Alls minnkaði gjaldeyrisforði Seðlabanka Íslands um 1,5 prósent í október, en það samsvarar minnkun um 14,2 milljarða króna. Forðinn er ekki enn orðinn jafnstór og hann var á sumarmánuðum 2020, en hann minnkaði um fimmtung samhliða miklum inngripum bankans á gjaldeyrismarkaði á seinni hluta síðasta árs. Þetta kemur fram í hagtölum frá Seðlabankanum.
15 prósent stærri forði í ár
Samkvæmt tölunum hefur gjaldeyrisforðinn aukist um 15 prósent, eða um 108 milljarða króna frá upphafi árs. Á sama tíma hefur gengi krónunnar gagnvart helstu viðskiptamyntum hennar haldist nokkuð stöðugt, en gengisvísitalan styrktist um tvö prósent á milli janúar og október.
Líkt og Kjarninn hefur áður fjallað um minnkaði gjaldeyrisforðinn hratt samhliða gengisveikingu, miklum inngripum Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði og reglubundinnar sölu hans á gjaldeyri á seinni hluta síðasta árs. Gjaldeyrissalan var algjört einsdæmi ef litið er aftur til síðustu aldamóta.
Einnig gengið á forðann í byrjun ársins
Seðlabankinn hélt áfram að grípa inn í á gjaldeyrismarkaði í stórum stíl á fyrstu mánuðum þessa árs, en hann seldi gjaldeyri fyrir tæplega 40 milljarða króna í janúar, febrúar, mars og apríl.
Á sumarmánuðunum snerist hins vegar sú þróun við, þar sem seðlabankinn brást við miklu innflæði fjármagns með kaupum á gjaldeyri, en kaupin námu um 20 milljörðum í maí, júní og júlí. Síðan þá hafa inngripin verið mun minni, þrátt fyrir að gengi krónunnar hafi veikst um tæp þrjú prósent á þessum tíma.
Krónan veikari eftir Delta
Íslandsbanki rekur gengisþróun krónunnar í nýlegri úttekt, en samkvæmt henni styrktist krónan á fyrri helmingi ársins, m.a. vegna umfangsmikilla kaupa erlendra aðila á íslenskum verðbréfum.
Í kjölfar hertra landamæraaðgerða vegna ris Delta-bylgju kórónuveirunnar hafi gengið hins vegar gefið eftir. Einnig hefur innlend eftirspurn eftir vörum og þjónustu tekið við sér á síðustu mánuðum, sem hefur leitt til meiri innflutnings og þar af leiðandi aukið hallann á vöru- og þjónustuviðskiptum við útlönd.