Ríkissjóður greiddi í dag upp eftirstöðvar svkallaðs Avens skuldabréf, að fjárhæð 192 milljónir evra auk vaxta. Upphaflegt nafnvirði bréfsins var 402 milljónir evra, gefið út árið 2010 með lokagjalddaga 2025. Eftirstöðvar skuldabréfsins, jafnvirði 28,3 milljarða króna, voru greiddar með gjaldeyrisinnstæðum ríkissjóðs í Seðlabanka Íslands. Innstæðurnar höfðu vaxið nokkuð á árinu, meðal annars vegna uppgreiðslu Arion banka á víkjandi lánum ríkissjóðs, samtals að fjárhæð 20 milljarðar króna.
Þetta kemur fram í frétt á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Avens-lánið var tilkomið vegna kaupa ríkissjóðs á eignavörðum skuldabréfum Avens B.V., sem var félag í eigu gamla Landsbankans. Bankinn hafði sumarið 2008, skömmu fyrir hrunið, fengið fyrirgreiðslu hjá Evrópska seðlabankanum í Lúxemborg gegn veði í skuldabréfum Avens. Eignir Avens voru fyrst og fremst íslensk skuldabréf og varð félagið stærsti einstaki eigandi krónueigna utan Íslands.
Við bankahrunið eignaðist Evrópski seðlabankinn kröfu á Avens og undirliggjandi krónueignir. Í kjölfar samkomulags Seðlabanka Íslands og ríkissjóðs annars vegar og þrotabús Landsbankans og Seðlabanka Evrópu hins vegar, um kaup á eignum Avens, var gert samkomulag við 26 íslenska lífeyrissjóði sem keyptu stóran hluta af krónueignum Avens gegn greiðslu í evrum. Þetta var gert í maí 2010 en viðskiptin voru á þeim tíma lífeyrissjóðunum afar hagstæð, það er þeir fengu mikinn „afslátt“ af skráðu gengi krónunnar í gjaldeyrisskiptum sínum. Eignirnar sem lífeyrissjóðirnir keyptu fyrir evrur voru skuldabréf útgefin af ríkissjóði og Íbúðalánasjóði.