voru gistinætur á Suðurlandi eða um 22.800. Erlendir gestir með flestar gistinætur í apríl voru; Bretar 35.800, Bandaríkjamenn með 22.700, og Þjóðverjar með 13.700 gistinætur.
Á tólf mánaða tímabili maí 2014 til apríl 2015 voru gistinætur á hótelum 2.427.000 sem er fjölgun um þrettán prósent miðað við sama tímabil ári fyrr, að því er segir á vef Hagstofu Íslands.