Bandaríski fjárfestingabankinn Goldman Sachs hefur tilkynnt að bankinn sé reiðubúinn að veita nánari upplýsingar um mjög gagnrýnd kaup á 18 prósenta hlut í danska orkufyrirtækinu DONG Energy. Við söluna í janúar 2014 varð ríkisstjórn Helle-Thorning Schmidt fyrir miklu áfalli og féll nærri.
Fjallað var ítarlega um furðulegan aðdraganda og eftirmála sölunnar á eignarhlut ríkisins í DONG til fjárfestingabankans í Kjarnanum undir fyrirsögninni Kaos í Kristjánsborg. Þáverandi fjármálaráðherra rauðu blokkarinnar í dönskum stjórnmálum gaf afar skamman frest fyrir fleiri tilboð að berast, en orkufyrirtækið var þá að öllu leyti í eigu danska ríkisins. Eftir misheppnaðar fjárfestingar fyrirtækisins í Bretlandi, Hollandi og víðar varð að afskrifa háar fjárhæðir.
Því var ákveðið að selja stóran hlut í DONG og sýndi Goldman Sachs mikinn áhuga. Það endaði með að bankinn keypti 18 prósenta hlut fyrir um átta milljarða danskra króna; eitthvað sem andstæðingar sölunnar töldu tombóluverð. Um það bil 200 þúsund undirskriftir söfnuðust gegn sölunni og mörg þúsund manns mótmæltu við Kristjánsborgarhöll, sem hýsir danska þingið.
Í kjölfarið klofnaði samsteypustjórn Helle-Thorning Schmidt þegar þriðji stjórnarflokkurinn, Sósíalíski þjóðarflokkurinn, hrundi vegna málsins og ráðherrar flokksins sögðu af sér. Fylgi ríkisstjórnarinnar hrundi eftir sölu DONG og í þingkosningunum í Danmörku í júní hlaut bláa blokkin meirihluta atkvæða og ný ríkisstjórn tók við.
Goldman Sachs hefur gefið Claus Hjort Fredriksen, fjármálaráðherra, leyfi til að veita upplýsingar um sölu forvera síns á orkufyrirtækinu og Fredriksen hefur tilkynnt að hann vilji veita fjárlaganefnd danska þingsins öll gögn um söluna.
Yfirmenn hjá fjárfestingabankanum hafa sagt í viðtölum það sé óeðlilegt að bankinn veiti leyfi til að dreifa slíkum upplýsingum en mikilvægt sé að kveða niður „mýtur og getgátur“ um dularfult samningaferlið í aðdraganda sölunnar.
„Við höfum ekkert að fela og sjáum þess vegna enga ástæðu til þess að koma í veg fyrir að fjárlaganefnd þingsins fjalli um málið. Við höfum komist að niðurstöðu um að eðlilegt sé að bregða út af vananum,“ sagði Martin Hintze við Berlinske.
Helle Thorning-Schmidt sýnir konungshjónunum aflgjafa DONG Energy ásamt framkvæmdastjóra fyrirtækisins árið 2013.