Norðmenn hafa í um tólf ár unnið að og nú hleypt af stokkunum áætlun sem hefur það að markmiði að fyrirtæki og jafnvel ríki geti greitt fyrir að regnskógar fái að standa óhreyfðir. Áætlunin hefur verið unnin innan norskra ráðuneyta og er hugsuð sem ný leið í baráttunni við loftslagsvánna. Bandaríkin og Bretland eru þegar orðin þátttakendur sem og fjöldi fyrirtækja á borð við Amazon, Airbnb, lyfjafyrirtækið GSK.
Í frétt norska ríkissjónvarpsinsum málið segir að þeir sem vilji taka þátt þurfi að skuldbinda sig til að greiða að minnsta kosti einn milljarð bandaríkjadala, um 125 milljarða króna. Með fénu er ákveðið svæði í regnskógi varið og þannig dregið úr losun 100 milljóna tonna af koltvísýring út andrúmsloftið.
Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, sagði í dag, er verkefninu var formlega hleypt af stað, að um sögulegt augnablik væri að ræða sem Norðmenn gætu verið stoltir af. Hún sagði verkefnið hafa áhrif á heimsmælikvarða í baráttunni við hlýnun jarðar af manna völdum. Bæði skuldbinda þátttakendur í verkefninu sig til að draga úr eigin losun og einnig að tryggja vernd regnskóga.
Umhverfisráðherra Noregs segir verkefnið ekki eiga að virka sem syndaaflausn fyrir þá sem menga mikið. Með því að gerast aðili að regnskógaverkefninu þurfi þátttakendur að uppfylla strong skilyrði og mun þriðji aðili votta að þeir fari að þeim. Þau ríki sem taka þátt geta t.d. ekki verndað regnskóg á einum stað en stuðlað að eyðingu hans annars staðar, segir umhverfisráðherrann Sveinung Rotevatn. Hinir tveir þættir verkefnisins þurfi að fara saman; að draga úr eigin losun og vernda samtímis regnskóg. Þá verður því þannig farið að landið þar sem regnskóginn er að finna fær frádrátt í losunarbókhald sitt – ekki ríkið eða fyrirtækið sem greiðir fyrir verndina.
Ráðherrarnir vona að verkefnið veki áhuga fleiri landa og fyrirtækja sem ákveði svo að taka þátt.
Eyðing regnskóga heimsins jókst um 12 prósent milli áranna 2019 og 2020. Samtals voru um tíu milljónir hektara regnskóga hitabeltisins felldir eða ruddir í fyrra.