Gert er ráð fyrir að um 12 milljónir rafrænna skjala verði send í gegnum stafrænt pósthólf á Ísland.is á árinu en í fyrra voru um 8 milljón skjöl send með þeim hætti. Fjöldinn hefur vaxið hratt á nýliðnum árum, til að mynda voru rétt rúmlega milljón skjöl send í stafrænt pósthólf á Ísland.is árið 2017. Meðal þeirra gagna sem send eru í stafræn pósthólf eru upplýsingar um fasteignagjöld, launaseðlar og álagningarseðlar frá stofnunum og sveitarfélögum.
Þetta kemur fram í tilkynningu sem birt er á vef stjórnarráðsins vegna nýsamþykktra laga um stafrænt pósthólf. Lögin fela í sér að allir með íslenska kennitölu fá slíkt pósthólf sem hið opinbera nýtir til að koma gögnum til fólks. Með lögunum verður það að meginreglu að þegar gögnum sé miðlað til einstaklinga og lögaðila verði það gert með stafrænum hætti. Áfram verður þó hægt að óska eftir því að fá bréfpóst, kjósi fólk heldur þann sendingarmáta.
Þrátt fyrir að mikil aukning hafi orðið í birtingu gagna á Ísland.is er ekki þar með sagt að allt færist af pappír og á netið strax. Lögin tóku gildi um leið og þau voru samþykkt en fjármálaráðherra hefur nú verið falið að gefa út áætlun um starfræna birtingu af hálfu ríkisaðila og sveitarfélaga eigi síðar en fyrir lok árs. Áætlunin skal svo að fullu innleidd í síðasta lagi 1. janúar 2025.
Ríkið muni spara 300 til 700 milljónir á ári
Í áðurnefndri tilkynningu segir að nýju lögin hafi í för með sér aukið öryggi gagna og hagræði á mörgum sviðum samfélagsins, auk þess sem þau styðji við frekari framþróun á stafrænni þjónustu við almenning og þar með betri opinberri þjónustu og samskiptum við hið opinbera.
Sparnaður ríkissjóðs sem hlýst af því að senda skjöl rafrænt var talinn nema á bilinu 300 til 700 milljónum króna á ári samkvæmt greinargerð frumvarpsins en einnig segir að með breytingunni felist hagræðing fyrir sveitarfélög. Þar kemur meðal annars fram að póstburðargjöld ríkisins séu um 439 milljónir króna á ári en sparnaðurinn er sagður ná til fleiri atriða en burðargjalda. „Sparnaður við póstsendingar er aðeins hluti af jákvæðum áhrifum á ríkissjóð því auk póstburðargjalda verður sparnaður við umsýslu starfsmanna, prentun og fleira.“
Breytingin er einnig sögð tryggja upplýsingagjöf og minnka pappírsnotkun. „Þá mun frumvarpið jafnframt hafa jákvæð áhrif á umferð, kolefnislosun og tímanotkun almennings. Minni pappírsnotkun minnkar magn pappírs í úrgangsþjónustu sem og afleiddan húsnæðiskostnað vegna pappírsskjalavistunar og tryggir einnig betri rekjanleika í upplýsingagjöf.“